01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jakob Möller:

Jeg á brtt. á þskj. 454, sem jeg vil aðeins fara um fáum orðum. Jeg skýrði frá því við 2. umr., að jeg mundi við þessa umr. bera fram brtt. um að setja alla sjónleiki í lægri skattflokka, vegna þess, að það hefir ekki reynst einhlítt, sem upphaflega var gert, og átti að tryggja leikstarfsemi í kaupstöðum út um land gegn hærri skattinum, með því að binda lægri skattákvæðin við sjónleiki, sem nytu opinbers styrks, því það hefir ekki alstaðar tekist að fá styrk til leikfjelaga eða leikstarfsemi frá bæjarfjelögunum, en þessi skattur, 20%, er alt of hár, og því er ekki auðið að halda uppi leikstarfsemi, ef hann verður að gjaldast. Þessi brtt. um sjónleikina á að greiða fyrir starfsemi til eflingar leiklistinni eða að henni verði haldið uppi, og jeg held, að sjóðurinn missi engra tekna, hvort heldur verður úr, brtt. samþ. eða ekki. Eins og nú er, eru tekjurnar engar af þessum sjónleikum, vegna þessa háa skatts, og verði honum ekki ljett af að einhverju leyti, þarf engra tekna að vænta, því þá verður víst, að leikstarfsemi sú, sem um er að ræða, legst alveg niður. Vænti jeg, að brtt. þessi verði samþykt, ef menn vilja greiða eitthvað fyrir eflingu leiklistarinnar úti um land.