15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

64. mál, gengisviðauki

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. form. fjhn. (KlJ) segir, að jeg hefði getað spurst fyrir í fjhn., og er nokkuð til í því, en jeg veit þó ekki betur en að þm. hafi fullan rjett til að bera fram þau mál; sem þeir telja nauðsynleg. (KlJ: Jeg tók það líka fram) . En háttv. þm. (KlJ) má vita það, að þótt jeg hefði fengið að vita um frv. það, sem nú er komið frá fjhn., þá var mjer það ekki nóg; hjer er ekkert annað verið að gera en efna loforð, sem stjórnin gaf í byrjun þings, en það nægir mjer ekki, þar sem jeg vil ganga lengra með mínu frv., svo að þó að jeg hefði leitað upplýsinga hjá fjhn., þá hefði ekki getað orðið samkomulag um það, sem felst í mínu frv. En sannleikurinn er sá, að þessar árásir hv. þm. og snuprur til mín eru algerlega út í loftið, og þó að hann hljóti þann heiður að verða form. fjhn., þá þarf hann ekki að þemba sig svo upp að vilja ekki leyfa öðrum að bera fram frv. Jeg hefi athugað þá till., sem stjórnin gerir í sínu frv., en mjer datt ekki í hug, að fjhn: mundi fara að skifta um skoðun, eftir að hagur ríkissjóðs var orðinn miklu glæsilegri en áður var, því að þá hefði hún gengið inn á það, að gengisviðaukinn skyldi feldur úr gildi 31. desember 1926. En jeg verð að halda því fast fram, að þetta tekur virkilega til annara en ríkissjóðs; það tekur líka til þeirra, sem eiga að gjalda þann skatt. Og þegar ljett er af sköttum eftir því frv., sem fjhn, hefir nú látið útbýta, þá er það gert með það fyrir augum að halda þyngstu sköttunum á mönnum við sjávarsíðuna, því að skatturinn á kaffi og sykri heldur áfram að vera, og um það get jeg aldrei orðið sammála við hv. nefnd, því að jeg álít, að hann eigi að falla niður.