15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

49. mál, afnám laga um bráðabirgðaverðtoll

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu um þetta frv. það er svo um það eins og svo margt annað, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) ber fram hjer á þingi, að það er ætlað til þess að sýnast, en ekki til að vera. Þessi hv. þm. (JBald) er á hverju þingi ákaflega fjörugur í því að bera fram frv. um afnám eða hækkuná einhverjum tekjum ríkissjóðs, en svo þegar hin hliðin, útgjöldin á fjárlögunum, er til umr., þá er hv. þm. jafnfjörugur við að hækka þau, og er þannig sjálfum sjer ósamkvæmur. Jeg hygg nú, að hv. þm. (JBald) geri þetta ekki af því, að hann sjái ekki, að slíkt getur ekki staðist. Jeg hygg, að háttv. þm. (JBald) beri fram þessi frv. sín um afnám skatta aðeins til þess að sýnast. Jeg veit, að jeg þarf ekki að gera hv. deild neina grein fyrir því, að eftir þeim mælikvarða fyrir framkvæmdum af ríkissjóðs hálfu, sem tekinn er upp á fjárlög fyrir árið 1927, er því miður ekki hægt að vera án verðtollsins, og jeg held, að á meðan fjhn. er ekki komin fram með álit sitt, sje að minsta kosti ekki tímabært að tala um að vera án þessara tekna. Og jeg fyrir mitt leyti tel nú ekki miklar líkur til þess, að sú nefnd, eða þingið í heild, muni vilja fara mikið skemra í útgjöldum til verklegra framkvæmda á fjárlögunum heldur en stjórnin hefir gert. En þá er, eins og jeg gat um, ekki unt að vera án verðtollsins, og allra síst forsvaranlegt að fella hann niður á þessu ári, þar sem fjárlög fyrir þetta ár eru sett, og þau byggja beinlínis á þeim tekjum, sem ætlast er til, að þessi gjaldstofn beri. Jeg get hinsvegar látið mjer liggja í ljettu rúmi, hvort hv. deild afgreiðir þegar þetta mál til fulls, eða leyfir því fyrir siða sakir að fara til 2. umr. og nefndar.