15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

49. mál, afnám laga um bráðabirgðaverðtoll

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er jafnan svo, að þá er hæstv. fjrh. (JÞ) tekur til máls um fjármálin, þá skyldi maður ætla, að hann væri hinn eini maður, sem hugsaði um þau mál og stæði á verði fyrir hönd ríkissjóðs, svo harðorður er hann í garð þeirra manna, er dirfast að vera á annari skoðun en hann. Það lítur út fyrir, að hann telji sjálfan sig hinn eina mann á þingi, sem sparar útgjöld ríkissjóðs, en heldur í tekjurnar. En sje nú ferill hans rakinn, þá sjest glögt, að eigi eru það alt holl ráð ríkissjóði til handa, sem undan þeim rifjum koma. Það er skemst á það að minnast, að hann knúði fram tillögu hjer í hv. deild, till. um það, að láta ríkissjóð tapa stórfje. Á síðasta þingi kastaði fyrst tólfunum um tillögur stjórnarinnar og hæstv. fjrh. (JÞ) um fjármál landsins. Aldrei hefir verið meiri bruðlun en í sumum frv. þá. Þess vegna getur enginn maður tekið það alvarlega, að hæstv. fjrh. (JÞ) sje eini maðurinn, er hugsi um fjárhag landsins, en hinir þm. sjeu allir bruðlunarseggir.

Það er ekkert ósamræmi í því, að þá er bráðabirgða verðtollurinn hefir int hlutverk sitt, að borga lausaskuldir ríkissjóðs, þá vilji menn alment, að hann falli niður. Það verður til þess að ljetta afkomu almennings; því getur hæstv. fjrh. (JÞ) ekki neitað, þrátt fyrir öll digurmæli hans. Og jeg álít það algerlega óverjandi, ef hv. deild færi nú að fella frv. við 1. umr. Vil jeg víkja máli mínu til þeirra hv. þdm., sem voru með í því að koma verðtollinum á, og jeg bið þá að minnast þess, hve ófúsir þeir sumir hverjir þóttust vera til þess, og hugguðu sig við það, að lögin ættu aðeins að standa stutta stund. Síðan eru nú liðin um 2 ár. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að lögin hafi náð tilgangi sínum, og þess vegna megi ljetta tollinum af. Jeg vænti þess, að málinu verði vísað til fjhn., og að nefndin sjái sjer fært að fara sem næst tillögu minni.