15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

49. mál, afnám laga um bráðabirgðaverðtoll

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það fer fjarri því, að jeg hafi sagt nokkuð í þá átt, að jeg sje eini maðurinn, sem hugsi um fjárhag ríkisins eða eigi mestan þátt í viðreisn hans. Jeg hefi einmitt látið fá tækifæri ónotuð til þess að benda á þann sannleika, að það eru fleiri en stjórnin, sem hafa átt þátt í því starfi að rjetta við fjárhag ríkissjóðs. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) má þar að vísu gjarna undanskilja sig, því að hann hefir aldrei sýnt minstu viðleitni í þá átt að vilja rjetta við fjárhaginn. En hann er líka undantekning; hann er eini þingmaðurinn, sem jeg get undanskilið, að eigi þátt í viðreisnarstarfinu.

Það, sem hv. þm. (JBald) var að tala um bruðlun og eftirgjöf hjá stjórninni, þá er hvorttveggja missögn. Það er engin bruðlun, þótt síðasta þing vildi lina á sköttum og halda útgjöldum í hófi. Jeg er ekki heldur að saka hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um bruðlunarsemi, þótt hann vilji nú afnema verðtollinn. Mjer datt ekki í hug svo heimskulegt orðatiltæki.

Jeg hygg, að reynslan hafi nú rjettlætt allar till. stjórnarinnar í skattamálum á síðasta þingi. Að þær tillögur gengu eigi allar fram, á sinn þátt í því atvinnuleysi, sem hjer hefir verið, það sem af er þessu ári.