22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Klemens Jónsson:

Jeg hefði kunnað betur við, að hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem beðið hefir sjer hljóðs, hefði talað á undan, mjer í þessu máli, en úr því að jeg er á annað borð staðinn upp, þá er best að láta það nú koma, sem jeg vildi sagt hafa í þessu máli.

Þetta er í 3. skiftið, sem þetta mál er til umræðu á hinu háa Alþingi. Það var flutt í fyrsta skifti árið 1894, og síðan eru nú rúm 30 ár. Vakti þá málið geysimikla eftirtekt, var ekki aðeins kallað málið eina, heldur stóra málið. En málið var þá alveg órannsakað og óundirbúið, eins og það lá fyrir þinginu, og auk þess í sambandi við ýms önnur fyrirtæki, sem ekkert komu því við, svo sem strandferðir og ferðir milli Íslands og Englands.

Hefðu nú legið fyrir þinginu 1894 nákvæmar og áreiðanlegar skýrslur, undirbúningur málsins yfirleitt viðunandi, og hefði framsýni, bjartsýni og trú á landið ráðið gjörðum Alþingis í þessu máli, þá hefðum við nú þegar í mörg ár haft járnbraut alla leið austur að Þjórsá gegn 50 þús. kr. framlagi á ári, sem engan veginn var ókleift, jafnvel eins og þá stóð á. En það fór sem fór, eins og við var að búast, málið náði þá ekki fram að ganga, heldur lagðist í algert þagnargildi og vaknaði ekki aftur af dvala fyr en löngu eftir aldamót.

Árið 1913 kom svo fram frv. á Alþingi um að leggja járnbraut austur. Var það miklu betur undirbúið en áður, mælingar höfðu verið framkvæmdar á ýmsum stöðum, þar sem tiltækilegt þótti að leggja járnbraut. Var nú málið mikið rætt í þinginu, kostnaðaráætlun gerð og reiknað út, hvort brautin myndi geta borið sig eða ekki. En enn dagaði málið uppi. Nú er þetta mál komið hingað fyrir þingið í 3. sinn. Er það alveg sjerstaklega vel undirbúið, eins vel ok frekast er hægt að hugsa sjer. Hygg jeg, að eigi sje of djúpt tekið í árinni, þótt sagt sje, að ekkert mál, sem fyrir þetta háa Alþingi hefir komið, hafi komið eins vel undirbúið og þetta mál.

Ágætur norskur verkfræðingur hefir unnið nú um nokkurra ára skeið að undirbúningi þess, og hefir hann haft landsverkfræðinginn sjer til aðstoðar, eins og um samið var, og nú er komið fram ítarlegt yfirlit yfir verkið, nákvæm skýrsla frá þeim.

Það er ekki í fyrsta sinn, sem við höfum fengið ágæta verkfræðinga frá Noregi til þess að athuga samgöngutæki vor og fullgera þau, og við höfum verið alveg óvenjulega heppnir með þessa menn.

Sá maður, sem fyrstur kom hingað til að leggja hjer vegi og kenna okkur vegagerð, var Norðmaður að nafni Hovdenall. Hann er sannkallaður faðir akveganna hjer á landi. Ennfremur var sá maður Norðmaður, sem undirbjó að mestu leyti og stjórnaði alveg hjer símalagningunni, og hefir stjórnað símanum nú þegar í 20 ár, gegnt störfum sínum með einstakri trúmensku og á alþjóðarlof skilið. Og þessi maður, sem hjer um ræðir og undirbúið hefir járnbratttarlagningu austur að Ölfusá svona vel, er einmitt sjerfræðingur í járnbrautarfræði. Má því óhætt fullyrða, þar sem málið er svona vel undirbúið af svona góðum manni, að hjer liggi fyrir nákvæm og jafnvel alveg óskeikul áætlun.

Það fer oft svo, þegar svona stór mál koma til umræðu, að menn verða ragir við þau vegna þess, að þeir eru hræddir um, að kostnaðaráætlunin muni fara fram úr öllu lagi. En jeg held, að það sje hægt að sýna fram á það með óyggjandi rökum, að þessi hræðsla sje óþörf hjer, þar sem rannsókn þessara manna er alveg sjerstök í sinni röð; þeir hafa alls ekki bygt á annara skoðunum eða áætlunum, heldur myndað sjer alveg sjálfstæða skoðun í málinu, eins og best kemur í ljós, er það er athugað, að Sverre

Möller hefir valið alt aðra leið en áður hafði verið fyrirhuguð.

Þegar þetta mál er hjer í 3. sinn til umræðu, þá get jeg ekki annað en látið mína fylstu ánægju í ljósi út af því, að það skuli vera komið fram. Það er nú svo, að samgöngumálin hafa ætíð verið mjer ástfólgnust allra mála, er jeg hefi haft afskifti af. Jeg hefi af fremsta megni reynt að stuðla að framgangi þeirra. Þessvegna, frá því sjónarmiði skoðað, er mjer það sjerstök ánægja og fagnaðarefni, að málið er nú fram komið, vegna þess líka, að þetta mál snertir mitt kjördæmi óbeinlínis.

Þegar þetta mál hefir verið hjer til umr., hafa umræðurnar aðallega snúist um hina almennu hlið þess, t. d., að hve miklu leyti járnbraut gæti breytt landsháttum öllum, eflt atvinnuvegi hlutaðeigandi hjeraða og sett nýjan svip á landið í heild sinni, og hið sama hefir hv. aðalflm. (JörB) lagt áherslu á í framsöguræðu sinni og sýnt með tölum, að svo muni verða. Jeg get því slept að minnast á það að sinni og vona, að hv. þdm. geti það einnig, því að eins og þegar er sagt, þá hefir þetta mál verið hjer til umræðu áður og þessvegna flestum kunnugt

Jeg ætla heldur ekki að fara út í einstök atriði frv., læt það bíða nefndar, sem jeg á sæti i, tel jeg óþarft að ræða frekar um þau að þessu sinni.

En þó eru ýms atriði, sem jeg get ekki látið hjá liða að minnast á. Því hefir verið haldið fram nú við þessa umr. að ýms önnur samgöngutæki væri tiltækilegri en járnbrautir, eins og hjer á landi væri ástatt. Þessu þarf jeg að vísu ekki að svara, því að hv. flm. (JörB) tók það fram, að óhæft væri að nota bílvegi í stað járnbrautar, í sambandi við það, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) áleit, að komið gæti til mála að leggja bílveg í stað brautar. Í þessu sambandi vil jeg taka það fram, að þegar jeg var staddur í Osló haustið 1923, talaði jeg við skrifstofustjóra vegamálastjórnar Noregs og spurði hann, hvort betur mundi reynast á stöðum, þar sem aðstaðan er lík og hjer á landi, að nota bílvegi eða járnbrautir. Sagði hann þá, að bílvegir væru notaðir mikið í Norður-Ameríku, og væru þar að útrýma járnbrautum, og að nú væri verið að gera tilraun í Noregi með þetta, hvort betur gæfist. Nú geri jeg ráð fyrir, að þeirri rannsókn sje lokið í Noregi. Og þar sem Sverre Möller hefir lagt til að velja hjer heldur járnbraut, þá býst jeg við, að það sje meðfram af því, að Norðmenn sjeu komnir á þá skoðun, að járnbrautirnar sjeu betri. Að vísu hefir bílvegur ýmsa kosti fram yfir járnbraut, m. a. það, að fleiri geta haft full not af honum, því hann verður almennur umferðavegur, en járnbrautarlest er eina hægt að nota á þeim vegi, sem fyrir hana er lagður. Jeg geri því ráð fyrir því, að þar sem hjer er farið fram á járnbraut, þá sje því slegið föstu, að þeir, sem málið hafa rannsakað, vilji hana heldur en bílveg, og að hún sje að öllu leyti heppilegri.

Það var sjerstaklega hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sem hafði ýmislegt út á þetta mál að setja. Hann sagði meðal annars, að það gæti ekki komið til nokkurra mála að ráðast í fyrirtæki, sem þjóðinni væri ofvaxið, því að það mundi lama atvinnulíf og fyrirtæki landsmanna á öðrum sviðum. Satt er það að vísu, að þetta fyrirtæki má ekki lama aðalatvinnugreinir þjóðfjelagsins, en jeg er hálfhræddur um, að hv. þm. geti ekki fært þeim orðum stað, að 6 miljónir, þar sem vöxtunum er jafnað niður á mörg ár, lami að nokkru verulegu leyti önnur fyrirtæki. Það yrði e. t. v. að stöðva í bili ýmsar aðrar framkvæmdir, en það hefir áður komið fyrir. Þó er það alls ekki víst. En á hitt verður að líta, að sjeu menn sannfærðir um, að járnbrautin sje veruleg lyftistöng fyrir framfarir og menningu þjóðarinnar, þá verður einhverntíma að ráðast í þetta fyrirtæki og þá náttúrlega sem allra fyrst. En verði eigi í það ráðist nú, þá líða aldrei mörg ár, uns það verður gert.

Ef þetta frv. hefði komið fyr fram á þessu þingi, þá hefði það ekki mætt neinni verulegri mótspyrnu, eða vafalaust ekki eins mikilli og nú er raun á orðin. Það var flestum hv. þdm. kunnugt, að frv. þetta kæmi fram, og jeg vissi ekki betur en að ýmsir hv. þm. væru orðnir langeygðir eftir því, þótti það dragast nokkuð lengi. Hefði það komið þá fram, hefði það eigi sætt mótmælum, segi jeg, því mótmælin nú stafa aðallega frá viðburði, sem nýlega kom fyrir í þessari hv. deild, að feld var tillaga um að kaupa nýtt strandferðaskip. Háttv. þm, sem álíta bráðnauðsynlegt, að nýtt strandferðaskip verði bygt og sett í gang sem allra fyrst, geta ekki skilið, að þeir, sem feldu byggingu strand- ferðaskipsins, geti staðið sig við að koma fram með svona stórt mál, sem þetta. En hjer er þó talsverður munur á. Því að þar var farið fram á að veita þegar á þessu ári upphæð, sem nemur 1/2 milj. kr. til byggingar strandferðaskips. En hjer er aðeins um heimild að ræða. Kemur það skýrt fram í 7. gr. Þar er stjórninni veitt heimild til að leggja járnbraut, þegar undirbúningi er lokið og skilyrði öll uppfylt. Í fyrsta lagi getur orðið byrjað á undirbúningi brautarinnar 1928. En það er fyrirsjáanlegt, að verði á næsta ári, 1927, fjárhagur landsins mun glæsilegri en nú, þá eru full líkindi til þess, að samþykt verði að byggja strandferðaskip. Og verður það þá komið í fullan gang löngu á undan járnbrautinni. Jeg get því ekki sjeð neitt ósamræmi hjá þeim þm., sem ekki gátu samþykt byggingu strandferðaskips, þó að þeir nú samþykki að veita stjórninni heimild til þess að líta í kring um sig eða athuga lagningu brautar.

Jeg finn enga ástæðu til þess að taka það fram nú, hversvegna jeg ekki treystist til að greiða atkv. með byggingu strandferðaskipsins. Verð aðeins að taka það fram aftur, að jeg sje ekkert ósamræmi í því.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, þar sem jeg á sæti í þeirri nefnd, sem væntanlega fær það til athugunar. En viðkunnanlegra þætti mjer að heyra eitthvað frá stjórninni um álit hennar á málinu, áður en málið er sent í nefnd.