22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla nú ekki að tefja mikið eða draga á langinn umræðurnar. En undarlegt þætti mjer, ef jafnmikið mál og þetta yrði afgreitt frá þessari umr. án þess að um það væri talað.

Þegar jeg sá þetta frv., þótti mjer flm. nokkuð djarfir að bera það fram nú, þar sem nýlega hefir verið felt að leggja fram fje til almennra samgöngubóta, þar sem margfalt minna fjár var krafist. Lít jeg svo á, að almennar samgöngubætur eigi að sitja fyrir samgöngubótum einstakra hjeraða, og einmitt í strandferðamálinu er hægt að koma að almennustum samgöngubótum. Á móti því máli var ekki verulega annað haft en fjárhagsástæður. Hvernig var hægt að synja þar um fje, ef nú á að vera hægt að samþykkja margfalt hærra fjárframlag til þessa.

Þegar jeg sagði áðan, að mjer þætti flm. djarfir, þá bygði jeg á því, að nú er upplýst, að stjórnin hefir gengið með málið og undirbúið það, en ekki árætt að bera það fram.

Á meðan svona mörg verkefni liggja óleyst, meðan ekki er bætt úr hinum almennustu samgönguþörfum, á meðan heil hjeruð eru án allra samgöngubóta og margar stórár óbrúaðar, þá sje jeg ekki, að hægt sje að ráðast í þetta fyrirtæki, sem bindur fjárhagslega getu ríkisins um ófyrirsjáanlegan tíma.

Jeg ætla mjer ekki að ganga verulega inn á málið sjálft eða mæla gegn því. Það er í sjálfu sjer gott mál, að því leyti sem það miðar til samgöngubóta, en það þarf að vera vel undirbúið og vel athugað.

Það mætti nú telja álitamál, hvort þetta er eina leiðin til þess að bæta samgöngurnar milli hjeraða þeirra og bæja, er hjer ræðir um. Og einkennilegt er það, að í öðrum löndum er nú svo komið, að járnbrautirnar, einkum styttri járnbrautirnar, standast ekki samkepnina við bílvegina. Væri það raunalegt, ef við færum nú að ráðast í byggingu járnbrautar, þegar aðrar þjóðir eru að tapa trúnni á þær eða fara aðrar leiðir.

Á samkomu, sem haldin var fyrir fáum dögum hjer í bæ, voru flutt þau skilaboð frá löndum vorum í Vesturheimi, að hvað sem við gerðum til samgöngubóta, þá skyldum við þó ekki brenna okkur á því, að leggja járnbraut. En hvað sem til er í þessu, þá er ekki að efa, að Vestur-Íslendingar fylgja með áhuga málefnum okkar og vilja okkur vel.

Málið kemur svo seint fram og er svo stórt og vandasamt, að engin afsökun er fyrir því að hraða því af, þó að það kunni ef til vill að vera rjettmætt og gott í sjálfu sjer.

Mjer gæti nú dottið í hug, að ýms meðmæli hv. flm. kynnu að vera allvarhugaverð. Háttv. flm. sagði, að það væri járnbraut og ekkert annað, sem bjargað gæti hjeruðum þeim, er hjer eiga hlut að máli, frá því að tæmast að fólki, þau hefðu verið að tæmast undanfarið. Ástæðan væri sú, að þau stæðust ekki samkeppnina við sjávarútveginn og kaupstaðarlífið. En með járnbrautinni yrði afkoman svo miklu betri, að ástandið breyttist upp í endurbyggingu sveitanna. Jafnframt hefir járnbrautarmálið verið stutt með því, að kaupstaðirnir hjer við Faxaflóa hefðu svo svo mikinn hagnað af bættum samgöngum við austursveitirnar, eins og rjett er. En ef hitt yrði nú, að hagnaðurinn af járnbrautinni fyrir sveitirnar reyndist ekki meiri en hagnaðurinn fyrir kaupstaðina og útgerðina, eða kannske minni, gæti það þá ekki orðið til þess, að sveitirnar tæmdust því meir? (MJ: Mundi þá ekki stranderðaskipið tæma hinar sveitirnar?). Um það er alt öðru máli að gegna.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) var að minnast á afstöðu sína til strandferðaskipsins og þóttist forsvara sig þar vel, en ekki þótti mjer hann komast vel frá því. Hann sagði, að samgöngubætur væru og hefðu jafnan verið sitt áhugamál, en af fjárhagsástæðum gat hann þó ekki fylgt strandferðaskipinu. En þó að í þessu máli sje farið fram á margfalt meiri fjárútlát, getur hann samt fylgt því.

Skýringuna er að finna í ræðu hv. þm. Hann gat þess sem sje, að sínir kjósendur mundu hafa að minsta kosti óbeinan hagnað af járnbrautinni.