22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Magnús Jónsson:

Það er nú komið að fundarlokum, og ætla jeg því ekki að halda langa ræðu að þessu sinni, enda leyfir málrómurinn það ekki. Jeg er hás eins og háttv. þm heyra.

Um daginn, þegar talað var um að kaupa skip til strandferða, var því stungið að mjer, að það væri ekki heppilegt fyrir þá, sem vildu koma á járnbraut, að greiða atkvæði gegn því máli. Angraði þetta mig mjög, því að jeg sá reka hjer upp höfuðið hinn versta púka þessa þings, hefnigirni- og hrossakaupapúkann. En þetta var aðeins umtal, en nú er það komið á daginn í ræðum þeirra tveggja þm. Múlasýslna (SvÓ og HStef), er hjer hafa talað. En háttv. 2. þm. Rang. (K1J) hefir gengið svo vel frá þessu máli og sýnt fram á, að skipið geti jafnvel verið komið á undan járnbrautinni, að ekki virðist þörf á að víkja nánar að því.

Ef nú aðeins um það eitt væri að ræða, að velja á milli járnbrautar og strandferðaskips, þá mundi jeg hiklaust velja skipið, En þegar nú hefir verið bygt strandferðaskip, Esja, fyrir stórfje, og henni haldið úti með ærnum kostnaði, og þar sem Eimskipafjelagið þar að auki hefir styrk til að halda uppi hentugum strandferðum, og enn er ráðgert að við bætist kæliskipið, þá fer að verða spurning um, hvort þessi landshluti, sem hjer um ræðir, eigi ekki líka heimtingu á samgöngubótum.

Þegar skipuð var hjer í bæ nefnd í vetur til þess að rannsaka dýrtíðina og orsakir hennar, komst hún að þeirri niðurstöðu, að erlenda varan væri síst dýrari hjer en annarsstaðar. En aðalorsakir dýrtíðarinnar kvað hún vera hina háu húsaleigu og hið afarmikla verð á innlendum afurðum. En af hverju kemur nú þetta? Hjer liggur stór bær með 1/5 hluta íbúa landsins, sem hefir ákaflega litið uppland, og stendur því á versta stað. Verður því að knýja mjólk út úr landi, sem aðeins er sauðfjárland, en hefir verið ræktað með afarkostnaði fyrir nautgripi. En á milli bæjarins og áveitulandsins fyrir austan liggur svo háls, er gerir bændum erfiðari samkepnina. En þrátt fyrir örðugleika á að flytja mjólkina suður, geta þeir þó selt hana með sama verði og þeir, er framleiða hana undir bæjarveggnum.

Hjer er ekki aðeins um smábæ að ræða, heldur þá hlutfallslega stærstu höfuðborg heimsins. New York er aðeins 1/3 hluti af Reykjavík, ef miðað er við fólksfjölda ríkjanna. Hjer hefir verið ráðist í stórkostlegar hafnarbætur, er nema á 5. milj. kr. Og nú hefir verið ráðgert að auka þær enn, svo að öll hafnarvirkin koma þá til að nema yfir 5 milj. kr. Hafa hafnarbætur þessar gert mögulegt að stunda hjer togaraútgerð í stórum stíl. Mun verð alls togaraflotans, bæði hjer og í Hafnarfirði, skifta tugum miljóna. Safnast því hingað fjöldi manna. Svo eykst dýrtíðin sökum mannfjöldans og upplandsleysisins. Og er þetta mikið alvörumál fyrir alt landið.

Í nágrenninu liggur svo næst stærsti bær landsins, og í þessum tveim bæjum býr ¼ hluti allra landsmanna. Og eru þeir báðir undir sömu fordæminguna seldir.

Aftur á móti er fyrir austan fjall eitt hið besta graslendi landsins hafnarlaust.

Þar er því uppland hafnarlaust, en hjer hafnarbær upplandslaus. Það, sem svo skilur þessa staði, er aðeins 60 km. háls, ákaflega auðveldur meðferðar, þó járnbraut sje lögð um hann. Það þarf hvergi að grafa jarðgöng, hvergi að brúa og hvergi að yfirbyggja sökum snjóa. Er því hjer aðstaða öll ágæt.

Að því er snertir kostnaðinn við lagningu járnbrautar, skal jeg taka eitt dæmi. Nú hefir á tveim árum verið borgað, án óþolandi skatta, um 8 milj. upp í skuldir ríkisins. Með þessu fje hefði verið hægt að greiða allan kostnað við járnbrautina alveg upp í topp. Þó að upphæðin sje stór, þá sýnir það sig, að það er langur vegur frá því, að hjer sje verið hátt uppi í skýjunum og hátt fyrir ofan gjaldþol okkar.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) komst inn á samnaburð á járnbraut og vegum. En hann verður að beygja sig þar fyrir staðreyndum, því að bílar geta hvergi kept við járnbrautir, þar sem flutningur er mikill og vegalengdir miklar eins og hjer er. En aðstaðan var alt önnur í útlöndum. Þar voru vegirnir fyrir, þegar þetta spursmál var gert upp. Og þar standa borgirnar með stuttu millibili og hafa vegarspotta á milli sín, og skapast þannig langvegurinn af sjálfu sjer. En hjer er ekki þessu til að dreifa. Ef ætti að koma vandaður vegur austur, þá þyrfti að leggja hann alveg að nýju. Því að hann mundi alls ekki liggja þar, sem hann liggur nú, jafnvel ekki þar, sem vegurinn er nú bestur, t. d, á Hellisheiði, heldur alt annarsstaðar. — En ef borgir lægju nú hjer, t. d. ein á Lögbergi, önnur á Kolviðarhóli o. s. frv., þá væri alt öðru máli að gegna; þá skapaðist vegurinn svo að segja af sjálfu sjer.

En nú er um það að ræða, að tengja saman tvö bygðarlög, bæina við sjóinn og Suðurlandsundirlendið. Ef það verður ekki gert með járnbraut, þá þarf að leggja veg fyrir um 3 milj., sem ekkert gefur af sjer. En útreikningar sýna, að vegur með vönduðum bifreiðum getur ekki kept við járnbraut, þar sem vegalengd og flutningsþörf er jafnmikil og hjer.

Hv. l. þm. N.-M. (HStef) þótti einkennilegt, ef ætti nú að fara að leggja járnbraut í enda járnbrautartímabilsins. Eins var síminn lagður í enda símatímabilsins og reyndist á alt annan veg en margir hugðu.

Jeg sje nú, að klukkan er orðin 4, og þar sem ekki tekur því að skifta í sundur ræðunni, skal jeg nema hjer staðar.