24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir óskað eftir, að stjórnin ljeti uppi álit sitt um þetta mál. Jeg hjelt raunar, að það væri ekki nauðsynlegt, því að kunnugt er, að tveir ráðherranna hafa áður látið uppi álit sitt. Jeg get strax tekið fram, að því er mig snertir, að jeg er málinu hlyntur. Jeg sje fram á, að eins og flutningum er hagað, er óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð að leggja stórfje í veg austur hvort sem er. Jeg vil þá heldur taka þetta stóra skref, af því von er um, að þetta fyrirtæki geti borgað sig. Verði vegur lagður, fær ríkíssjóður ekkert í aðra hönd. Það er tekið fram í áliti vegamálastjóra um málið, að ef járnbraut kemur ekki, verði ekki komist hjá að leggja veg austur að Ölfusá, og mundi hann kosta 31/2 miljón kr. Síðan kemur til viðbótar viðhald á þeim vegi, án þess ríkissjóður fái nokkuð í aðra hönd. Verði lögð járnbraut, má búast við miklum tekjum. Jeg efa ekki, að til langframa yrði það ríkissjóði hagkvæmara heldur en að halda við vegi með þeirri umferð, sem nú er. Síðan 1914 hefir verið lögð ½ miljón kr. í veginn austur að Ölfusá, og þó efa jeg, að vegurinn sje nú í betra ástandi en 1914. Altaf er einhver kafli ófær, enda er umferðin geysimikil, og einkum fara flutningabílarnir illa með veginn, Nú munu menn segja, að halda verði við vegi austur hvort sem er. Það er satt. En það er mikill munur að halda við venjulegum vegi eða vegi fyrir alla flutninga austur og að austan. Það mun vera af ókunnugleika hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að honum dettur í hug að bera þessa braut saman við Fagradalsbrautina. Sá samanburður er algerlega villandi.

Jeg segi fyrir mig, að jeg mundi með ánægju taka móti þeirri heimild, sem hjer er um að ræða. En auðvitað er ekki hægt að lofa neinu um framkvæmdir, meðan ekki er sjeð, hvernig gengur að útvega fje. — Benda má og á það, að frá byrjun og til þessa dags hefir ríkissjóður greitt um 100000 kr. til þess að rannsaka járnbrautarstæðið og járnbrautarmálið. Nú hlýtur maður að ganga út frá því, að þessum 100 þús. kr. hafi ekki verið fleygt út til þess að tefja tímann, heldur hafi það verið tilgangurinn, ef rannsóknin sýndi, að, fyrirtækið væri vel tiltækilegt eða gott, þá ætti að framkvæma verkið; en náttúrlega er það ekki þar með sagt, að það eigi að byrja á því nú þegar; enda þarf enn ýmislegs undirbúnings áður en verkið verður hafið.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) kvartaði yfir því, hversu frv. væri seint fram komið. En því er þar til að svara, að vegamálastjóri var eigi tilbúinn með tillögur sínar um málið, fyr en talsvert var liðið á þingið. Annars þarf jeg ekki fyrir þetta að svara, þar eð frv. er ekki stjfrv. Það var ekki rjett gert af þeim hv. þm., sem settu þetta frv. í samband við kæliskipsmálið og strandferðaskipið. það var að vísu nokkru nær um það siðarnefnda, sem þó var samgöngumál, en að rugla þessu frv. saman við kæliskipsmálið átti ekki við. Það var borið fram til hjálpar öðrum aðalatvinnuvegi landsins, og átti því ekki við að setja það í samband við samgöngumál. Jeg efast um, að þeir, sem börðust mest fyrir strandferðaskipinu, hefðu gert sig ánægða með slík heimildarlög og þetta frv. er. Þó jeg væri ekki hlyntur því, að strandferðaskipinu væri hnýtt aftan í annað óskylt mál til að tefja fyrir því, er jeg þó alveg viss um, að bæði kæli- og strandferðaskipið verður komið áður en járnbrautarlagningunni verður lokið. Járnbrautarmálið þarf ýmsan undirbúning, fjáröflun o. fl., svo að það er ekki hægt að segja, hvenær hægt verður að byrja á framkvæmdum í því.

Jeg fer ekki neitt út í frv. sjálft, nema eitt eða tvö atriði aðeins, sem jeg vil drepa örlítið á. Það fyrra er það, hvort ekki væri hægt að láta Reykjavíkurbæ leggja eitthvað fram af kostnaði við framkvæmd verksins. Þetta er spurning, sem vel mætti athuga nánara. Hitt atriðið er það, hvort ekki gæti orðið tiltækilegt að láta fjelag einstakra manna annast járnbrautarlagninguna. Það er líka vert að athuga það. Það var einhver hv. þm., sem talaði um undirbúning málsins, og mjer virtist hann vefengja áætlanir þær, sem gerðar hafa verið, bæði um stofnkostnaðinn og rekstursáætlanir. Jeg þori auðvitað ekki að ábyrgjast þær, en jeg veit þó, að vegamálastjórinn hefir reynt að áætla eins varlega og nákvæmlega og honum var unt, svo að líkurnar til, að áætlanirnar færu fram úr ágiskun hans, væru sem allra minstar.

Ef borin eru saman járnbrautarstæðin hjer á landi og erlendis, t. d. í Noregi, sjest, að mismunurinn er mjög mikill, okkur í hag, Og þegar menn, sem þaulkunnugir eru járnbrautarlagningum í Noregi, hafa verið jafnrækilega hafðir með í ráðum og hjer hefir verið gert í þessu máli, er alls eigi hægt að fá betri nje ábyggilegri áætlanir. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekara um þetta, en jeg vona aðeins, að frv. komist sem fyrst til nefndar, án mjög mikilla umræðna úr þessu. „Eldhúsdagurinn“ fer nú í hönd, og væri því æskilegt, að þessari umræðu yrði lokið áður en hann kemur.