26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Sveinn Ólafsson:

Við fyrri hluta þessarar umræðu var vikið fremur kuldalega að mjer af hv. flm. frv. fyrir þá skuld, að jeg hefði látið í ljós, að jeg mundi eiga erfitt með að fylgja frv. þessu út úr þinginu. Frá þessum sömu mönnum komu þá líka fram ýmsar athugaverðar fullyrðingar viðvíkjandi málinu og horfum fyrirtækisins, og get jeg ekki leitt hjá mjer að minnast nokkrum orðum á þetta. En áður en jeg vík að því, sem til mín hefir verið sent, verð jeg að fara nokkrum almennum orðum um málið í heild sinni.

Það kemur ljóslega fram í greinargerð frv., að járnbrautarfyrirtækið er á því bygt, að árangurinn af áveitufyrirtækjum austanfjalls verði svo og svo góður og uppfylli glæsilegustu vonir manna, en eins og kunnugt er, er aðaláveitufyrirtækið, Flóaáveitan, með öllu óreynt enn, þar sem vatninu verður í fyrsta sinn á þessu ári veitt yfir svæðið. Lítilsháttar reynsla er að vísu fengin um Skeiðaáveituna, en hún er ekki að öllu leyti að óskum, eins og vitað er. Jeg hygg það flestum í minni, að á næstliðnu ári kom fram skýring eða athugun manns eins, sem við áveituna er riðinn, og benti til þess, að eftir rannsóknum, sem hann hefði gert, mundi áveituvatnið fara burtu af áveitusvæðinu auðugra af næringarefnum jurtanna, heldur en inn á svæðið. Með öðrum orðum, jarðvegurinn ætti eftir því smátt og smátt að tæmast af frjóefnum. Vel getur verið, að þessi athugun sje ekki sannprófuð, og að eitthvað sje bogið við hana, en það bendir þó til þess, að rjett sje að bíða og láta reynsluna tala áður en miljónafyrirtæki er reist á voninni einni óprófaðri. Miljónafyrirtæki sem þetta er alvarlegt fótmál að stíga fyrir jafn-fámenna og fátæka þjóð eins og okkur.

Jeg hefi þegar látið það í ljós, að mjer þykir mest vandhæfi á að styðja þetta frv., sakir þess að ekki verður gengið úr skugga um — ekki einu sinni ráðið í það — hvernig fyrirtækið á að bera sig. Einnig álít jeg óforsvaranlegt að skapa kyrstöðu í öllum öðrum opinberum framkvæmdum vegna þessa eina fyrirtækis. Hitt hefi jeg látið í ljós, að jeg væri fyrirtækinu hlyntur og vildi styðja það, þegar sannfæringin leyfði og ekki væri með því hnekt tilfinnanlega öllum öðrum framkvæmdum. Jeg verð að geta þess, að á undanförnum 10 árum, sem jeg hefi átt sæti hjer, hefi jeg oftast með fúsu geði rjett upp höndina, þegar þurft hefir að styðja fyrirtæki til þrifa og hagsbóta hjeruðunum austanfjalls, sem þó hafa verið fjárfrek í meira lagi. Jeg veit, að á þessum tíma hefi jeg lagt lið mitt til, að veittar yrðu miljónir til þessara hjeraða í vegum, áveitufyrirtækjum o. fl., án þess nokkuð hliðstætt hafi verið gert fyrir önnur hjeruð. Jeg hygg því, að engan furði, þótt jeg hiki við, þegar enn er farið fram á að leggja þeim margar miljónir; þótt jeg skoði huga minn áður en jeg rjetti upp höndina með þessari fjárveitingu, sem óhjákvæmilega hlýtur að skapa kyrstöðu um allar verklegar framkvæmdir annarsstaðar á landinu.

Það er rjettmætt að bera saman þau fríðindi, sem þessar sveitir austanfjalls hafa notið, móts við önnur hjeruð landsins. Sá samanburður sýnir það eitt, að ekkert hjerað kemst í námunda við þær. — Jafnvel þótt teknar væru. margar sýslur annarsstaðar á landinu, þá mundu þær til samans ekki komast til jafns við þessar sveitir um efnalegan stuðning frá ríkissjóði.

Jeg get nú að mestu látið mjer lynda þennan formála, en það verð jeg að segja, að mjer þótti kenna nokkurs vanþakklætis frá hv. aðalflm. þessa máls (JörB) til mín og annara, þegar það er athugað, hve oft og örlátlega hefir verið stutt að því, að veitt væri stórfje til þessara hjeraða.

Af því að því hefir verið haldið fram í umræðunum um þetta mál, að með járnbrautinni yrði bætt úr samgönguþörf, sem á engan annan hátt verði bætt úr og sem sje svo brýn, að úr henni verði tafarlaust að bæta, verð jeg að benda á það, að með járnbraut er alls eigi bætt úr akvegaþörf hjeraðanna, því að eftir sem áður verður að halda við vegi, akfærum fyrir bifreiðar og vagna, bæði austur um heiði og um sveitirnar eystra. Járnbrautin þýðir því tvær flutningabrautir austur, og fer því mjög fjarri, að ríkið losni við að halda akfærum vegi þeim, sem nú er.

Þá vil jeg einnig taka það fram, að það, er á engan hátt útilokað, að hjeruð þessi geti orðið aðnjótandi samgangna á sjó. Menn vita vel, að möguleiki er fyrir því, og hann ekki lítils virði.

Þannig var það áður fyr, meðan samgöngur á sjó voru betri og strandferðaskipin voru tvö, að annað þeirra hafði fastan viðkomustað á Eyrarbakka. Þessi möguleiki er enn fyrir hendi, og má margt gera til að efla slíkar samgöngur.

Báðir hv. flm. þessa máls tóku það fram með nokkuð berum orðum, að mótspyrnan gegn þessu frv. myndi stafa af hefndarhug, sakir þess að feld var um daginn í þessari hv. deild till. um kaup á strandferðarskipi. Sjerstaklega lagði hv. 2. flm., 4. þm. Reykv. (MJ), mikla áherslu á þetta. Talaði hann um, að hjer væri á ferð einhver ógeðslegur „hefnigirnipúki“ sem málum spilti. Nafnið er fremur óliðlegt, en þó nokkurnvegin ljóst, hvað í því liggur, og verð jeg að segja, að tæpast er viðeigandi að nota þessa samlíkingu, og er það hvorki viturlegt nje góðgjarnlegt. Annars má segja um þessa hefnigirni, ef hún á annað borð væri til, að hún væri fremur óeðlileg frá minni hendi, þar sem hefndin kæmi niður á saklausum. Jeg ætla ekki að fara að gera mikið veður út af þessu írafári hv. þm., en verð að segja það, að þegar svona rök eru notuð til að styðja gott mál — eins og flm. eðlilega telja járnbrautarmálið — þá verður naumast litið á það öðruvísi en sem rökþrot og ráðaleysi. Jeg get ekki litið öðruvísi á, þegar hv. 4. þm. Reykv. (MJ) viðhefur þessi ummæli, en að hugur hans sje móttækilegur fyrir hefndarhug. Hann vekur því aðeins grun á sjálfum sjer, með þessum ummælum. — Hv. aðalflm. (JörB) viðhafði meðal annars þau orð um athugasemdir mínar, að með því að mæla á móti þessu frv. yrði jeg fyrsti maður til að hnekkja einhverju þýðingarmesta landbúnaðarmáli, sem borið hefði verið fram hjer á Alþingi. Og þar með virtist honum jeg hafa sýnt, að jeg mæti ekki sveitamenninguna eins mikils og jeg ljeti af. Með. þessu hefir hv. þm. gefið fyllilega í skyn, að fylgi mitt við landbúnaðarmál og sveitamenningu sje yfirvarp eitt. Þótti mjer sá lakastur grikkurinn og þetta því einna kuldalegast af því, sem fram hefir komið í umræðunum. Jeg verð að minna hv. aðalflm. á það, að víðar eru til landbúnaðarhjeruð en hjerna fyrir austan heiði, hjeruð, sem ætíð hafa verið sett hjá og ekki hafa fengið eyrisvirði af opinberu fje til búnaðarframkvæmda, —því að jeg get ekki talið, þótt úthlutað hafi verið frá búnaðarfjelögum nokkrum krónum fyrir dagsverk í jarðabótum. — Já, stór landbúnaðarhjeruð hafa verið afskift til þessa. Um þau ber líka að hugsa, og þau eiga rjett á, að tillit sje tekið til þarfa þeirra, engu síður en suðurláglendið. Það er ekki svo að skilja, að jeg hafi styggst við þessi brigslyrði; jeg veit, að enginn, sem þekkir mig, ætlar mjer neina tvöfeldni í þessu eða grunar mig um græsku, og víst veit jeg, að kjördæmisbúar mínir verða síðastir til að trúa slíku. Það er eins með þessa rökfærslu og hefndarhuginn; hún getur ekki sýnt annað en rökþrot og veilan málstáð.

En af því að hv. aðalflm. (JörB) o. fl. nota orðið sveitamenning stundum í tvíræðri merkingu, þykir mjer rjett að gera nokkra grein fyrir því, hvað jeg á við, er jeg tala um sveitamenningu og gildi hennar. það er landfleygt, og jeg geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. viti það, að háskólakennari einn í Vesturheimi, Huntington að nafni, hefir gefið út bók um eðlisfar og einkenni þjóðanna, og talið Íslendinga fremsta allra nútíðarþjóða að andlegu atgjörvi. Hefir hann dregið fram ýms sterk rök og ljós til sönnunar þessu. En sakir þess, að hann hlaut að skorta nægan kunnugleik og þekkingu á ýmsum þjóðháttum hjer, hefir hann, að því er jeg held, ekki komið auga á aðalorsökina. Hann bendir á það, að þjóð vor sje brot af norsku þjóðinni, sem ætíð hafi verið með best gefnu þjóðum, og því af góðu bergi brotin; en í nútímanum sjer hann andlega yfirburði hjá íslensku þjóðinni, og ætti henni þessvegna að hafa farið fram eða Norðmönnum aftur, síðan á landnámsöld. Það er vitaskuld, að án orsaka verða engir atburðir, og þessvegna heldur ekki staðreyndin hjá Huntington, en fúslega munum vjer allir vilja viðurkenna, að þjóð vor sje gædd þeim hæfileikum, sem þessi vestræni vísindamaður heldur fram.

Jeg hefi nú reynt að gera mjer grein fyrir orsökunum til þessa einstæða fyrirbæris, sem Huntington nefnir, og sú niðurstaða, sem jeg hefi komist að, er orðin mjer einskonar trúaratriði. Jeg hygg, að ástæðan sje sú, að þetta brot norsku þjóðarinnar, sem hingað fluttist, hefir ætíð lifað bændalífi, og hefir aldrei þurft að eyða einum blóðdropa til þess að reisa rönd við kynspillingu eða úrættun, sem bæirnir valda, fyr en þá á síðasta mannsaldri. En í Noregi hófst bæjamyndun snemma á öldum, sem verkað hefir eins og blóðtaka, af því að sveitirnar hafa orðið að reisa þar sem annarsstaðar rönd við úrættuninni í bæjunum. Orsök þess andlega gjörvileika hjá Íslendingum er því sú, að minni hyggju, að þeir hafa lifað sveitalífi alla tíð. Þessvegna er það svo mikilsvert í mínum huga, að vernda sveitamenninguna, að ekkert annað kemst í hálfkvisti við það. Verð jeg áfram þeirrar skoðunar, þótt nú sje farið að drótta að mjer óheilindum í þeim sökum.

Því hefir nú verið haldið fram með talsverðri alvöru, að þetta járnbrautarfyrirtæki myndi bera sig fjárhagslega. Hefir um það verið vitnað í skýrslu hins norska verkfræðings, sem rannsakaði járnbrautarstæði og staðháttu, í álit vegamálastjórans hjer á landi og í ummæli hæstv. atvrh. (MG), sem allir hafa verið á því, að járnbrautin bæri sig. Það er nú út af fyrir sig nokkurs vert, að sjerfræðingar halda þessu fram, en einhlítt er það þó ekki. Þessum mönnum getur skjátlast í sínum áætlunum, enda hefir það komið í ljós við ýms önnur fyrirtæki, og kemur fram einkennilegur grunur um það hjá hv. aðalflm. (JörB), að áætlanirnar muni eigi vera sem ábyggilegastar,því að hann gat þess til, að ekki mundi verða minni rekstrarhalli á strandferðaskipi en á járnbraut. Þar með vefengdi hann áætlanirnar og gerði ráð fyrir rekstrarhalla á járnbrautinni. — En enginn hefir hjer haldið því fram, að strandferðaskipinu fyrirhugaða verði siglt rekstrarhallalaust.

Hv. aðalflm. (JörB) lagði á það talsverða áherslu, að hollustuhættir, sem ynnust fyrir Reykvíkinga með járnbrautarsambandi við suðurláglendið, væru svo mikilsverðir vegna aðflutnings landafurða, að rjettlætt gætu fyrirtækið. Jeg skal játa það, að það er mikilsverður þáttur í fyrirtækinu, en þó enganveginn svo mikilsverður, sem hv. aðalflm. hefir viljað halda fram. Hjerna megin við heiðarnar er svo stórt sveitahjerað og mikið ræktanlegt land, að hollustuháttum borgarinnar ætti að geta verið vel borgið. Hv. þm. fór í þessu sambandi að vitna í orð mín við annað tækifæri, um þjóðlegri bæjarbrag og betri hollustuhætti á Akureyri en hjer, sakir þess að Akureyri væri umkringd af stóru landbúnaðarhjeraði. Jeg verð því að minna á það, að þótt járnbraut kæmi austur um heiðar, þá yrði Reykjavík eigi fremur en nú umkringd af sveitum.

Jeg þarf ekki að elta ólar um öllu fleira við hv. aðalflm. (JörB); get víst látið annað niður falla. En þá verð jeg að víkja ögn betur að meðflm. hans, hv. 4. þm. Reykv. (MJ).

Hann lagði óvenjumikla áherslu á það, að járnbrautin þyrfti að tengja saman Reykjavík og láglendið fyrir austan. Sjerstaklega væri Reykjavík þetta mikil nauðsyn, þar eð hana skorti uppland og væri þó stærsta höfuðborg í heimi, ef miðað væri við fólksfjölda landsins. Þetta er nú ekki allskostar rjett hjá hv. þm. Jeg man eftir höfuðborg, sem að hlutföllum er allmikið stærri. Það er höfuðborgin á eyjunni Mön í Írlandshafi. Íbúar hennar eru 25 þúsund af 55 þús., sem á eynni búa. En svo sem kunnugt er, er Mön sjálfstætt ríki. Þetta er auðvitað ekki stórt atriði, en hitt er einnig ofsagt, að Reykjavík hafi ekkert uppland, svo sem jeg hefi minst á að framan. Frá þessu sjónarmiði er nauðsynin því ekki eins brýn og hann vildi vera láta.

Þá var önnur fullyrðing, sem sami hv. þm. bar fram til að hvetja oss til fylgis við járnbrautina. Og hún var sú, að sjerstaklega auðvelt væri að byggja brautina og að ekki þyrfti að yfirbyggja hana til neinna muna. Jeg held nú þvert á móti, að það þurfi að yfirbyggja hana á langri leið, ef vetrarsamband á að vera örugt. Yrði sú aðferð ekki höfð, er auðvitað til önnur, sú að nota amerískar snjódælur, sem kljúfa þykka skafla og dæla snjónum til hliðar frá brautinni. En það eru afardýr áhöld og yrðu síst til sparnaðar, þótt notuð séu á stöku stað erlendis.

Sami hv. þm. (MJ) vildi styðja þetta frv. sitt með því, að dýrtíðin hjer mundi minka, eða jafnvel hverfa við samgöngubót þá, sem járnbraut austur yfir fjall veitti, af því að dýrtíðin kæmi að mestu leyti af skorti á landbúnaðarvörum, sem til bæjarins þyrftu að flytjast að austan. Hann tók það ennfremur fram, að erlendar vörur væru eins ódýrar hjer, eða ódýrari, en annarsstaðar á landinu og þeirra vegna væri hjer ekki dýrtíð. Jeg vil nú ekki tefja tímann með því að lesa hjer upp skýrslu, sem ósannar þessi orð hans. Útreikningar hagstofunnar á verðlagi hjer í Reykjavík í október og nóvembermánuði næst liðnum, og samanburði á þeim við verðlag austur á landi, sem jeg þekki vel. En við þann samanburð kemur í ljós, að verðlag á ýmiskonar vörum útlendum var 30–40% hærra hjer enn austur þar. (MJ: Það hlýtur þá að vera smygluð tollvara!). Nei, það voru frjálsar vörur fluttar inn af pöntunarfjelagi og því ekki á þær lagt meira en bráð nauðsyn bar til, en seldar við sannvirði. Þetta get jeg sýnt hv. þm. ef hann vill, þótt jeg ekki lesi töflurnar upp. Af þessu sjest, að dýrtíðin hjer stafar meðfram af því, að bærinn hefir hlaðið á sig skuldum, og þeir, sem vöruverslun hafa og gjaldendur eru í bænum, verða því að leggja afskaplega á vörurnar. Og hætt er við, að þetta haldist, þótt járnbraut verði lögð. Líkt er ástatt um þær þungu búsifjar, sem húsaleigan veitir mönnum hjer, en hætt er við því, að hún lækki ekki mikið, þótt járnbraut kæmi.

Þá skal jeg ekki tefja tímann lengur með því að. svara háttv. flm. frv. Mig langar hinsvegar til að víkja nokkrur orðum að ræðu háttv. 1. þm. Árn. (MT), sem vjek að sama efni. Mjer þykir fyrir, að hann skuli ekki vera viðstaddur, því að í bróðerni vildi jeg við hann tala, en jeg get ekki slept því að minnast á ræðu hans, þótt hann sje fjarverandi. Þessi hv. þm. sagði, að ástæðan gegn járnbrautarmálinu væri sveitardráttur. Hann nefndi það þessu nafni, og er það sama kenningin og kom fram hjá hátt. flm., en þeir kölluðu það hreppapólitík. Jeg hefi nú svarað þessu atriði áður að nokkru. Þessi sveitardráttur er algerlega eðlilegur og hefir ætíð verið til. Mjer finst það ekki óeðlilegt, að hjeruð, sem altaf eru sett hjá og afskekt eru um fjárhagslegan stuðning til allra framkvæmda, kvarti og óski jafnrjettis um stuðninginn, en ekkert meira felst í sveitardrætti. Annað, sem þessi hv. þm. sagði máli sínu til stuðnings, var það, að allar mennilegar framkvæmdir á þessu landi ættu upptök sín í Reykjavík eða í landnámi Ingólfs. Þetta átti þá að vera næg ástæða til þess, að þingheimur fylgdi þessu frv., að það er reykvískt að uppruna því ber nú ekki að neita, að flestar stórfeldari verklegar framkvæmdir seinni tíma eiga rót sína að rekja til höfuðstaðarins. Það er heldur ekkert undarlegt, þótt svo sje því að okkar fátæka þjóð hefir gert alt, sem hún hefir getað, til þess að hlaða undir þennan bæ, efla hann og styrkja. En jeg tel þetta ónýt meðmæli með járnbrautarmálinu og get ekki fallist á það, að vaxtarbroddur íslenskrar menningar sje í Reykjavík eða í landnámi Ingólfs. Þótt margt kunni að vera vel um Reykjavík og margt nýtilegt og gott eigi hingað rætur að rekja; þá er hitt líka víst, að margt hið skemmilegasta, sem fram hefir komið í menningu þessarar þjóðar, er frá höfuðstaðarmenningunni komið. Og vjer höfum sjeð hjerna síðustu dagana spegilmynd af því, hve djúptæk og holl menning höfuðstaðarins er.

Mitt álit er, að vaxtarbroddur menningarinnar íslensku liggi langt fyrir utan Reykjavík. Jeg hygg, að hann sje helst að finna í landnámi Helga magra eða Þóris snepils. Hann var einu sinni austan fjalls, í Odda og í Haukadal, og einu sinni var hann í Reykholti, en jeg neita því eindregið, að hann sje í landnámi Ingólfs.

Hv. þm. sagði, að þetta járnbrautarfyrirtæki væri eðlilegt framhald af áveitunni og eiginlega sjálfsagður hluti hennar. Jeg veit það fullvel, að svo fremi áveitufyrirtækið hepnast, þá mundi járnbraut ljetta undir með öllum flutningum úr áveituhjeruðunum og til þeirra, en það er ekki þar með sagt, að leggja eigi fram þessar miljónir, sem áætlað er, að járnbraut kosti, eftir að lagðar hafa verið miljónir í áveitun og áður en vitað er, hvernig áveitufyrirtækin hepnast. Jeg hygg, að til jarðræktarfyrirtækjanna austanfjalls sje búið að verja af opinberu fje á þriðju eða 3 miljónum króna. Þessi óvenju mikli stuðningur virðist þó hafa orðið að litlu liði. Eftir því, sem kunnugir menn hafa skýrt frá, mun efnaleg afkoma þarna vera erfiðleg og „alt í grænum sjó“. Á síðasta þingi var leitað eftirgjafar á stórri skuld vegna sparisjóðs Árnessýslu, sem hrunið hefir og gert nauðasamninga. Kaupfjelagið Hekla, sem þarna hefir starfað, mun einnig oltið. Bankaútibúið, sem þar var sett upp fyrir fáum árum, líka talið illa stætt vegna þess, hve fjárhagsástæður manna í hjeruðunum í kring eru slæmar. Alt þetta ætti að skýra varfærni okkar, sem hikum við að ráðast í miljónafyrirtæki vegna þessara hjeraða, og það því fremur sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sjálfur hefir kent ófarirnar eystra takmörkuðum búmannshæfileikum bændanna þar austur.

Jeg á nú eftir einar 7 eða 8 athugasemdir, sem jeg hefi skrifað upp úr ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT), en jeg ætla að sleppa þeim vegna þess, að hann er fjarverandi. En síðasta atriði ræðu hans get jeg þó ekki slept. Það var nokkurskonar olnbogaskot til mín fyrir það, að jeg hefi ásamt fleiri háttv. þm. borið fram till. um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þingflutnings til Þingvalla. Þykir honum með því stefnt til eyðslu eigi minni en járnbrautarbyggingu svarar. Það liggur nú ekki fyrir hjer að ræða um þá tillögu og ekki tími til að fara út í kostnað við þinghald þar eystra, en þingið, sem þar var háð og stóð á 9. hundrað ára, heimtaði hvorki þau útgjöld, sem hjer er imprað á, nje þær háu hallir, er hv. 1. þm. Árn. (MT) gerði ráð fyrir. Hann hefir vissulega skotið hjer yfir markið, og mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, að till. um þjóðaratkvæðagreiðslu um þingflutninginn skuli vera notuð sein árás á mig í járnbrautarmálinu, og slíkt borið fram af Árnesingi, því að með till. er vissulega stefnt að því, að flytja miðstöð lands og þjóðar til Árnessýslu, og mundi það framar flestu öðru tryggja hjeraðinu járnbraut. Mjer þætti líklegt, ef þingflutningurinn kæmist á, að þá yrði tillagan úrslitaatriðið, sem trygði það, að járnbraut austur yrði bygð. Mjer fanst því ekki hyggilegt af hv. þm. að minnast á till. í þessum tón.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að það mætti heita barnaleikur að byggja járnbraut austur yfir fjall, borið saman við það, hvernig er að byggja járnbrautir annarsstaðar. Jeg er ekki í vafa um, að þetta stafar af ókunnugleika hjá hæstv. ráðherra. Það er áreiðanlega meiri erfiðleikum bundið að leggja þessa járnbraut en víðast í nágrannalöndunum. Auk þess eru alstaðar í nágrannalöndunum meiri líkur fyrir arðvænlegri rekstri en hjer. Því er þessi fullyrðing eintómt slagorð. Jeg veit að vísu, ef höfð er fyrir augum járnbrautin frá Björgvin til Oslóar, þá er bygging austur yfir heiði auðveldari, en Björgvinjarbrautin er undantekning fráþví almenna og mikilfenglegasta fyrirtæki á Norðurlöndum af þessu tæi. En þar eru líka betri skilyrði fyrir því, að slík braut beri sig, en hjer er um að ræða.

Jeg ætla nú ekki að þreyta hv. þdm. lengur og sleppi því öðrum athugasemdum í bili. Get jeg ef til vill á síðari stigum þessa máls vikið að þeim.