26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend upp aðallega til þess að bera af mjer sakir. Háttv. þm. N.-Þ. (BSv) dró inn í þessar umræður alveg óskylt mál, og kom með aðdróttanir í minn garð, sem jeg að vísu hefi orðið var við áður, en jafnan eigi hirt um að svara þeim. En þegar eigi ómerkari þingmaður en háttv. þm. N.-Þ. tekur upp þessar gömlu aðdróttanir, get jeg ekki látið hjá líða að svara þeim nokkrum orðum.

Háttv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði, að mjer hefði láðst að mæla minsta hugsanlegt vatnsmagn Elliðaánna, og að þetta væri rjett hjá sjer, sýndi hann með því að vitna til þess, hve nú væri oft erfitt að halda rafmagnsstraumnum í fullri spennu, þegar frost kæmu og vatnið þverraði. En jeg get upplýst, að fyrir þessu hefir verið mælt, bæði af mjer og öðrum, og það var fyrirfram reiknað með því, að minsta vatnsmagn ánna gæti orðið ca. 2,5–2,4 teningsmetrar á sekúndu. Síðan jeg mældi þetta hafa verið framkvæmdar á þessu miklu nákvæmari mælingar og rannsóknir en mjer var unt, og hefir rafmagnsveitustjórninn staðið fyrir þeim mælingum, sem gerðar voru, þegar þessi óvenjulegi þurkatími kom hjer yfir, sem allir kannast við, er haustrigningarnar brugðust algerlega. Og niðurstaða þessara síðari mælinga og rannsókna hefir sýnt og sannað, að mælingar mínar um minsta hugsanlegt vatnsmagn í ánum hafa verið nákvæmlega rjettar. Jeg hafði einnig gert fyrirfram útreikninga um truflanir þær, sem vænta mátti, að frost og ís í ánum gætu komið til leiðar, og gaf jeg bæjarstjórn Reykjavíkur ítarlega skýrslu um þetta, áður en ráðist var í framkvæmd verksins, og má lesa þessar skýrslur mínar allar í Tímariti Verkfræðingafjelagsins, þar sem þær hafa verið birtar. Þar lýsti jeg öllum þeim erfiðleikum, sem búast mátti við af þessum ástæðum að síðar kæmu fram, og sýndi fram á, hvaða ráðstafanir mundi verða nauðsynlegt að gera, til þess að losna við þá. Yfir höfuð hefir til þessa ekkert það komið fyrir á þessu sviði, sem ekki var gert ráð fyrir fyrirfram, og má lesa um þetta alt í áður nefndu Tímariti Verkfræðingafjelagsins, þar sem þetta er prentað.

Jeg kann því illa við, að enn sje verið að veifa slíkum staðleysum um ónákvæmar mælingar á Elliðaánum. Við áttum ekki kost annara fallvatna eða höfðum ekki efni á að ráðast í virkjun annara fallvatna, og því urðum við að sætta okkur við þá erfiðleika, sem sagt var fyrir, að búast mætti við.