29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

103. mál, iðnaðarnám

Flm. (Jón Baldvinsson):

Lög þau, sem nú gilda um iðnaðarnám, eru frá 1893, og hafa þá eflaust verið samin eða þýdd eftir dönskum lögum. En á þeim árum var dönsk löggjöf haldin af hinum rammasta afturhaldsanda. Eru í þeim lögum ýms ákvæði, sem nú eiga ekki lengur við, og er hin mesta nauðsyn, að þeim sje nú breytt og færð í það horf, sem betur fullnægir kröfum tímans.

Það er aðallega tvent, sem á að tryggja með lögum um iðnaðarnám: að nemandinn verði vel að sjer í sinni grein, og að rjettur hans verði eigi fyrir borð borin. — Hið fyrra má telja, að sje sæmilega trygt í frv., m. a. með því að fyrirskipa kenslu í teikningu, sem hefir ekki verið lögskipuð áður. það hefir verið svo að undanförnu, að hjerlendir iðnaðarmenn hafa varla staðið jafnfætis útlendum að mentun, því þótt hjer hafi verið ýmsir „þjóðhagasmiðir“, þá mun þó engum blandast hugur um, að þeir hefðu náð miklu lengra með góðri mentun. — Hitt aðalatriðið, að láta ekki bera rjett iðnnemans fyrir borð, hefir verið reynt að tryggja í frv. þegar iðnsveinar gera samning við meistarana, standa þeir vitanlega miklu ver að vígi. Eru því í öllum lögum um iðnaðarnám ákaflega rík ákvæði, sem að þessu lúta.

Þetta frv. er nú allseint fram komið, svo að jeg býst varla við, að það nái fram að ganga á þessu þingi. En jeg vona, að því verði hleypt til allshn., svo að það gæti þá orðið til þess, að ýta undir löggjöf um þetta á næsta ári.

Jeg hefi eigi samið þetta frv. sjálfur, heldur er það samið að tilhlutan „Fjelags ungra kommúnista“ hjer í bæ, af tveim stúdentum. Er annar þeirra um leið iðnaðarmaður, hefir stundað trjesmíði um nokkurt skeið, og ætti það að vera nokkur trygging þess, að frv. sje sæmilega úr garði gert.

Jeg get fallist á, að frv. sje breytt nokkuð, en aðaldrættirnir verða þó að halda sjer, því að þeir hygg jeg að gangi í rjetta átt. — Mun jeg svo ekki tefja þingtímann með því að tala meira um þetta mál við þessa umr. — Vona jeg, að hv. deild hleypi frv. til nefndar.