28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

109. mál, landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vil láta þess getið, að jeg sje ekki neitt á móti því, að hætta við að leggja fje úr ríkissjóði í landhelgissjóðinn. Það verður eftir nægilegt fje í landhelgissjóði, þrátt fyrir það, til þess að byggja fyrir eitt skip. Jeg á bágt með að ímynda mjer, að nokkur tæki verði á því, í náinni framtíð, að gera út fleira en 2 skip, því að eftir því sem líklegt þykir, mun Þór endast lengi enn. Skipsskrokkurinn er vel sterkur, og þótt það þurfi viðgerð, þá hygg jeg, að hún verði aldrei dýrari en svo, að tilvinnandi sje. Held jeg því, að óþarft sje að leggja fram þessar 20 þús. kr. Jeg er því sammála hv. frsm. (JóhJóh) um það, að engin ástæða sje til þess að leggja fje úr ríkissjóði í sjóðinn og taka það svo aftur jafnhendis til strandvarna. En fyrir mjer er þetta ekki stórt mál, sem mikið veltur á, hvort nær fram að ganga eða ekki. En jeg hefi viljað láta það álit mitt í ljósi, að mjer sýnist rök hv. fjvn. fyrir frv. vera fullgild.