03.05.1926
Efri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

109. mál, landhelgissjóður

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og nál. á þskj. 458 ber með sjer, hefir sjútvn. þessarar deildar lagt til að samþykkja þetta frv.

Með lögum frá 1913, um stofnun landhelgissjóðsins, var svo ákveðið, að ríkissjóður legði landhelgissjóði árlega til. 5 þús. kr. Mun það hafa verið tilætlunin, að það væri stofnsjóður hans. Með breytingu á þessum lögum frá 1915, er árstillagið hækkað upp í 20 þús., vafalaust með það sama fyrir augum. Hefir þessi hækkun sennilega komið til af því, að þinginu hefir fundist vöxtur sjóðsins með 5 þús. kr. tillagi úr ríkissjóði árlega ganga nokkuð seint. Sjútvn. lítur því svoleiðis á, að þetta tillag úr ríkissjóði hafi frá upphafi vega borið að skoða sem stofnsjóð landhelgissjóðs. Nú er svo komið, að landhelgissjóðurinn er orðinn 11/2 milj.; og þó að hann, sem ákveðið er, greiði andvirði hins nýja strandvarnaskips, sem þegar er að verða lokið smíði á, þá mun hann koma til með að eiga 1 milj. í sjóði að því loknu. Þótt sjóðurinn samkvæmt síðustu reikningum nái ekki alveg þeirri upphæð, þá hygg jeg, að svo miklar tekjur hafi sjóðnum borist á þessu ári, að óhætt muni að fullyrða þetta.

Nú er sjávarútvegsnefnd það ljóst, að upprunalegi tilgangur sjóðsins var eigi aðeins sá, að hann hjeldi áfram að vaxa að vissu marki, og yrði svo gerður að eyðslueyri, heldur og einnig hitt, að hann árlega legði nokkuð af tekjum sínum við höfuðstólinn og hjeldi þannig sífelt áfram að vaxa. En með þeim tekjum, sem sjóðurinn hefir nú, og með þeim ráðstöfunum á tekjum hans, sem nú eru gerðar og eru algerlega samkvæmar tilgangi hans, sem sje, að sjóðurinn leggi til starfrækslu landhelgisgæslunnar árlega, það sem hann er fær um, þá virðist vel mega láta sjóðinn vaxa, þó að ríkissjóðstillagið hverfi. Í sannleika sagt sýnist það tilgangslaust að leggja sjóðnum til 2 þús. kr. úr ríkissjóði á ári, þegar hann getur vaxið án þess, um leið og hann leggur nokkurt fje til landhelgisgæslunnar árlega. Jeg lít svo á, að höfuðstóll sjóðsins þurfi að vaxa, en hann þurfi ekki að vaxa mjög hröðum skrefum, ef þess er gætt, að af árlegum tekjum sjóðsins sje altaf lagður nokkur hluti við höfuðstólinn. Og eins og kemur fram í nál., leggur sjávarútvegsnefnd áherslu á það, að á hverju ári sje þessa gætt, svo að minsta kosti jafnmikil upphæð og ríkissjóðs-styrknum nemur verði lögð við höfuðstólinn. Og þá tel jeg sjóðnum vel borgið án ríkissjóðsstyrks.

Mjer finst málið liggja nokkurn veginn ljóst fyrir. Aðalskilyrðið fyrir sjóðinn er ekki nú þessi ríkissjóðsstyrkur. Aðalskilyrðið er, að höfuðstóll sjóðsins sje ekki skertur að öðru en til kaupa nýrra gæsluskipa, eftir því er þörfin krefur, en árlega verði lagt eitthvað við hann.

Mjer virðist ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum. Aðeins vil jeg árjetta það, sem nefndin leggur áherslu á, að þótt ríkissjóðstillagið hverfi, þá er alls ekki tilgangurinn sá, að sjóðurinn hætti að vaxa; og þegar annað fje er fyrir hendi, sem auka má sjóðinn með árlega, þá sýnist það tilgangslaust að verja fje ríkissjóðs honum til styrktar.