03.05.1926
Efri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

109. mál, landhelgissjóður

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf ekki miklu að svara. Jeg held, að hv. 1. landsk. (SE) og sjútvn. beri í sjálfu sjer lítið á milli. Það er rjett, að nál. hefir ekkert lagalegt gildi. En það sýnir, hvað nefndin vill. Hv. 1. landsk. (SE) virðist líta svo á, að með þessu 20 þús. kr. tillagi úr ríkissjóði sje framtíð sjóðsins betur trygð heldur en ef það hverfur. Eins og sakir standa nú, get jeg ómögulega sjeð það. Hvar stendur það skrifað, að ekki megi taka af sjóðnum þessar 20 þús. kr. á ári til landhelgisgæslunnar, eins og aðrar tekjur hans, og hver er, þá tryggingin? Þótt sjóðurinn njóti ríkisstyrks, ef öllum tekjum hans er varið til þess að greiða útgjöld, sem að öðru leyti hvíla á ríkissjóði, þá fæ jeg ekki sjeð, hver hagur að því má vera. Alt er undir stjórn sjóðsins komið, og hún er á hverjum tíma í höndum þingsins. Sjútvn. kannast við, að rjett hefði verið að athuga landhelgissjóðslögin frekar á þessu þingi, en þar sem nú er svo áliðið þings, vildi hún ekki koma fram með þær breytingar að þessu sinni.

En viðvíkjandi strandvörnum hefir þetta ekkert gildi, þar sem ríkissjóður verður að leggja fram það, sem strandvarnirnar kosta fram yfir tillag landhelgissjóðsins, Jeg fæ ekki betur sjeð en að þungamiðja þess, sem vakir fyrir okkur báðum, hv. 1. landsk. (SE) og mjer, sje sú, að landhelgissjóður haldi áfram að vaxa. Og því má náttúrlega alveg eins ná með því útliti, sem nú er, þó að þessi styrkur falli burtu. En það er satt, að komið getur það fyrir, að landhelgissjóður fái engar tekjur af sektum. En þá getur vel verið, að hann verði orðinn það stór, að hann þurfi samt sem áður ekki á ríkissjóðstillagi að halda. Að leggja 20 þús. kr. úr ríkissjóði til eflingar sjóði sem þessum, er styður ríkissjóðinn með 235 þús. kr. framlagi til strandvarna árlega, það finst mjer vera meiningarleysa, það er svo langt frá, að nokkur í sjútvn. hafi minstu tilhneigingu til þess að kasta skugga á þann mann, sem upphaflega hefir barist fyrir þessari sjóðsstofnun og komið fram lögum um stofnun landhelgissjóðs. Fæ jeg ekki sjeð, að samþykt þessa frv. geri það í nokkurn máta. Jeg tel meira að segja, að hans sje alls ekki óviðeigandi minst á Alþingi, þó að það sje viðurkent, að nú sje þessi hugmynd hans orðin svo fullkomin, að ekki þurfi lengur ríkissjóðsstyrk. Mjer finst hans mjög maklega minst með þessu.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að lengja umræður um þetta mál, því að mjer finst það liggja ákaflega ljóst fyrir. Jeg mótmæli því, að sjútvn. með þessari till. geri minstu tilraun til þess að setja stein í götu landhelgissjóðsins.