14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

109. mál, landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Þetta frv. er komið frá fjvn. Ed., sem sýndist það dálítið undarlegt, að það skyldi vera greitt 6 eða 7 sinnum meira fje úr landhelgissjóði heldur en látið var í hann, eða greiða fje í landhelgissjóð úr ríkissjóði og taka svo úr honum aftur 6 eða 7 sinnum meira. Jeg held heldur ekki, að það sje ástæða til þess. Það er mjög eðlilegt að leggja fje úr ríkissjóði til landhelgissjóðsins meðan hann var að vaxa, en það er engin ástæða til þess, þegar sjóðurinn hefir fengið svo mikinn vöxt, að hann getur lagt mjög mikið af mörkum beint til árlegrar útgerðar strandgæsluskipa. Það er svo mikið eftir í sjóðnum nú, að það mætti þegar þess vegna byggja nýtt strandvarnarskip. Sennilega vex hann svo áfram, þótt kannske minki landhelgissektir vegna betri gæslu, að vjer getum haft nóg til þess að byggja það 3. eða 4. Þess vegna finst mjer mjög eðlilegt, að ríkissjóðstillagið falli burt nú. Það má þá seinna, ef sýnist, leggja aftur fje úr ríkissjóði til skipabygginga. Jeg álít við stöndum ekki þannig fjárhagslega nú, að við þurfum að vera að leggja úr ríkissjóði í mjög öflugan sjóð, horfandi mjög langt fram á veg.

Hvað það snertir, að sagt er, að strandvarnir okkar sjeu betri en strandvarnir Dana hjer, þá ætla jeg ekki að fara að bera það neitt sjerstaklega saman. Það er ekki í raun og veru sambærilegt. Við höfum smá skip, sem að því leyti eru hentugri, að þau eru svo lík fiskiskipunum sjálfum.

En vjer megum alls ekki vanþakka gæslu Dana hjer. Hún er mjög mikils virði í samvinnu við vor eigin skip.

Það var tilætlunin fyrir „Fyllu“ nú að vera um mánaðartíma fyrir Austfjörðum. En sjerstakt atvik hamlaði, fyrir utan það, að hún varð að snúa aftur með togara, og kom skipið hingað. Þar að auki er slíkt skip þannig gert, að taka verður mikinn tíma til ketilhreinsunar. Nú er „Fylla“ að hreinsa ketilinn. Hefir það venjulega farið fram dálítið seinna.

Jeg held það sje ekki rjett, þótt mönnum finnist þessar varnir ekki eins og þeir mundu óska, að fara að finna mikið að því. Jeg veit, að yfirmenn dönsku herskipanna hafa allan vilja á að gera okkur gagn, og gera það einnig. Og síður hefði jeg viljað, að hefðu verið gerðar mjög harðar árásir á þetta skip, mjög um sama leyti sem það er að taka á annað hundrað sjómenn í Vestmannaeyjum og koma þeim til sinna atvinnustöðva.

Það er búið að tefja þetta mál mikið, og hygg jeg, að hv. þm. Borgf. (PO) hafi átt þátt í því. Nú getur það ekki gengið fram hjer eftir, enda er það svo sem ekki neitt sjerlega áríðandi mál, hvort þessar 20 þús. kr. verða teknar úr ríkissjóði eða ekki.