24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í C-deild Alþingistíðinda. (2605)

106. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg geri ráð fyrir, að hv 1. landsk. (SE) fari eins og góðum veiðimönnum, að hann verði því ákafari að sækja veiðina sem meira fellur honum í skaut. Það eru góðar líkur til, að eftir fáa daga beri stjórnin sigur í einu máli, nefnilega að okkur gefist kostur á að eyða kringum 40 eða 50 þús. kr. til sendiherra í Kaupmannahöfn. Jeg geri ráð fyrir, að það verði einhverjir hjer í hv. deild, sem sjái ástæðu til að skifta um skoðun í því máli, frá því að þeir greiddu atkv. um það síðast. Jeg skil þess vegna, að þessi sigurgleði hefir orðið til að kveikja í brjósti hv. 1. landsk. (SE) þá von, að hann gæti kannske látið sína fyrri andstæðinga beygja sig í fleiri efnum en þessu. Það mun víst hafa komið honum til að bera þetta mál fram tveimur árum eftir að deildin samþ. það með miklum meiri hl., að dómarar skuli ekki vera nema þrír í hæstarjetti.

Þótt jeg hafi ekki enn sem komið er sjeð ástæðu til að skifta um skoðun í þessu máli, — hvað sem verða kann við umræðurnar, — þá finst mjer rjett að greiða því atkv. til nefndar, af því að það er stórmál. Mjer finst það skylda, og jafnvel þótt minna mál væri.

Jeg vil nota tækifærið við þessa umræðu til þess að beina þeirri spurningu bæði til hæstv. stjórnar, viðvíkjandi meðferð þessa máls hingað til, og til hv. 1. landsk. (SE), hvaða knýjandi ástæða það sje, sem rjettlæti það, að bera þetta mál fram nú. Það er ekki alveg rjett, sem hv. 1. landsk. (SE) var að halda fram, að það hefði enginn sparnaður orðið við að samþ. lögin um fækkun dómenda. Það hefir nú staðið þessi árin autt embætti í hæstarjetti, og því hefir verið gegnt af einum prófessor háskólans fyrir part af venjulegum dómaralaunum. Þetta munar náttúrlega ekki miklu, en það er þó í sparnaðaráttina.

Þar sem jeg var einn af þeim, sem störfuðu með hæstv. forsrh. (JM) að því, að koma þessu á, fyrst og fremst í sparnaðarskyni, þá vildi jeg gjarna fara fram á, að hæstv. forsrh. (JM) skýrði frá því, hversvegna sú stjórn, sem hann er formaður fyrir, hefir gert svo lítið til að framkvæma þennan sparnað. Í því er tvenns að gæta. Annarsvegar er einn af dómendum hæstarjettar orðinn háaldraður maður, miklu eldri en leyft er um prófessora við háskóla í flestum löndum álfunnar. Og þar sem nú dómarar í hæstarjetti geta farið frá með fullum launum, þegar þeir hafa náð vissum aldri, þá er það engin móðgun við þennan aldraða mann, þó að stjórnin hefði bent honum á að draga sig til baka. Það er svo að sjá, sem hæstv. stjórn hafi ekki tekið þetta til greina og engar bendingar gefið þeim manni, sem kominn er yfir aldurstakmarkið.

Enn undarlegra er hitt, að í sumar losnaði starf við Brunabótafjelag Íslands. Um þetta starf sótti hæstarjettarritari, og hefði verið sjálfsagt af hæstv. stjórn að veita honum það, því að hann er í miklu áliti fyrir gáfur og dugnað, og hefir gegnt opinberum trúnaðarstörfum, t. d. verið sýslumaður og skrifstofustjóri í stjórnarráðinu. Hæstv. stjórn hundsaði umsókn hans, en veitti stöðuna manni, sem engin sjerstök meðmæli hafði nema þau, að vera stuðningsmaður stjórnarinnar á þingi.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. flm. (SE) og spyrja hann, hvaða ástæður hann hafi til þess að koma fram með þessar kröfur. Jeg vil spyrja: Er nokkuð ískyggilegt að gerast í landinu, það, er geri þessa breytingu nauðsynlega? Hafa verið feldir hneykslanlegir dómar í hæstarjetti? Og eru þeir þess eðlis, að von sje um, að úr verði bætt með nýju embætti í hæstarjetti?

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta nú, en býst við að fá tækifæri til þess í einu eða tveimur málum síðar. En jeg verð að segja, að ef hv. flm. (SE) getur sýnt fram á, að alvarleg og djúptæk spilling í rjettarfari landsins eigi sjer stað, þá verður að fara fram rannsókn um það, hvað hægt er að gera.

Það er ekki rjett hjá hv. flm. (SE), að í blaði, sem hann nefndi, hafi staðið „kritik“ um dómsvaldið hjer í landi. Greinin var um það, hvernig ástandið hefði verið hjá Dönum um eitt skeið. Í sama blaðinu kemur í dag grein um hliðstætt efni, eða um það, sem kalla mætti rjettarmorð í Noregi. Hjá báðum þessum þjóðum, Dönum og Norðmönnum, hefir það komið fyrir nýlega, að þær töldu sig ekki hafa forsvaranlegt rjettaröryggi. Það er öllum kunnugt, að fyrir 25 árum áleit mikill hluti dönsku þjóðarinnar, að hún hefði ekkert rjettaröryggi, þar væru dæmdir pólitískir dómar, sem eitruðu alt rjettarfar í landinu. Hjá Norðmönnum kom svipað fyrir, áður en þeir skildu við Svía. Þá voru svo harðar pólitískar deilur í landinu, að einu sinni þá er stórskáldið Björnstjerne Björnson ætlaði að halda ræðu á aðaltorginu í Ósló, þá voru dregin niður gluggatjöld í húsunum þar umhverfis, þar sem pólitískir andstæðingar hans bjuggu.

Sjálfstæðismenn í Noregi litu þá svo á, að lítið rjettaröryggi væri í landinu. Einn mikils metinn vinstrimaður varð þá fyrir ákaflega hörðum og staðlausum árásum af pólitískum andstæðingum sínum. Hann skrifaði þá málafærslumanni og spurði, hvort hann ætti að fara í mál. Hinn svaraði á þá leið, að hann hjeldi, að enginn vinstrimaður ætti að fara í mál í Noregi. Út úr þessu urðu mikil málaferli, og fór svo, að málfærslumaðurinn gat sannað vítaverða hlutdrægni dómaranna. Á þessu hefir nú verið gerð gerbreyting á sumum stigum dómsviðs, og brotið niður það ríki, sem spilling landsins hafði búið um sig í. Það var gert með kviðdómunum, en það tók langan tíma.

Jeg býst við því, að fá síðar tækifæri til þess að tala um dómsmálin hjer á landi, en jeg vil spyrja hv. flm. (SE), hvort hann áliti, að ástandið sje hjer nú eins og á dögum Estrups í Danmörku og fyrir sambandsslitin í Noregi, að hjer sje dómsmálaspilling? Sje svo, þá er þó ekki þar með sagt, að í þessu frv. liggi bótin.

Jeg geri ráð fyrir því, að málið fari til nefndar, og gefst þá kostur á að athuga það betur. En jeg hefi hjer bent á fordæmi annara þjóða, er við litum upp til, og spyr hv. flm. (SE), hvort það sje sú tegund af hættu, sem fyrir honum vakir.