24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

106. mál, hæstiréttur

Sigurður Eggerz:

Hvað snertir frv. mitt um fækkun sýslumanna á þingi 1923, þá er það misskilningur, að það hafi miðað að því að veikja rjettaröryggi undirdóms. Spurningin var aðeins þessi, hvort sýslumenn gætu annað því að dæma fleiri dóma en þeir yfirleitt gera. Það er því fjarstæða, að hjer hafi verið stefnt til þess að veikja rjettartrygginguna sjálfa. Hvað hitt snertir, að tryggja þessa dómstóla, þá liggur ekkert slíkt fyrir í augnablikinu. En það, að jeg flyt hjer þetta frv., kemur af þeim „praktisku“ ástæðum, að hæstirjettur er enn sá sami og þegar hann var stofnaður 1919, og því um að gera að koma breytingu fram nú, til þess að sú óhæfa þurfi aldrei að koma fyrir, að þessi hálfgildings hreppsnefnd, sem stofnað var til 1924, verði æðsti dómstóll þessa lands. Það er til þess að firra því óhappi, að þetta frv. er fram komið. Og jeg vona, að hv. deild taki það til alvarlegrar íhugunar og það komist gegnum þingið, þótt hæstv. stjórn sje því mótfallin. Þess hefði þó sannarlega mátt vænta, að sjálf stjórnin ætti annan hlut að þessu máli en að bregða fæti fyrir það, að búið sje nægilega vel um rjettaröryggi þjóðarinnar.