23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

81. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) fann mjer það til foráttu, að jeg hefði talað um önnur mál en þau, er til umræðu væri. Átti hann þar við nokkur atriði seðlamálsins, er ekki koma beint fram í frv. hans. En þessi mál eru svo skyld hvert öðru, að óhjákvæmilegt er að koma að hvorutveggja þeirra, er um eitt er rætt. Auðvitað talaði hæstv. ráðh. (JÞ) einnig um þessi önnur mál, er hann gat um mótbárur gegn sínu frv., og var því nauðsyn, að jeg gerði það sama. Hæstv. ráðh. gat að vísu hóglega um þetta, en þó til hnekkis mínu máli. Jeg tel það algerlega rangt, og er þar sammála hæstv. ráðh., að blanda saman óskyldum málum. En hjer er ekki því að gegna; hjer er eigi um að ræða einstök frv., hvert öðru óskyld, heldur um þau grundvallaratriði, sem frv. eru bygð á, og verður því að ræða seðlabankann jafnframt þessu frv.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gerði lítið úr því valdi, sem seðlabankinn gæti haft, ef hann hefði eigi annað fjármagn en seðla, og hjelt því fram, að aðrir bankar gætu tekið af honum ráðin, er þeim byði svo við að horfa. Væri því mikið undir því komið, að hann hefði jafnframt annað fje. En þar sem hjer er skortur á starfsfje, þá hafa bankarnir mikla þörf á því, að fá víxla „redisconteraða“, og verður vald seðlabankans þá þeim mun meira, sem hinir hafa minna fje, annað en seðla.

Hæstv. ráðh. sagði, að innlánsfje Landsbankans væri margfalt meira en seðlar hans. En síðar greindi hann milli sparifjár og annara innlána. En jeg fæ ekki betur sjeð en að bankinn verði jafnt að sjá borgið því fje, sem hann fær gegn innlánsskírteinum sem hinu, er lagt er í sparisjóð. Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að bankaeinokun yrði hjer í landi, ef mínum tillögum væri fram fylgt, en eigi eftir frv. hans, því að Landsbankinn fengi brátt alt sparisjóðsfje, ef mitt frv. gengi fram, og gæti það orðið hengingaról á alla aðra sparisjóði, og þá fyrst og fremst Íslandsbanka. Þessi sparifjárstraumur til Landsbankans á að koma af því, að það sje almennskoðun, að trygging ríkisins standi að baki því fje, sem þar er lagt inn, „hvort sem sú skoðun sje bygð á rjettu eða röngu“, bætti hann við. Og á þingi í fyrra hjelt hann því fram, að sú skoðun væri eigi á rökum bygð. Jeg vil nú spyrja, hvernig það geti staðist til lengdar, að menn álíti, að landið tryggi sparisjóð bankans, þegar hæstv. fjrh. segir sjálfur, að það sje eigi rjett skoðun? Annars fæ jeg ekki annað sjeð en að það sje alveg óverjandi gagnvart landsmönnum, að eigi sje um þetta skýr lagasetning. En hvað sem því líður, er það all-djarft af hæstv. ráðh. að hampa því sem rökum í þessu máli, sem hann álítur sjálfur einskisvert.

Þá hjelt hæstv. fjrh. (JÞ) því fram, að hægt væri að nema burt sparisjóðinn frá Landsbankanum alveg þrautalaust, og þó hefði bankinn eftir 25 miljónir króna. — Þetta er nú nokkuð „flott“ reiknað, ef svo mætti segja. Hvaða fje eru þessar 25 miljónir? Er það ekki nær eintómt lánsfje? Seðlalán, enska lánið, innskotsfje landssjóðs, hlaupareikningsinnlög o. fl. Ætli þá sje mikið orðið eftir annað en varasjóðurinn? Annars hefir ekkert mat farið fram á eignum Landsbankans, og vita því fáir, hve hag hans er nú komið. En það vita menn, að á þessum varasömu tímum, sem nú hafa verið, hefir hann hlotið skaða, sem án efa nemur allmiklu, svo sem eðlilegt er.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að Landsbankinn gæti tekið að sjer að afstýra gengissveiflum gagnvart útlöndum, þótt hann misti sparifjárins. En nú er mestalt starfsfje bankans lánsfje og oftast nærri alt fast í lánum. Þessvegna getur hann eigi tekið að sjer þetta hlutverk nema með nýjum lánum og ábyrgð ríkissjóðs. En getur ríkissjóður þá ekki eins gengið í ábyrgð fyrir seðlabankann, svo sem jeg hugsa mjer hann? Hvorugur bankinn getur tekið að sjer að afstýra gengissveiflum annan veg en með ábyrgð ríkissjóðs.

Þá var það að heyra á hæstv. ráðh. (JÞ), að hinn nýi banki ætti ekkert fje að hafa annað en seðla. Auðvitað verður bankinn að fá stofnfje, og býst jeg við, að það verði svipuð upphæð og áætlað er, að fari til Landsbankans, honum til eflingar, ef hann fær seðlaútgáfuna.

Hæstv. ráðh. talar um það, að þetta mál hafi verið flutt mjög einhliða hjer í Reykjavík, og sje því ekki mark takandi á því gífurlega fylgi, sem það hefir hlotið hjer í bæ, og fer dagvaxandi. — Jeg vil þegar geta þess, að jeg hefi ekki talað um þetta mál á einum einasta fundi, og getur þessi „ásökun“ því eigi náð til mín. En fyrir hví hafa hinir háttv. herrar, sem vilja fá Landsbankanum seðlaútgáfuna, ekki látið til sín heyra og eigi skýrt sinn málstað fyrir kjósendum bæjarins? — Tveir nefndarmanna töluðu þó á fundi fjesýslumanna og annara atvinnurekenda fyrir skemstu, en ekki auðnaðist þeim að ná samþykki nokkurs einasta fundarmanns.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um, að samkvæmt þeirri þróun, sem komin væri í bankamál hjer í landi, væri best, að seðlaútgáfan færi til Landsbankans. En það er nú einmitt þetta, sem um er deilt. Jeg þykist hafa sýnt fram á ýmsa annmarka á því, að svo megi fara. Auk þess er það heldur ljettvæg ástæða, að segjast aðeins vilja fylgja því skriði, sem komið hafi verið á þessi mál hjer í landi. Og hvernig er þessi margumtalaða „stefna“ eða „þróun“? Fyrst hefir Landsbankinn seðlaútgáfuna, meðan hann er eini bankinn, þó aðeins fastákveðna, lága fjárhæð óinnleysanlegra seðla, og henni hjelt hann óbreyttri. Síðan tekur Íslandsbanki við henni að öðru leyti en þeirri litlu fjárhæð, sem Landsbankinn fjekk að halda. Og loks, er hún er tekin af Íslandsbanka, er fyrst talað um að fá hana Landsbankanum, en verður þó ekki úr, heldur fær ríkissjóður hana til bráðabirgða, og þar við situr. Mjer virðist þetta óneitanlega líkjast meir krabbagangi en þróun.

Hv. þm. V.-Ísf. (AA) hafði ýmislegt við mína ræðu að athuga, og kom mjer það eigi mjög á óvart. Virtist hann hneykslast einna mest á því, að jeg sagði, að bankamál væru bygð á reynslu og raunvísindum. En jeg fæ ekki betur sjeð en að í þeim málum, sem öðrum, sje þess full þörf að safna reynslu fyrir framtíðina, sem hún megi byggja á. En til þess, að geta haft not af þessari reynslu, þurfa menn auðvitað að geta hugsað rjett. — Hv. þm. sagðist engu vilja spá um það, hverja stefnu þessi mál tækju á næstu árum og áratugum. En hvað verður markað af því, sem nú hefir gerst í þessum málum í umheiminum? Er það ekki ótvírætt, að þróunin hefir þar miðað að því fyrirkomulagi, sem jeg ræð til að fylgt verði hjer í landi? Getur ekki reynslan fastskorðað þá vissu, að eitthvert fyrirkomulag sje gott og gilt í öllum aðalatriðum hvar sem er í heiminum, þótt önnur smærri atriði hljóti að fara eftir staðháttum í hverju landi?

Eitt dæmi um þessháttar sjerstaka þróun hjer á landi í smærri atriðum bankamálanna er það, hve mikið bankar hjer lána í víxlum. Mjög mikið af þeim lánum, sem annarsstaðar eru sjálfskuldarábyrgðarlán, eru hjer tekin sem víxlalán; þótt víxlarnir sjeu ekki gefnir út til langs tíma í senn, eru þeir framlengdir aftur og aftur, svo að notin af þeim verða þrásinnis hin sömu, sem af lánum gegn sjálfskuldarábyrgð. — Þetta er dæmi þess, að þróunin getur orðið með mismunandi hætti í ýmsum löndum um hin minni atriði, þótt bankaskipulagið sje í aðalatriðum eins.

Þá var þessi sami hv. þm. (ÁÁ) að bera mjer það á brýn, að jeg talaði eigi með nægri lotningu um hina erlendu bankastjóra, sem sent hafa milliþinganefndinni brjef um þessi mál. — En þetta er fullkominn misskilningur hv. þm. og fer algerlega fyrir ofan garð eða neðan. Jeg man ekki betur en að jeg taki það einmitt fram, að þeir geti gefið margar ágætar upplýsingar, og að jeg álíti þá bæði vitra og fjöllærða menn. Þetta hefir komið fram bæði í nál. mínu í bankanefndinni og eins nú í fyrri ræðu minni. En þegar þessum heiðruðu herrum ber hvergi nærri saman um ýms höfuðatriði seðlamálsins, hvernig er þá hægt að bera fult traust til þessa fyrirkomulags, sem þeir ætla, að komi ef til vill ekki að sök hjer í landi. Einn þeirra segir t. d., að það sje nauðsynlegt að taka sparisjóðinn þegar í stað frá Landsbankanum, ef hann eigi að fá seðlaútgáfuna. Annar — sá, sem er hvað meðmæltastur því fyrirkomulagi, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, — segir, að bankinn eigi að hafa sparisjóðinn rjett í bili, en telur rjett, að hann losi sig síðar við þessa starfsemi, „sem kringumstæðurnar rjeðu, að sameinuð var honum“.

Hjer er því alls eigi um að ræða neinar ásakanir frá minni hálfu gegn þessum mönnum. Enda taka þeir það sjálfir fram, að þá bresti nægan kunnugleik á staðháttum öllum hjer í landi, til þess að dæma fullkomlega um þessi mál. — Sumir þessara bankastjóra leggja áherslu á það, að bankastjórar seðlabankans geti ekki kynt sjer nægilega hag einstakra viðskiftamanna bankanna, en svo sem skýrt er frá í nál. mínu, hafa engir betri aðstöðu til þess hjer í landi heldur en einmitt þeir.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um það, að menn færu ýmsar leiðir í þessum málum, eftir því, sem reynslan kendi, að best væri, og virðast þau orð áreiðanlega falla mjer til stuðnings meir en honum.

Það virtist vaka fyrir hv. þm., að hægt væri að skilja sparisjóðinn frá bankanum hvenær sem væri. En hversvegna á þá ekki að gera það strax, þegar allir viðurkenna, að óhagræði sje að því, að reka þessa starfsemi með seðlaútgáfunni?

Þá talaði hv. þm. um áhættuna við sjávarútveg, og hve mikið hefði verið úr henni gert. Jeg get nú raunar eigi viðurkent, að jeg hafi gert, meira úr þeirri hættu en hver annar. En það er víst flestum ljóst, sem eitthvað fást við landsmál, að sá atvinnuvegur er áhættusamari en margur annar. Hitt er annað mál, að vjer megum eigi án hans vera, því að eins og nú er komið, ber hann að miklu leyti uppi landssjóðinn, en þaðan er aftur ausið peningunum í alt hitt, stjórn og löggæslu, skóla og samgöngur, heilbrigðismál og annað, sem ríkið kostar.

Hv. þm. lagði mikla áherslu á það, og ljet eins og hann væri að andmæla mjer, að sparisjóðurinn kæmist á tryggari brautir, ef skylt væri að hafa nokkrar miljónir í verðbrjefum. Jeg er alveg á sömu skoðun og hv. þm., frá sparisjóðsins sjónarmiði. En hinu er ómótmælt, að þetta fje kemst út úr veltu, og að slíkt getur eigi haft heppileg áhrif fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar.

Þá talaði hv. þm. um það, að margir töluðu nú um bankaeinokun, og var að heyra, að enginn hefði minst á hana áður. Það hjet nú ekki, meðan Landsbankinn var einn, að aldrei væri nefnd einokun! Þá voru sumir svo hamrammir móti „einokun“ Landsbankans, að þeir vildu bókstaflega leggja hann niður, og þótt ekki yrði af því, varð þó kurr manna gegn einræði Landsbankans til þess, að Íslandsbanki fjekk seðlaútgáfurjettinn. (ÁÁ: Jeg sagði, að enginn hefði nefnt einokun, meðan Íslandsbanki hafði seðlaútgáfurjettinn). Það var alt öðru máli að gegna, því að þar var annarsvegar einkabanki, en hinsvegar þjóðarstofnun, svo að bankarnir stóðu þá jafnara að vígi; en að öðru leyti hefi jeg fáa heyrt hæla því, nú á síðari árum að minsta kosti, að sá banki fjekk seðlaútgáfurjettinn. — Jeg hefi nú drepið á helstu andmælin gegn minni skoðun og læt því staðar numið.