24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

81. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Þeir aðiljar, sem síðast hafa verið riðnir við undirbúning þessa máls, hafa nú talað og leitt saman hesta sína. Mjer, sem hefi verið utan við þetta, hefir þótt rjett að bíða þar til þeir hefðu lokið sjer af. Það eru tvö stór og merkileg atriði, sem deilt hefir verið um, annarsvegar hvernig skipa eigi seðlaútgáfunni og hinsvegar stjórn og fyrirkomulag bankamála landsins. Þetta eru vissulega merkileg atriði, sem vel þarf að athuga, en þó vil jeg ekki blanda mjer inn í þá deilu á þessu stigi málsins. Jeg hygg, að milliþinganefndin hafi í þessu efni unnið mikið og gott starf, þó hún hafi ekki orðið sammála, þá hefir hún skýrt málið og gert það ljósara.

En það er eitt atriði, sem nefndin hefir gengið fram hjá, það, sem jeg álít langstærsta atriðið, þegar litið er á afleiðingarnar. En það er spurningin um það, hvort löggjafinn eigi ekki, um leið og hann kveður á um seðlaútgáfuna, að segja fyrir um það, hvernig þeim peningum, sem bankarnir hafa til útlána, skuli skift meðal atvinnuvega þjóðarinnar. Jeg vil leggja mikla áherslu á, að fyrirsögn komi um þetta, því að reynsla undanfarinna ára hefir sýnt, hve alvarlegar afleiðingar það hefir haft fyrir hag þjóðarinnar, að löggjafinn hefir ekkert sagt fyrir um þetta. Jeg hefi enga trú á því, að úr þessu muni verða bætt, þótt ný yfirstjórn komi yfir bankana, sem mundi verða skipuð mönnum úr kaupstöðunum. Af hálfu löggjafans hefir ekki verið sagt neitt fyrir um þetta, og það haft þær afleiðingar, að landbúnaðurinn hefir orðið hornreka. Það hefir verið rætt um það á hverju þingi og viðurkent hvert þingið eftir annað, að landbúnaðurinn hafi orðið útundan. Hann hefir haft altof lítið fje í veltunni. Fram að síðasta þingi hefir ekki verið til skipulag á lánum, er landbúnaðurinn gæti unað við. En með úrlausn síðasta þings hefir þetta mál ekki verið leyst. Lánskjör ræktunarsjóðsins eru mjög óaðgengileg og óhagstæð og hjálpa því ekki alhliða-viðreisn landbúnaðarins. Afleiðingarnar af því, að landbúnaðurinn hefir orðið undir í samkepninni, hafa jafnframt orðið þær, að það hefir hlaupið óheilbrigður vöxtur í sjávarútveginn og bæina. Sjávarútvegurinn hefir sogað fjármagn bankanna og bæirnir sogað fólkið úr sveitunum. Jeg fullyrði það, að þetta er stærsta atriðið, ef hægt er að finna ráð til þess að snúa við straumnum og veita nægu fjármagni með viðunandi kjörum til bænda. Jeg held því fram, að landbúnaðurinn sje öflugasta stoðin undir velferð þjóðarinnar og hlýt því að gera þá kröfu fyrir hans hönd, að honum sje sjeð fyrir sæmilegum lánskjörum. En jeg fullyrði, að engin von er til þess, að þetta snúist til betra vegar, þótt breytt verði um yfirstjórn bankanna. Það breytist ekki til batnaðar með öðru en því, að Alþingi setji lög um þetta efni. Jeg skal ekki nú fara út í það, hvernig þessu yrði komið fyrir í einstökum atriðum, en jeg efa ekki, að hvorir sem ofan á yrðu, þeirra, er nú deila, þá mætti finna aðferð til þess að fá nóg fje til landbúnaðarins. Í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir því, að Landsbankinn hafi sem svarar 1/3 af sparisjóðsfje sínu í tryggum, auðseldum verðbrjefum. Það mætti eins skylda Landsbankann til þess að hafa 1/3 í jarðræktarbrjefum og að Landsbankinn fengi ekki nema örlítið brot fram yfir sparisjóðsvexti í vexti af þessum brjefum. Með hinu fyrirkomulaginu, að stofna fasteignabanka og fela honum seðlaútgáfuna, efast jeg ekki um, að líka mætti finna aðferðir. Jeg leyfi mjer að skora á hv. fjhn. að taka þetta til rækilegrar athugunar, hvernig hægt sje að verða við kröfum landbúnaðarins í þessu máli. Og ennfremur vil jeg skora á fulltrúa landbúnaðarins hjer í deildinni að nota nú tækifærið til þess leysa greiðlega úr þessu allra þýðingarmesta máli fyrir framtíð landsins. Jeg vænti þess, að allir geti orðið mjer samdóma um þetta.

Úr því að jeg stóð upp, þá get jeg ekki látið hjá líða að beina nokkrum orðum til hæstv. stjórnar, út af því, hvernig hún hefir breytt einu atriði í frv. meiri hl. bankanefndarinnar. Á jeg þar við 63. gr. frv. þessa, þar sem það er nákvæmlega sundurliðað, hvernig fara skuli, ef núverandi bankastjórar Landsbankans yrðu ekki skipaðir í hinar nýju stöður. Það er nú í þriðja sinn, sem svona lagað frv. er borið fram. Á þinginu 1924 bar fyrv. stjórn það fram, núverandi stjórn á þinginu 1925 og svo meiri hluti bankanefndarinnar. í engu þessara frv. hefir verið ákvæði um þetta. Úr því að það kemur svona núna, fæ jeg ekki skilið annað en þetta sje bein tilraun til þess að kasta steini í andlit núverandi Landsbankastjórnar. Svo alvarlegt sem útlitið er nú um horfur og stjórn fjármála okkar, þá álít jeg það mjög óvarlegt og illa viðeigandi að kasta að ástæðulausu steini í þá átt.