01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er brtt. á þskj. 386, sem jeg vildi minnast á. Jeg verð að segja það, að jeg geri í rauninni ráð fyrir, að hv. þd. megi vera það ljóst þegar af ummælum háttv. frsm. minni hl. (JakM), að því er snertir binding sparisjóðsfjárbankans í verðbrjefum, að það er ákaflega langt frá því, að það sje forsvaranlegt, eins og nú stendur á, að skylda þennan sparisjóð til þess að binda helming af sínu innlánsfje í verðbrjefum. Jeg gat þess þegar við 1. umr. málsins, að jeg væri í mjög miklum vafa um það, hvort hjer ætti að taka upp það ákvæði, sem stendur í frv. milliþinganefndar, um það að skylda bankann til þess að binda 1/3 hluta sparifjárins í verðbrjefum, og jeg gat þess jafnframt, að mjer sýndist að minsta kosti önnur höfuðástæðan fyrir því fallin í burtu, um leið og gerð var alger aðgreining milli seðlabankastarfsemi hans og sparisjóðsstarfsemi, því að þá er ekki lengur þörf á þessu til að tryggja seðlabankastarfsemi hans. Það verður þá að byggjast á því, að mönnum þyki eðlilegt, að sparisjóðsfjenu sje ráðstafað þannig. En frá því sjónarmiði er í rauninni rangt að hafa ákvæðin um verðbrjef mjög mismunandi fyrir þennan sparisjóð, við það, sem er fyrir aðra sparisjóði landsins. Jeg skal um leið, út af því, sem háttv. frsm. minni hl. (JakM) sagði um þetta atriði, geta þess, að jeg lít svo á, að það bindi um stund 4 miljónir króna, frádregnar þeim fasteignaveðlánum, sem hann gæti breytt í verðbrjefalán. Hv. frsm. minni hl. (JakM) telur fje á innlánsskírteinum með sparisjóðsfjenu, en jeg tel það ekki; jeg tel það alveg óafgert mál, hvort það mundi frekar lenda í sparisjóðsdeild, eftir því sem stjfrv. er úr garði gert. En ef það nú virkilega þýddi það, að 4 miljónir króna skyldu teknar úr víxillánum og settar í verðbrjefalán, þá er það náttúrlega tilfærsla, sem getur verið mjög erfið og jafnvel hættuleg, ef á að framkvæma hana mjög snögglega, en því erfiðara, ef á að taka helming af sparisjóðsfjenu og breyta því í verðbrjef. Það væri hjer um bil sama sem að tvöfalda þá upphæð, sem bankinn þyrfti að draga úr víxlaveltu og breyta í verðbrjefaeign, það mundi hækka upphæðina um 3½ miljón, ef reiknað er eftir minni tölu, og um 4 miljónir, ef reiknað er eftir tölu hv. frsm. minni hl. (JakM). Og jeg verð að segja, að ekki geti komið til mála að gera þetta, viðskiftalíf landsins getur ekki þolað það, að þetta sje gert nokkuð nálægt því í einni svipan eða svo. Að öðru leyti er tillagan líka, að því er snertir ákvörðun um vexti, náttúrlega mjög óaðgengileg og óframkvæmanleg og felur í sjer hreina gjöf til landbúnaðarins frá eigendum sparifjár í Landsbankanum, en hinsvegar ekki þörf á henni vegna Ræktunarsjóðsins, að minsta kosti ekki fyrst um sinn, því að það hefir hingað til ekki komið fyrir, að hann gæti ekki útvegað sjer fje til þess að fullnægja öllum fyrirliggjandi, rjettmætum beiðnum um útlán. Þetta hefir meðal annars komið fram á þann hátt, að stjórn sjóðsins hefir ekki haft ástæðu til að gera neitt af því, sem ætlast er til að stjórn Ræktunarsjóðsins geri til þess að koma út Ræktunarsjóðsbrjefum, það hefir verið nægilega selt undan hendinni og ekki þurft að grípa neitt til þess. Og jeg er ekki í neinum efa um, að hún getur selt mikið, hvenær sem hún gerir ráðstafanir til þess. Jeg mun taka það til athugunar undir 3. umr., hvort ekki sje rjett að koma með brtt. viðvíkjandi þessari verðbrjefaeign sparisjóðsdeildarinnar, til þess að ákvæðin um hana verði meira í samræmi við það, sem rjett þykir að láta gilda um sparisjóði alment, því að eins og stjfrv. er bygt upp, er í rauninni eðlilegast, að um sparisjóðsdeildina gildi að sem mestu leyti hin almenna löggjöf um sparisjóði í landinu og að henni sje stjórnað þar eftir. Að öðru leyti ætla jeg mjer ekki að fara að svara hv. frsm. minni hl. (JakM), því að jeg ætla, að hans ræða beindist aðallega að hv. meiri hl. og hans frsm., og jeg ætla á engan hátt að hlaupa neitt fram fyrir hv. frsm. meiri hl. (MJ), heldur bíða með mínar athugasemdir, þar til hann hefir svarað fyrir sig.