01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg mun ekki leitast við að rekja hjer allar þær ástæður, sem færðar hafa verið gegn áliti meiri hl. bankanefndarinnar. Hinsvegar verð jeg að leiðrjetta nokkur atriði, sem hv. frsm. (MJ) hefir gengið fram hjá.

Hv. sessunautur minn (JAJ) sagði, að jeg hefði komist að þeirri niðurstöðu um hinn nýja banka, að ef hann byrjaði með hreint borð, mundi hann standa jafnt að vígi eins og báðir gömlu bankarnir, þó að hann hefði engin sjerrjettindi og væri auk þess skattskyldur samkvæmt núverandi útsvars- og tekjuskattslöggjöf. Þetta er að tvennu leyti rangt. Jeg bar nýja bankann aldrei saman við Landsbankann, enda var ekki um að ræða að veita honum sömu rjettindi og Landsbankanum. Jeg bar aðeins saman við Íslandsbanka og nefndi þó aldrei núverandi útsvars- og tekjuskattslöggjöf, heldur gekk jeg út frá því, að nýi bankinn byrjaði með hreint borð og starfaði undir almennri bankalöggjöf, en í almennri bankalöggjöf mundi öllum bönkum gefin betri kjör hvað snerti útsvar og tekjuskatt, en öðrum stofnunum í landinu. Þetta er því rangt haft eftir mjer hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), en mjer virtist hann fallast á ummæli mín eins og hann skildi þau, engu að síður. Þetta kom samt nokkuð seint fram og hefði háttv. þm. (JAJ) átt að vera mjer samtaka um að láta hinn nýja banka starfa undir almennri bankalöggjöf, meðan sá málarekstur stóð yfir.

Hv. þm. (JAJ) vildi gera lítið úr því valdi, sem seðlabankar hefðu yfir genginu, og sagði, að það væri af öllum viðurkent, að seðlabanki væri máttlaus gagnvart gengissveiflum. Jeg tel nú samt, að það eigi að gera okkar banka svo sterkan, að hann verði ekki máttlaus gagnvart genginu. Frv. minni hl. fullnægir því ágætlega, að bankinn verði gersamlega máttlaus gagnvart gengissveiflum, en frv. meiri hl. er bygt á því, að bankinn verði sterkur. Jeg skal benda á dæmi, sem sýnir ljóst, að seðlabankar eru í þessu tilliti ekki máttlausir, og eiga ekki að vera það, heldur sterkir og þjóðhollir.

Þegar „inflationin“ varð í Englandi, vildi bankastjórnin ekki framkvæma „inflation“, en ljet í ljósi, að ef þing og stjórn vildu og teldu það nauðsynlegt til að sigra í ófriðnum, gætu þau sjálf framkvæmt hana, og það varð úr, En það kostaði ekki mjög langan tíma að komast í „pari“ aftur fyrir bankann. Og var það auðvitað fastri stefnu bankastjórnarinnar að þakka, sem stefndi að því marki og náði því. Slíkt kemur aldrei fyrir af sjálfu sjer. „Inflationin“ getur komið af fávisku, getuleysi og ógætni, en „deflationin“ á ávalt rót sína að rekja til fastráðinnar fjármálastefnu. Sama er að segja um sænska og finska bankann, og má það merkilegt heita, að sá banki (sá finski) skyldi fá fult vald yfir gjaldeyrinum eftir alt, sem á undan var gengið. Þannig stóð á, að þegar „hinir rauðu“ tóku Finnlandsbanka, komust þeir ekki inn í peningaskápana, fyr en dyravörður einn hleypti þeim inn. Þessi dyravörður var svo gerður að aðalbankastjóra! Honum tókst innan skamms að eyðileggja peningamál Finnlands, og má það teljast kraftaverk, hvílíku valdi hin ágæta bankastjórn hefir síðan náð yfir peningamálunum. Henni hefir tekist að ná föstum tökum á genginu og festa gjaldeyrinn.

Þann banka, sem hjer á að hafa með höndum seðlaútgáfuna, þarf að gera voldugan yfir genginu, svo að hann geti með útlánsstarfsemi sinni stjórnað því, hvort gjaldeyririnn skuli stöðvaður, þegar hann leitar upp eða niður. Það er einmitt til að gefa bankanum þetta vald, að við viljum láta hann hafa meira fje en seðlana eina.

Þá gerði þessi sami hv. þm. (JAJ) tilraun til þess að sýna, að þeir seðlabankastjórar, sem sendu nefndinni umsögn sína, hafi ekki meint það, sem þeir sögðu, og lagði hann ummæli aðalbankastjóra Finnlandsbanka út á þessa leið: „Þetta er kannske hægt, en mjer líst ekki á það.“ Hann getur ekki fullyrt, að það þurfi að koma að skaða, þó að seðlabanki hafi líka innlánsstarfsemi. Þetta svar við þeirri spurningu, hvort hætta sje á, að það geri skaða, er sama og að sagt sje, að það sje ekkert hættulegt. Minni hluta mennirnir lesa einkennilega brjefin frá erlendu bankastjórunum. Þeir lesa með illum vilja aftur á bak, eins og höfðingi sjálfrar óvildarinnar.

Þegar Finnlandsbankastjóri skrifaði nefndinni, var það ekki í þeim tilgangi gert, að villa henni sýn. Ef hann hefði talið þetta fyrirkomulag hættulegt, hefði hann varað við því.

Minni hl. leggur áherslu á, að ummæli þessara manna sjeu hikandi. En þau eru ekki hikandi, heldur gætileg, vegna þess, eins og hv. þm. (JAJ) sjálfur segir, að um leið og lýst er áliti á því, hversu hagkvæmt eitthvert fyrirkomulag sje, þarf að líta á staðhætti þess lands, sem um er að ræða. Það, sem gott er í einu landi, getur verið ilt í öðru. Vegna þessa tala þeir gætilega og eins vegna hins, að slíkum mönnum, sem djúpsetta þekkingu hafa á bankamálum, er tregt um að koma með fastar fullyrðingar um, að eitt skipulag sje alstaðar rjett, annað alstaðar ómögulegt. Það gera minni hl. mennirnir einir. Þeir menn, sem standa frjálsir gagnvart „teoríunum“ og þekkja veruleikann til hlítar, eru ekki eins bundnir á klafa eins bankafyrirkomulags og hv. minni hl. Jeg talaði við einn útlendan bankamann, sem þóttist þess fullviss, að þetta, sem hjer er um að ræða, væri alveg stórhættulegt. En þegar jeg talaði við menn, sem með völdin fara í peningamálunum og þora að hugsa frjálst, var tónninn annar. Það er sami munur á þessum mönnum og á lögregluþjón og löggjafa, á þeim, sem lætur setja reglurnar. Það er einmitt eftirtektarvert, að allir þessir fróðustu menn gefa oss fyllilega í skyn, að oss sje hentast að hafa það fyrirkomulag, sem þeir ekki hafa í sínu landi. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) taldi það grunsamlegt, að þeir gefa okkur reglur, sem þeir starfa ekki eftir sjálfir. Jeg skal játa, að það er full ástæða til að ætla, að bankastjórarnir fari gætilega í því, að gefa okkur slíkar reglur. Það, að þeir gefa okkur önnur ráð, en þeir sjálfir búa við, er því skýr vottur þess, að þeir telja þau fullkomlega örugg, áhættulaus og við okkar hæfi eftir því, sem þeir best geta sjeð. Við megum vita, að þeir segja einungis það, sem þeir halda, að sje okkur fyrir bestu. Það er leiðinlegt að hlusta á útúrsnúninga á brjefum þessara manna, sem hafa ljeð okkur lið sitt í bestu meiningu.

Hv. sessunautur minn (JAJ) benti á það atriði, að sænski ríkisbankinn hefði rjett til að taka við innlánsfje gegn vöxtum. Síðan spyr hann af sinni miklu speki: En notar hann þennan rjett? Það er satt, hann notar hann ekki, en af hverju stafar það? Þekkingin virðist ekki ná svo langt, að hann vissi, af hverju þeir nota ekki rjettinn. Ástæðan er sú, að sá rjettur, sem aðalbankastjóri sænska ríkisbankans fór fram á, var ekki sá, sem fjekst, heldur annar og miklu meiri. Þótt þessi takmarkaði rjettur fengist, hefir hann því eigi viljað nota hann, heldur heimtar ótakmarkaðan innlánsrjett. Innlánsrjettur, sem bundinn er við stuttan tíma, getur valdið óþægindum. En takmarkaður innlánsrjettur skapar festu, og hefði án efa verið notaður í ríkum mæli.

Háttv. frsm. minni hl. (JakM) talaði einnig mikið um sænsk bankamál, og nál. meiri hl. bankanefndarinnar sænsku. Þar sem því hefir nú þegar verið allrækilega svarað af hv. frsm. meiri hl. (MJ), get jeg verið fáorður um það. Hv. frsm. (JakM) las upp ummæli, sem Cassel hafði haft, og sagði, að þarna væri einn úr meiri hl. sænsku nefndarinnar. Já, það er rétt, að þarna er einn úr meiri hl. hennar. Því að þegar Cassel segir þessi orð, er hann aleinn og talar hvorki fyrir meiri nje minni hluta. Þau voru tekin úr stuttri sjergrein frá honum einum, sem sænska nál. fylgir. En það eru þessi ummæli, sem hafa verið mest vatn á myllu minni hlutanna hjer. En aðeins einn einasti maður í sænsku bankanefndinni hafði þetta álit (JakM: En það var Cassel!). Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir haldið því fram, að ekki væri mikið að marka Cassel, þegar út í hið „praktiska“ líf kæmi. (JakM: Hvað segir hv. þm. V.-Ísf. um það?) Jeg hefi gott traust á honum, en trúi þó ekki á hann sem óskeikulan páfa. Jeg skal og bæta því við, að þarna er Cassel ekki aðeins á móti því, að bankinn fengi að taka á móti fje gegn vöxtum, heldur einnig jafnmikið á móti hinu, að ríkið ræki almenn bankaviðskifti, svo sem Landsbankinn gerir hjer. Og auk þess mótfallinn takmörkuðum innlánsrjetti ríkisbankans. Og klofnaði ekki einmitt meiri hl. sænsku nefndarinnar um þetta? Og gekk ekki það, sem Cassel var á móti, gegnum báðar deildir sænska ríkisþingsins? Er það nú ekki orðið lög? (JakM: Eru þau lög ekki dauður bókstafur?) sem má blása lífi í, hvenær sem er og verður gert strax og innlánsrjetturinn verður rýmkaður svo, að bankinn geti starfað til langframa með því fje, er hann fær þannig til umráða. Minni hl. sænsku bankanefndarinnar vildi rýmka hann og blása lífi í hann. Hann vildi, að sænski ríkisbankinn tæki upp sömu starfsaðferð og fyrir 1897. Jeg vil biðja menn að athuga, að ekki er lengra síðan hann lagði niður að ávaxta innlánsfje. Meiri hl. sænsku nefndarinnar (og hann er lítið minni en meiri hl.) áleit, að óheppilegt hafi verið að hverfa frá því, að taka við fje gegn vöxtum. Mönnum verður að skiljast, að hjer er ekki um neitt alheimslögmál að ræða, sem ríkt hafi í geimnum um ómunatíð, og ekki verður frá vikið. Það er fyrst um aldamótin, sem ríkisbankinn sænski byrjar að draga úr ávöxtun innlánsfjár, og nú þegar er risin hin sterka alda, sem hamlar, að sú starfsemi verði aftur upp tekin.

Jeg skal því fúslega játa, að í þessu efni megi fara ólíkar leiðir, og sú skoðun, sem hv. minni hl. byggir till. sínar á, er það, sem Jesúítar nefndu „probabel“. Krefst jeg þess, að hv. minni hl. sýni sömu sanngirni og játi, að við höfum merka menn með okkur, eins og t. d. forseta stjórnar sænska ríkisbankans. Hann var formaður sænsku bankanefndarinnar og lagði allra manna mesta áherslu á, að upp yrði komið almennri viðskiftadeild við sænska ríkisbankann. Á þessum manni hafa Svíar svo mikið traust, að hann hefir ár frá ári verið skipaður forseti ríkisbankastjórnarinnar, hvaða flokkur sem setið hefir að völdum. Þótt hann hjeldi því hinu sama fram og felst í frv. um Landsbanka Íslands, hefir hann eigi fallið í áliti, nje verið troðinn niður í skítinn, þó hjer sje þeirri aðferð beitt við okkur. (JAJ: Hvar hefir því verið haldið fram?). Það er tónninn, að ekkert sje ráð í þessum efnum, sem flutt hefir verið af okkur, „fávísum heimalningum.“

Þá vil jeg benda mönnum á, að meiri hlutinn sænski berst á móti því, að tekin sje upp innlánstarfsemi, en við erum á móti því, að lagður sje niður elsti viðskiftabanki landsins. Ef baráttan hefði staðið um það í Svíþjóð, hvort leggja skyldi niður viðskiftadeild, sem hann hefði haft, getur verið að meiri hl. þar hefði litið nokkuð öðruvísi á málið. (JAJ: Hver vill leggja niður Landsbankann?). Ef hv. minni hl. vill vera sjálfum sjer samkvæmur, þá hlýtur hann að leggja það til. Vilji hann nota sjer álit sænsku bankanefndarinnar, miða öll rökin að því, að Landsbankinn skuli lagður niður. (JAJ: Það er einkennilegt!). Já, það er nú svona einkennilegt. Það er hin eina rökrjetta afleiðing af stefnu meiri hl., að ríkið komi ekki aðeins upp sjerstökum seðlabanka, heldur hætti allri annari bankastarfsemi. Þetta viðurkenna þessir hv. þm. vonandi einhverntíma, þótt þeir vilji ekki gera það í þingsálnum að sinni. — Það er ekki til neins að standa með sinn fótinn hvoru megin á jaka, sem er að klofna, ef menn vilja ekki klofna sjálfir.

Jeg þarf nú fáu við að bæta það, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) hefir sagt. Jeg vona, að hv. frsm. minni hl. (JakM) sje farið að skiljast, hvað meiri hl. á við, þegar hann talar um þróun í bankamálum hjer á landi. Það, sem við eigum við, er að ríkið hafi með ágætum árangri rekið hjer almenna bankastarfsemi, og þegar það bætir nýjum lið við hana, seðlaútgáfunni, sje sjálfsagt, að hin sama stofnun fari með hana. Okkar Landsbanki hefir verið alveg einstæður meðal banka á Norðurlöndum og jafnvel í Norðurálfunni. Hefir hann ekki að neinu leyti beðið meira tjón en þótt hann hefði verið einkabanki. Jeg geri ráð fyrir því, að hægt væri að fá vottorð frá útlendum einkabankastjórum um, að þetta væri algerlega óhæft skipulag, sem hvergi gæti þrifist, að ríkið ræki almenna bankastarfsemi. Nú er ekki um nema tvent að gera, að láta seðlaútgáfuna fara í Landsbankann, eða að hlaupa yfir á hinn jakann, þar sem þeir menn standa, sem halda fram óhollustu allra annarar bankastarfsemi en seðlaútgáfu einnar saman, og leggja þá Landsbankann alveg niður.

Jeg hefi veitt því eftirtekt hjá sumum, sem skrifað hafa eða talað um þetta mál, að þeir vilja leggja Landsbankann niður, en með nokkuð öðrum hætti. Þeir vilja, að hann hætti brátt allri innlánsstarfsemi, eftir að hann hefir tekið við seðlaútgáfunni, og skal jeg viðurkenna, að þessi leið er í fullu samræmi við þróun okkar bankamála, að því leyti, sem þá er bygt á núverandi ástandi og fyrirkomulaginu breytt smátt og smátt, en ekki alt í einu. Gagnvart þessu vil jeg láta þess getið um mig, að jeg tel, að innlánsstarfsemi bankans sje svo nauðsynleg fyrir höfuðverkefni seðlabanka, að engar líkur sjeu til, að hún eigi að fara minkandi. Þróunin sýnist nú fara í þá átt í hinum minni ríkjum, að seðlabönkunum sje fengin aftur innlánsstarfsemin til að veita þeim nægilegt vald yfir peningapólitík landanna. En þetta skal jeg fúslega leggja á vald framtíðarinnar og þeirra, sem fara með stjórn bankamálanna hjer í landi, en það er bankaráð og framkvæmdarstjórn Landsbankans. Held jeg, að best muni og affarasælast að láta þetta deilumál um mikla eða litla innlánsstarfsemi seðlabankans liggja milli hluta hjer í þinginu að þessu sinni, en fá það til úrskurðar bankaráðum og bankastjórnum þeim, sem framvegis stjórna Landsbankanum, ef okkar frv. nær fram að ganga. Svo mikla trú verður að hafa á framtíðinni og þeim mönnum, sem þjóðin fær framkvæmdarvaldið á þessu sviði.