01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

81. mál, Landsbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) mintist á brtt. okkar hv. þm. Str. (TrÞ) og tók heldur ólíklega í þær. Þykir honum ekki aðeins of mikið, að binda helming sparifjárins í verðbrjefum, heldur sagði hann, að nær lægi að lækka þá tölu, sem nú stendur í frv., og vill að það sje tekið til athugunar til 3. umr. En það held jeg að geti ekki komið til mála, það væri öfugspor. Hæstv. ráðh. (JÞ) hjelt því fram, að valda myndi miklum örðugleikum að færa 4 miljónir, að hann taldi, úr víxillánum yfir verðbrjef. Loks sagði hann, að þetta væri því aðeins rjettmætt, að það væri eðlileg tilhögun á meðferð fjárins. Já, það, sem við byggjum á, er einmitt það, að þetta sje eðlileg tilhögun á meðferð sparifjárins, þjóðholl stefna og hin tryggasta geymsla fjárins. Við álítum, að þetta geti stuðlað að því, að vöxtur þjóðlífsins verði með eðlilegum hætti, sem jafnastur og traustastur til frambúðar. Það hafa verið mistökin, jafnt hjá okkur sem víða annarsstaðar, að vexti þjóðlífsins hefir með misbeitingu starfsfjárins verið beint á óeðlilegar brautir. Af því hefir meðal annars stafað misvöxtur atvinnuveganna, misvöxturinn milli borga- og sveitalífs, — hjá okkur misvöxturinn milli sjávarútvegs og landbúnaðar — á síðari tímum. Þetta almenna fyrirbrigði þjóðlífsins í flestum löndum hefir valdið miklum örðugleikum víða um lönd. Í þessu hefir misbeiting fjármagnsins átt sinn drjúga þátt. Bankarnir hafa lagt meiri áherslu á að lána fje sitt til fyrirtækja, sem gefið hafa meiri gróðavonir, sem þó oft hafa brugðist, — eins og háttv. þm. N.-Ísf. hefir minst á, að átt hafi sjer stað um suma enska banka — heldur en að lána til þeirra fyrirtækja, sem tryggari eru og þjóðhagslega hollari. Till. okkar hv. þm. (TrÞ) miðar einmitt að því, að ráða nokkra bót á þessu.

Það má vera, að það geti valdið nokkrum örðugleikum að snúa lítilsháttar við á þessari braut. En ef okkar skoðun, sem jeg nú hefi lýst, er á rökum bygð, þá verður að taka því. Get jeg þó ímyndað mjer, að örðugleikarnir sje minni en látið er í veðri vaka.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að hjer væri um beina gjöf að ræða frá eigendum sparifjárins til landbúnaðarins. Það fæ jeg ekki skilið, þar sem vextir verðbrjefanna eigi að vera ¼% hærri en sparisjóðsvextir. Þessvegna er ekkert tekið frá sparifjáreigendum. Ef frá nokkrum er tekið, þá er það tekið af gróðavon bankans. Annars gæti hann ef til vill lánað það við hærri vöxtum, — og meiri gróðavon er jafnframt meiri áhætta.

Þá hjelt hæstv. fjrh. (JÞ) því fram, að þessa gerðist ekki þörf, því að Ræktunarsjóður hefði nóg fje, eins og nú stæði. Mundi hann einnig geta selt nóg jarðræktarbrjef. — Það má vera, að þessa gerist ekki þörf í bili. En það er lítil framsýni, að líta aðeins á málið svo sem nú er á statt. Því að þetta getur brugðist, þegar fram líða stundir. — En till. okkar á einnig að vinna annað. Hún á að stuðla að því, að landbúnaðurinn fái fje við hæfilegum vöxtum, og þar með að tryggja, að hann þurfi ei að fara á mis við nauðsynlegt lánsfje vegna of hárra vaxta.

Í skoðanamun okkar og hæstv. fjrh. (JÞ) rekast á tvær stefnur í þjóðmálum. Hann heldur fram þeirri stefnu, sem verið hefir, að beina fjármagninu sem mest þangað, sem gróðavonin er mest þá og þá, þótt það valdi misvægi og óhollustu í þjóðlífinu. Hann vill stuðla að vexti bæja og atvinnugreina, sem safna að sjer fjölda af verkafólki, sem á við stopula atvinnu að búa, er í annara þjónustu, og auðvelt er að vekja hjá óánægju með lífskjör sín. Þaðan stafar sú alkunna sundurþykkja, sem uppi er í öllum löndum á milli verkamanna og vinnuveitenda, og hún er aftur efniviðurinn í hina andstæðu pólitísku flokka.

Till. okkar miða að því, að gera það mögulegt, að allar atvinnugreinar þróist jafnt og eðlilega, og geti skapað fólksfjölguninni að sem mestu leyti sjálfstætt verkefni, í beinum viðskiftum við náttúruna, sjer til framfæris.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að sinni.