03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í C-deild Alþingistíðinda. (2644)

81. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi ekki tekið þátt í umræðunum um þetta mál ennþá, heldur beðið átekta og viljað heyra, hvað fremstu menn beggja flokka segðu. Hefi jeg látið mjer hægt, meðan þeir hafa deilt um aðalatriði þessa máls. Um það vil jeg aðeins láta þess getið, að fyrsti forgöngumaður þess, að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna, hefir gert sitt til að kasta mönnum í fang hinna. Svo ljeleg var röksemdafærsla hans og svo miklar fjarstæður það, sem hann sagði um þá atburði, sem hjer gerðust síðasta haust. En þar fyrir er þó eigi víst, að jeg hverfi alveg frá hans málstað, því að þótt eitthvert mál sje rangt túlkað, þarf það eigi að vera rangt mál fyrir það.

Það er annað aðalatriði þessa máls, sem jeg ætla að víkja að, hið sama og jeg talaði um við 1. umr. þessa máls. Við hv. 1. þm. N.-M. (HStef) höfum borið fram brtt., svo sem menn vita, um að hækka þann hlut sparifjárins, sem bankinn á að eiga í verðbrjefum, og skylda hann til að lána Ræktunarsjóði allmikið af því fje. Á þessa till., sem miðar að því að tryggja landbúnaðinn, hefir hæstv. fjrh. (JÞ) ráðist með miklum þunga. Jeg hefi nú að vísu engu við að bæta það, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, en þykir þó rjett að fram komi fleiri mótmæli gegn skoðun hæstv. ráðh., þar sem þetta er stórt mál.

Ætla jeg fyrst að gamni mínu að víkja að öðru atriði til að kasta ljósi yfir afstöðu hæstv. fjrh. (JÞ) í þessu máli og öðru, sem altaf blandast saman við það, gengismálinu. Um bæði þessi stóru mál hafa menn mjög reynt að afla sjer upplýsinga um, hvað merkustu og fróðustu menn erlendis segðu. Hafa menn vitnað í ýmsa, en öllum ber saman um, að Cassel sje þeirra langmerkastur. Enginn hefir þó hælt honum svo mikið sem hæstv. fjrh. (JÞ). Í formála bókar þeirrar, er „Lággengi“ nefnist, lýsir hann sig lærisvein Cassels og gefur honum hina mestu traustsyfirlýsingu. — Í þennan mann er nú óspart vitnað, bæði í bankamálinu og gengismálinu. Og það tel jeg eitt hið besta, sem hv. meiri hl. hefir fram að færa, að hann hefir þenna mann með sjer. — Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir Cassel með sjer í gengismálinu, en móti í bankamálinu. Um hv. frsm. minni hl. (JakM) er það þveröfugt. En hæstv. fjrh. (JÞ), sem hefir lýst sig lærisvein þessa manns, hefir hann á móti sjer í báðum málunum.

Jeg kom nú með þetta innskot að gamni mínu, til að styðja það, sem jeg nú kem að, að mótmæli hæstv. ráðh. (JÞ) gegn brtt. okkar hv. 1. þm. N.-M. (HStef) koma engan veginn úr merkilegri átt. Það var bent á við 1. umr. þessa máls, að aðalatriðið væri ekki það eitt, hvernig seðlaútgáfunni væri komið fyrir, heldur væri það einnig stórt atriði, hvernig veltufje skiftist milli atvinnuveganna. Leiddi jeg þá rök að því, að landbúnaðurinn hefði orðið illa úti með lánsfje á undanförnum árum. Tilraun síðasta þings um Ræktunarsjóð hefir mishepnast að mestu leyti, sakir þess, hve ógurleg vaxtakjörin eru. Vil jeg því gera það að aðalatriði þessa máls frá minni hálfu, að landbúnaðinum verði trygt fje með sæmilegum kjörum. Vil jeg beina því til beggja hluta fjhn., hversu þeir vilja snúast við þessu máli. Vil jeg spyrja þá, hve þeir geti samrýmt það sínu fyrirkomulagi, hvor um sig, að afla landbúnaðinum lánsfjár, með sanngjörnum vaxtakjörum. Vona jeg, að þeir lýsi afstöðu sinni við þessa eða næstu umr. þessa máls, og eftir því mun afstaða mín verða til málsins.

Jeg geri það ekki að neinu aðalatriði að till. verði samþ. óbreytt. Jeg gæti fallist á hana í annari mynd. T. d. mætti hækka þessa verðbrjefaeign um 1/3, og væri þá meiri hluti hennar í jarðræktarbrjefum, sem Ræktunarsjóður Íslands fengi.

Gegn þessari till. hefir hæstv. fjrh. (JÞ) barist þunglega. Það, sem hann hefir talað um, er mest þetta, en lítið um málið í heild sinni. Hann hefir varið tveimur ræðum til þess að ráðast á þessa till. Mjer kom það í raun og veru ekki á óvart. En þó myndi hann einn allra í þessari deild hafa kjark til þess að ráðast í móti þessari till. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir meir en nokkur annar maður gengið fram fyrir skjöldu um að spyrna á móti þörfum landbúnaðarins. Það hefir enginn sýnt eins lítinn skilning og hann á þeim. Þetta hefi jeg ótal sinnum lesið yfir honum.

Jeg ætla svo að fara gegnum ástæður þær, sem hæstv. fjrh. bar fram gegn þessari brtt. Hann sagði, að ekki væri forsvaranlegt að binda helming sparifjárins með brjefum. Nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ)komið fram með það í frv. að binda 1/3 þess, svo að það er ekki nema 1/6 minna, sem hann vill binda, svo að munurinn er ekki mikill. Annars geri jeg þetta ekki að aðalatriði, ef þá þessi þriðjungur fæst á annað borð. Hæstv. fjrh. sagði, að þetta gæti ekki komið til mála, viðskiftalífið þyldi það ekki. Nú eru hæstv. fjrh. (JÞ) og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) sammála um, að nauðsynlegt sje að fá hingað erlent fje, og að það væri leið, að bankinn tæki lán, ef samkomulag næðist um það og fje vantaði. Og ef tekin eru lán, hvort þau eru meiri eða minni, skiftir litlu. En það er hugsunarhátturinn, sem kemur fram í þessu, sem jeg vil vekja athygli á. Hæstv. fjrh. segir það ekki geta komið til mála, að landbúnaðurinn fái aðeins ¼ af sparifje bankans, af því að viðskiftalífið þoli það ekki. Svona er sjávarútvegurinn og verslunarbraskið mikilsvirði í augum hæstv. fjrh. (JÞ), að ekki getur komið til mála, að landbúnaðurinn fái aðeins af starfsfje atvinnuveganna. Þetta er mat hæstv. fjrh. á gildi atvinnuveganna, að það er fjarstæða, að landbúnaðurinn fái þennan fjórðung. Jeg hefi sem endurskoðunarmaður Landsbankans athugað, hve mikið stendur í bankanum af landbúnaðarlánum. Það er lítið, innan við 25%, og þó tekið með ýmislegt, sem vafi leikur á um, eins og t. d. sum lánin á Selfossi. Í öðrum lánstofnunum, svo sem Íslandsbanka, er enn minna af þeim.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að þetta væri óframkvæmanlegt. Ef það er óframkvæmanlegt um helming sparifjárins, þá er það eins um 1/3 af því. Að það sje ómögulegt að láta vexti sparifjárins, sem Ræktunarsjóður borgar, færast til, get jeg ekki skilið. Mjer virðist það ofureinfalt. Ef viljinn til þess er góður, er það vel framkvæmanlegt. Þetta er alveg út í hött hjá hæstv. fjrh. Jeg skora á hann að gera nánari grein fyrir þessu.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að þetta væri hrein gjöf frá sparifjáreigendum í Landsbankanum, ef farið væri fram á að fá lægri vexti handa Ræktunarsjóði. Nei, vextirnir eiga að vera þeir sömu. Vextirnir, sem Ræktunarsjóður borgar, eiga að miðast við almenna sparisjóðsvexti. Þetta hefir engin áhrif á þá vexti, sem sparisjóðseigendur eiga að fá. Og ef ¼ sparifjárins fer yfir til landbúnaðarins, bætist það við, að eigi þarf að óttast, að þau lán, sem af þessu fje eru veitt, muni tapast.

Í 5. lagi sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að brtt. væri óþörf. Ræktunarsjóður hefði nóg fje, og hann hefði getað gert meira að því að selja brjef en raun varð á. Jeg er nú þakklátur stjórn sjóðsins fyrir að hafa ekki selt brjefin, því að það hefði orðið til bölvunar að gefa út mikið af skuldabrjefum, sem eiga að borgast með 6%. Hjer er um tvær ólíkar lífsskoðanir að ræða hjá mjer og hæstv. fjrh. Það er ekki nóg að hafa fje, það verður að lána það með þeim kjörum, sem landbúnaðurinn þolir. Það, að vextir eru svo háir hjá bönkunum, stafar af þeim töpum, sem orðið hafa hjá atvinnuvegunum, og þau töp hafa ekki orðið hjá landbúnaðinum. Og höfuðástæðan til brtt. minnar er einmitt það, hve mikið hefir orðið af töpum, landbúnaðinum óviðkomandi. Og þegar hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að Ræktunarsjóður hafi nóg fje, þá er það bara önnur hlið málsins. Hann hefir ekki nóg fje, og ekki nógu góða aðstöðu til þess að lána það með hæfilegum kjörum. Það þarf að afla sjóðnum meira fjár og lána það með 5% vöxtum eða lægra.

Þetta voru höfuðástæður hæstv. fjrh. (JÞ) í fyrri ræðu hans. Svo bætti hann við í síðari ræðu sinni, að þau ¼%, sem Ræktunarsjóðurinn ætti að borga, nægði ekki fyrir öllum reksturskostnaði sparisjóðsins. En hann á ekki að borga reksturskostnað nema að sínum hluta. Hvað mikill kostnaður væri að því að flytja þetta fje, er alveg óvíst um. Hann getur orðið alls enginn. Hitt kemur engum í hug, að þessi hluti sparifjárins eigi að taka þátt í töpum. Hæstv. fjrh. bætti því við, að þetta nægði ekki upp í töpin. En ef þessi ¼ fer í Ræktunarsjóðinn, verða engin töp á því fje. Þetta er rjettlætisgrundvöllurinn, að á landbúnaðarlánum tapast ekki.

Hv. meðflm. minn, hv. 1. þm. N.-M. (HStef) gat þess, að það, hvernig hæstv. fjrh. snerist við þessu máli, bæri vott um aðra lífsstefnu hjá honum en okkur, og jeg tek fyllilega undir það. Það ber vott um, að hann telji framtíð landsins ekki svo bundna við landbúnaðinn, að þar fyrir sje svo þýðingarmikið að hlynna að honum. Það ber vott um, að hæstv. ráðh. álítur, að sjávarútvegurinn og ofvöxtur bæjanna sje sú þróun, sem eigi megi halda aftur af eða taka fje frá.

Hæstv. fjrh. sagði, að við flm. skyldum tala um þetta atr. við stjórn Landsbankans. Þótt jeg beri nú fult traust til hennar, þá vil jeg þó ekki segja það, að hún eigi að ráða því, hvaða tillögur sjeu gerðar um fyrirkomulag þingmálanna. Hún spyrnir altaf á móti því að láta þá af viðskiftamönnum sínum, sem við berum fyrir brjósti, fá góð kjör. Fyrir tveim árum síðan samþykti Alþingi lög um búnaðarlánadeildina. Þá sýndi stjórn Íslandsbanka alls ekki fullan skilning eða vilja á því að framkvæma þau lög, og stóð þá fullnærri hæstv. fjrh. (JÞ), sem sýndi því máli allan þann fjandskap, sem hann frekast gat. Jeg vil eindregið mæla með því, að brtt. okkar hv. 1. þm. N.-M. (HStef) á þskj. 386 verði samþ. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir með þunga miklum lagst á móti henni. Og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir vísað til ummæla hans. Jeg vil skora á þá aðilja, sem hjer heyja stríð í móti okkur, að athuga, í hvaða mynd þeir geti komið á móti kröfum okkar flm., að um leið og bankamálinu er endanlega skipað í fast horf, þá beini þingið hæfilega miklu fje til landbúnaðarins.