03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það lýsir óleyfilegum ókunnugleika hjá hv. þm. Str. (TrÞ), sem er endurskoðandi Ræktunarsjóðsins, er hann segir, að vextir sjóðsins sjeu þetta lágir „þrátt fyrir mótspyrnu“ mína. Jeg átti frumkvæðið að þeirri lagasetning, sem gerði það mögulegt, að vextir gátu orðið svo lágir, í fyrsta lagi með því að flytja í fyrra frv. um Ræktunarsjóðinn, og síðan með því að ákveða í reglugerð, að vextirnir skyldi vera 5½%. Það er í lögum ákveðið, að mismunur milli verðbrjefavaxta og útlánsvaxta skuli vera en þetta veit hv. þm. (TrÞ) einu sinni ekki.

Jeg var ekki að snúa út úr brtt. hv. þm. (TrÞ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef), heldur skýrði jeg góðgjarnlega það, sem ekki er tekið fram í henni, að Landsbankinn keypti brjef með nafnverði, því að það mun tilætlunin.

Annað það, er hv. þm. (TrÞ) sagði, var ekki annað en endurtekning úr fyrri ræðu hans, og því er áður svarað. Og allra síst ætla jeg mjer að gera að umræðu ófæddar brtt. við frv.

Þá er brtt. á þskj. 469, frá hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. Árn. (JörB), um það að taka upp í frv. grein, sem nú er í lögum, um það, hvernig ávaxta skuli opinbera sjóði. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) hefir þegar gert grein fyrir því, að þetta ákvæði getur ekki staðist. Það er að vísu eðlilegast, að fje ríkissjóðs væri ávaxtað í þjóðbankanum, og það mun víða tíðkast erlendis, en sú ávöxtun á að geta orðið með frjálsum samningi. En það er engin ástæða til að gefa seðlabankanum þennan rjett með lögum, hann þarf þess ekki, og það er ekki rjett gagnvart ríkinu, því það er varnarlaust gegn því, hvaða vexti bankinn greiðir af innstæðufje. Rjettast væri því og eðlilegast, að slík viðskifti væru samningsmál milli stjórna ríkis og banka. Þess vegna álít jeg, að það sje ekki rjett, að þetta ákvæði standi í lögum áfram. Og svo ber líka þess að gæta, að þessu ákvæði hefir eigi verið fylgt bókstaflega enn þann dag í dag. Ríkissjóður hefir ekki átt mikið fje til að ávaxta síðari árin, heldur hafa viðskifti hans verið meiri á hinn bóginn. Yfirskoðunarmenn landsreikninganna 1924 bentu á, að meðal vaxtatekna væri tekjur af innstæðufje í Landsbankanum og Íslandsbanka, og þeir segjast halda, að ekki sje farið eftir þeirri lagagrein, að ávaxta fje ríkisins í Landsbankanum. Jeg hefi svarað þeim svo, að þetta hafi við gengist síðan snemma í tíð fyrverandi stjórnar, að ríkissjóður hafi fje á innstæðu í báðum bönkunum, og að jeg teldi ekki ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi, nema stjórn Landsbankans kvartaði. Þessu var skotið til Alþingis, en enginn hefir hreyft málinu hjer. Og þar sem þessi lagagrein er látin sofa með aðstoð landstjórnar, Alþingis og bankastjórnar, þá er óþarft að lengja líf hennar.

Jeg get bætt því við, fyrir þá háttv. þdm., sem gera sjer í hugarlund, að það sje mikill starfsmunur seðlabanka og einkabanka, að það er fremur óaðgengilegt að fyrirbyggja, að sá bankinn, er sinnir þörf atvinnuveganna að miklu leyti, fái ekki að njóta fjár opinberra sjóða. Að vilja láta alt slíkt fje ávaxtast í seðlabanka eru öfgar, eins og hitt, að vilja eigi leyfa seðlabanka að taka á móti fje með vöxtum.

Jeg veit ekki, hvort rjett er að lengja umr. með því að svara almennum athugasemdum hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. frsm. minni hl. (JakM). Það, sem þarf til andsvara, á betur við við 3. umr. Jeg ætla þó að tína úr einstök atriði, er snerta einstakar greinar frv.

Hv. frsm. minni hl. (JakM) talaði mikið um innlánsstarfsemi þá, sem hjer er ætluð seðlabankanum. Jeg get að miklu leyti sparað mótbárur, því að í niðurlagi ræðu sinnar gerði háttv. þm. (JakM) ráð fyrir því, að þeir mundu bera fram brtt. við frv. minni hl. milliþinganefndarinnar í bankamálum, einmitt á þá leið, að seðlabanki þeirra mætti taka við fje á hlaupareikning. Og þá er nú orðið stutt á milli.

Í 13. gr. stendur, að seðlabankinn megi taka við á dálk eða hlaupareikning, án vaxta eða með vöxtum, eftir ákvörðun bankaráðs og framkvæmdarstjórnar, svo sem nánar verður ákveðið í reglugerð bankans. Mjer skilst eftir ummælum hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að hliðstætt ákvæði hefði verið tekið upp í hitt frv., og er það spor í rjetta átt.

Svo á að mega taka við fje til geymslu í Landsbankanum. Það er misskilningur hjá hv. þm., að ef seðlabanki borgi innlánsvexti, verði það að vera samkepnisfærir vextir, það verði að vera hinir hæstu sparisjóðsvextir. Seðlabankanum er ekki ætlað að taka við innlánum nema á hlaupareikning eða á dálk, og á þeim standa alls ekki hinir hæstu vextir. Enda er eðlilegt, að seðlabankinn ýti frá sjer innlánsfje, er svo ber undir, með því að hafa lægri innlánsvexti. Og höfuðástæðan til þess, að seðlabankar í öðrum löndum greiða ekki innlánsvexti, er sú, að þeir telja það ekki hlutverk sitt að keppa við einkabankana um innlánsfje.

Í sambandi við hlaupareikninginn verð jeg að leiðrjetta það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði um gjaldeyrisverslunina. Hann hjelt því fram, viðvíkjandi gjaldeyrisverslun í seðlabanka minni hl., að hann gæti rækt gjaldeyrisverslun á þeim grundvelli að borga allan gjaldeyrinn í seðlum. Þetta er undarleg meinloka. Það er ekki leyfilegt að gefa út seðla, nema það, sem nauðsynlega útheimtist fyrir gjaldmiðilsþörf innanlands. En gjaldeyrisverslunin fer svo fram, að andvirði gjaldeyrisins er fært inn á hlaupareikning. Og mikið af gjaldeyrisversluninni gengur fyrir sig án þess, að til seðlaútgáfu þurfi að taka. Því að erlendis er lagt inn á hlaupareikninga og fylgja þeim jafnan hliðstæðar inneignir, og ráðstafar bankinn þeim til þeirra viðskifta innanlands, sem brúka krónur, með tjekkávísun eða millifærslu, og koma seðlar því mjög sjaldan í beint samband við gjaldeyrisverslunina, nema að því leyti, sem aukin verslun skapar aukna gjaldmiðilsþörf.

Það er alveg auðsjeð, að á eðlilegan hátt getur þessi stofnun ekki rekið þessi viðskifti nema með því að hafa hlaupareikningsviðskifti. En þetta kemur meira við hinu frv., og ætla jeg því ekki að fara lengra út í þetta.

Þá sagði háttv. 3. þm. Reykv., að seðlabanki stjfrv. hefði ekki annað teljandi fjármagn en seðla, og yrði líkur hinum bankanum. Þá sje jeg nú ekki, að háttv. þm. hafi ástæðu til þess að vera á móti honum. En raunar er sá munur á þeim, að í öðrum er pláss fyrir 6 bankastjóra, en í hinum fyrir 3½ (JakM: Eða 30–40!). Jeg tel 3½. En sannleikurinn er sá, að á þeim er talsverður munur. Jafnaðarreikningur Landsbankans sýnir, að reikningsjöfnuður bankans var kr. 50526816.33 í árslok 1924. Þar af fara 25 milj. kr. í sparisjóðsdeildina, ef tekið væri bæði innstæðufje í sparisjóði og gegn viðtökuskírteinum. Hitt væri eftir í bankanum. (JakM: Hvað miklir seðlar?). Alls rúmlega 3½ miljón kr. í seðlum, af 25 miljónum, sem bankinn hafði í byrjun. Þetta er mikill munur á styrkleika, og er ákaflega mikill munur á því fyrir gamla, lifandi bankastofnun, að taka að sjer gjaldeyrisverslunina, eða fyrir hina nýju stofnun, sem hefir ekkert verðmæti laust.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ef sparisjóðsdeildin keypti erlendan gjaldeyri, þá væri blandað saman heimild þeirri, sem hann hefði til þess að reka seðlabankastarfsemi, við sparisjóðsstarfsemina. Þetta er misskilningur. Í frv. er gert ráð fyrir því, að sparisjóðsdeildinni sje þetta heimilt, og þetta er ekki annað en það, sem hverri peningastofnun, sem ræki sparisjóðsstarfsemi, myndi heimilað, að kaupa og selja víxla og ávísanir til greiðslu erlendis. Og þótt sparisjóðurinn geri þetta eins og hver annar einkabanki, þá er engu blandað saman, því hann gerir það fyrir eigin reikning og áhættu. En að hafa þetta alt undir einni bankastjórn gerir bankann sterkari með gjaldeyrisverslunina, af því að hann hefir sparisjóðsfjármagn yfir að ráða.

Þegar jeg tala um styrkleika Landsbankans, þá tala jeg um getu hans til þess að halda uppi gjaldeyrisverslun og til þess að taka á sig gengissveiflur þær, sem hún hefir í för með sjer. Og þótt það sje rjett, að seðlabankinn hafi ekki getað varist gengissveiflum eftir að krónan var fallin úr gullgildi og innlausnarskyldan upphafin, þá má ekki gleyma því, að hjer er samt um að ræða lagasetningu fyrir langa framtíð, og þótt erfiðlega gangi að venjast gengissveiflum með pappírsgjaldeyri, þá er samt skylda að búa bankann svo út, að hann geti varist gengissveiflum, sem fara út fyrir gullpunktinn, og þegar gullinnlausnarskyldan verður tekin upp aftur, verður að gera það með gjaldeyrisverslun, eftir því, sem hjer hagar til. Jeg vil vekja eftirtekt á því, að þegar seðlar Íslandsbanka byrjuðu að falla í verði, þá var það ekki fyrir töp bankans; hann hafði engu tapað, þegar seðlar hans fjellu í verði í janúar 1919. Þeir fjellu af því, að í gjaldeyrisversluninni elti íslenska krónan þá dönsku, þegar hún fór að falla úr gullgildi. Það er því villandi að segja, þegar vitnað er í reynsluna með útlán og töp, að gengi gjaldeyrisins hafi fallið vegna tapanna, það fjell áður af öðrum ástæðum. Það var á sviði gjaldeyrisverslunarinnar, sem þann mikla ósigur bar að höndum, gullgengisfall íslenkrar krónu. Út af því, sem háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, vil jeg segja það, að mjer dettur ekki í hug að halda, að Landsbankinn muni alt í einu hætta almennri útlánsstarfsemi sinni. Hann sagði, að það yrði erfitt fyrir hann að hafa þessa starfsemi á hendi. Jeg held einmitt, að svo þurfi alls ekki að verða, og legg engan trúnað á orð þeirra manna, sem slíku halda fram. Það er nú svo, að við verðum að byggja alla okkar útlánsstarfsemi á þeim atvinnuvegum, sem reknir eru í landinu, og verður því útlánsstarfsemin altaf í áhættu vegna atvinnuveganna. Það þýðir ekkert að halda, að búið sje að sneiða hjer hjá allri áhættu með því að láta einn banka lána hinum öðrum bönkum og þá banka atvinnuvegunum. Ef fje tapast, kemur það í ljós í framtíðinni, eins og verið hefir hingað til, og stórfeld töp geta aldrei orðið seðlabankanum óviðkomandi.

Þá ætla jeg síðast að minnast á þá staðhæfingu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að hjer komist síður á fót einkabankar, ef Landsbankinn verður gerður að seðlabanka, verði hann þá samkepnisbanki við þá. Þetta stríðir algerlega á móti hugsunarhætti erlendra bankafræðinga. Það, sem einkabankarnir telja sjer langhættulegast, er það, ef ríkið tekur að öllu leyti á sig ábyrgð á starfi eins banka. Jeg held, að það hafi hvergi komið fyrir, að ríkið hafi tekið að sjer alveg einn banka, en hitt hefir komið fyrir, að ríkið hafi gengið í ábyrgðir fyrir einkabanka. Svo var t. d. þegar danska ríkið tók á sig ábyrgð á rekstri Landmandsbanken, og hið sama kom fyrir með ýmsa banka í Noregi. Jeg hefi sjeð mikið um þetta skrifað í erlendum blöðum og ritum, og eru allir á einu máli um það, að krefjast þess, að úr þessu atriði, að ríkið ábyrgist bankana, verði bætt, af því að það sje hættulegt fyrir einkabankana, þar sem fjármagnið streymi frá þeim og til þeirra banka, sem ríkið ábyrgist. Það er því ekki hægt að setja meiri hindrun fyrir einkabankana en að halda uppi ríkisbanka, sem ekki er seðlabanki, heldur samkepnisbanki. Mín skoðun er því sú, að það, sem stungið er upp á í stjfrv. sje hið eina, sem geri mögulegt fyrir einkabanka að starfa hjer á landi.