03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í C-deild Alþingistíðinda. (2651)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg var ekki viðstaddur, þegar háttv. frsm. meiri hl. (MJ) gerði brtt. okkar háttv. þm. Str. (TrÞ) að umtalsefni. Jeg get því ekki svarað honum, en jeg býst við því, að hann hafi komið fram með svipuð rök og hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg get því fyrst skírskotað til ummæla hæstv. fjrh. (JÞ), að bankinn, jafnframt því, sem hann fær seðlana, geti haft sparisjóðsstarfsemi. Og þótt nokkur munur kunni að vera á opinberu fje, sem einstakir menn leggja inn, þá er eðlismunur þess ekki svo mikill, að bankinn geti ekki haft af því mikinn styrk. Og ef sparisjóðsfje getur á annað borð verið bankanum til styrktar, þá getur honum líka orðið handbært fje opinberra sjóða til styrktar.

Eins og bankinn þarf altaf aðgæslu í útlánum sínum, og haga þeim eftir sparisjóðsfje sínu, eins þarf hann að haga útlánunum með tilliti til þess, hve mikið fje frá opinberum sjóðum er sett til ávöxtunar í honum.

Háttv. frsm. ætlaðist ekki til þess, að bankinn drægi úr útlánsstarfsemi sinni. En sannleikurinn er sá, að það, sem mestu ræður um það, hvernig bankanum vegnar, er það, hvernig innlánstarfseminni verður hagað, og tekur það bæði til sparisjóða og annara fjármuna, sem bankinn fær til meðferðar. Jeg býst við því, að bankinn verði að hafa þetta handbært til þess að geta greitt það, þegar kallað er eftir því. En það má líka reikna það með, þegar þetta fje er kallað út til starfseminnar.

Hæstv. fjrh. færði allsterk rök fyrir því, að sparisjóðsfje væri bankanum til eflingar. Þá held jeg, að sömu rök liggi til þess, að honum gæti orðið það til styrktar að ávaxta fje ríkissjóðs og annara opinberra sjóða. Og þótt settar verði einhverjar frekari skorður við því, að lána út fje ríkissjóðs, heldur en gert er með gildandi lögum, þá fæ jeg ekki sjeð, að það þurfi að valda neinni röskun á starfsemi bankans, þótt fje ríkissjóðs verði nokkuð sjerstakt í þessu tilliti. Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að þetta kæmi í bága við það, ef ríkið þyrfti að leita lána annarsstaðar en hjá Landsbankanum. Gætu þá þeir bankar, sem ríkið leitaði til, sett skorður við því, að lána ríkinu fje, ef það mætti hvergi ávaxta fje sitt annarsstaðar en í Landsbankanum. En þetta þarf ekki að koma í bága við till. okkar, því að ef sjerstakar ástæður banna, er heimilt að ávaxta annarsstaðar en í Landsbankanum. Till. gerir ráð fyrir, að þetta kunni að henda. En að þessi breyting var gerð á bankalögunum á þingi 1919 og við hv. þm. Str. (TrÞ) flytjum hana nú, stafar af þeirri reynslu, sem við höfum fengið með það, að opinbert fje er nú orðið ávaxtað að talsverðu leyti annarsstaðar en í Landsbankanum, og að hann fer því á mis við það.

Hæstv. fjrh. (JÞ) drap á vaxtakjör bankans. Jeg get nú ekki neitað því, að hann hafi þar nokkuð til síns máls. En jeg óttast samt ekki, að bankinn misnoti þennan rjett, því að alla þá stund, sem hann hefir haft hann, hefir vaxtamunurinn verið svo lítill, að hann hefir hvorki gert til nje frá. En hitt er meira virði að styrkja bankann með því, að veita honum þennan rjett.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að með þessari till. væri ríkisstjórnin ekki frjáls að því, hvar hún ávaxtar fje ríkissjóðs. Jeg held, að þar fyrir sje engin ástæða til þess að vera á móti henni. Mjer finst ekki reynslan hafa bent á, að þetta ófrelsi hafi valdið miklum erfiðleikum. Hæstv. fjrh. benti á, að lögunum hefði ekki verið fylgt. Jeg hygg þó, að þeim hafi verið fylgt, nema e. t. v. nú allra síðast, af því að það mátti til. Og jeg get lýst því yfir, sem endurskoðandi landsreikninganna, að jeg sá enga átyllu til þess, að það fje, sem um var að ræða, hefði verið sett fremur í Landsbankann en Íslandsbanka. þessvegna hefi jeg gert athugasemd um þetta atriði. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að bankastjórarnir hefðu enga kvörtun sent um þetta, en jeg tel ekki bankastjórninni skylt að sjá um, að opinbert fje sje ávaxtað í bankanum, heldur á stjórnin að gera það. Og einmitt það átti sjer stað með það fje, sem ávaxtað var annarsstaðar 1924.

Nú get jeg sagt það, að mjer þótti mjög miður, að hv. fjhn. skyldi ganga fram hjá þessu atriði.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að þessi lög myndu látin sofa, og landstjórn, bankastjórn og Alþingi ekkert í þeim gera. Játa jeg, að stjórn og löggjafarvald muni kannske humma þetta fram af sjer, af því að í hlut á ekki sú stofnun, sem að minsta kosti má segja, að hæstv. fjrh. láti sjer ant um, heldur sú stofnun, sem þingi og þjóð á að vera kærust og þau reiðubúin til að efla sem mest og best. — Mjer þykir skjóta nokkuð skökku við, ef háttv. deild ætlar nú ekki að samþ. till., út frá þeim rökum, er fram hafa komið gegn henni. Vil jeg þessvegna beina því til hæstv. forseta, að hann hafi nafnakall um hana.