03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg skal vera stuttorður, en úr því að hæstv. forseti gat fallist á að lofa mjer að gera örstutta athugasemd, nenti jeg ekki að láta það bíða til 3. umr. að svara hæstv. fjrh. (JÞ). Enda er það nú ekki lengi gert.

Hann sagði, að jeg hefði gert ráð fyrir, að seðlabankinn tæki við innlánsfje á hlaupareikning. En fjrh. hefði átt að taka út í æsar, það sem jeg sagði í sambandi við gjaldeyrisverslunina, því að minni hl. gerði ekki ráð fyrir öðru en því, að bankinn tæki í gjaldeyrisviðskiftum fje á hlaupareikning. Þá sagði fjrh., að það væri misskilningur hjá mjer, að bankinn væri samkepnisbanki um innlánsfje. Hann hefir þó sjálfur ráðgert, að innlánin yrðu lögð til seðlabankans. En jeg hefi ekki haldið fram, að bankinn borgaði annað en hæstu sparisjóðsvexti, og sje jeg ekki betur en að það sje rjett. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að það væri meinloka hjá mjer að leyfa bankanum að gefa út seðla til þess að kaupa gjaldeyri. En meinlokan er nú hjá fjrh. (JÞ) sjálfum. Því að þessi staðhæfing, að allur greiðslujöfnuður eða reikningsjöfnuður mundi falla niður við þetta, er fullkomin meinloka. Sá jöfnuður mun eiga sjer stað alveg á sama hátt og áður. Það stendur í greinargerð frv. og kom einnig fram á síðasta þingi, að Landsbankinn hafi einmitt gefið út seðla til þess að halda í hemilinn á hækkun krónunnar. Það, sem þarf umfram greiðslujöfnuðinn, verður í seðlum fyrst í stað. Þá var hæstv. fjrh. (JÞ) að tala um seðlastofnun og seðlabanka. En hann sjer ekki muninn. Seðlastofnunin á að haga vöxtum sínum eftir viðskiftabönkunum, en seðlabankinn á að ákveða bæði sína vexti og vexti hinna bankanna. Hjer er því geysilegur munur á, styrkleikamunur.

Þá las hæstv. fjrh. upp úr reikningum bankans, hvað mundi koma í hlut seðladeildarinnar af veltufje Landsbankans, og fjekk út um 25 miljónir. En þar skýtur nokkuð skökku við. Það er ekki nóg að draga frá sparisjóðsfjeð. Það verður líka að draga frá seðla í umferð og bankaskuldabrjef, innstæðu, veðdeild og varasjóði. Það, sem eftir verður í seðladeildinni, er aðeins ensku lánin og hlaupareikningsfjeð, samtals um 15 miljónir, samkv. síðasta ársreikning. Eins og jeg hefi áður bent á, þarf bankinn að greiða af breska láninu 7%. Það er því ekki mikið upp á að hlaupa og ekki hægt að tala um mikinn styrk í þessu sambandi. Hæstv. fjrh. (JÞ) gerði mun á þessum gengisbraskstímum, sem nú standa yfir, og venjulegum tímum. En þegar fjármálalífið er komið í fastar skorður, verður það ekki þung byrði á bankanum að halda jafnvægi.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að það væri rangt hjá mjer að setja gengisfallið 1919 í samband við töp Íslandsbanka. Þetta er auðvitað bókstaflega rjett, en þó er það í raunveruleikanum rangt. Í raun og veru var ekki um neitt gengisfall ísl. kr. að ræða fyrr en 1920–21. Áður fjell ísl. króna vegna dönsku krónunnar. En það, að Íslandsbanki gerði seðla sína óinnleysanlega gagnvart Danmörku, olli sjerstöku gengisfalli ísl. kr. 1920–21 og kom til af þrengingum, sem bankinn komst í vegna almennra viðskiftastarfsemi sinnar í sambandi við seðlaútgáfuna.