27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

5. mál, myntsamningur Norðurlanda

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Í 9. gr. sambandslaganna er það ákveðið, að myntskipun sú, sem gilti bæði á Íslandi og í Danmörku, skuli halda áfram meðan myntsamband Norðurlanda sje í gildi. En þetta myntsamband Norðurlanda byggist á samningum milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur frá 1873 og 1875, og gilti þá einnig fyrir Ísland, sem þá hafði sömu skiftimynt og gilti í Danmörku.

Þegar mismunandi gengi kom á peninga Norðurlandaþjóðanna á stríðsárunum, komu fram erfiðleikar um framkvæmd samningsins. Sænsk króna stóð hæst af peningum Norðurlandaþjóðanna, og streymdi þangað silfrið úr Noregi og Danmörku, þrátt fyrir útflutningsbann á silfurmynt. Urðu svo þessar þjóðir að innleysa skiftimyntina, að jeg ætla með gullverði, þótt peningar þeirra stæðu miklu lægra.

Þetta ástand mun hafa leitt til þess viðbótarsamnings, sem ræðir um í þessu frv. og stjórnin vill fá leyfi til að ganga í fyrir Íslands hönd. Samningurinn er prentaður með frv. sem fylgiskjal.

Í raun og veru fer samningurinn fram á það að upphefja ákvæðin í núgildandi samningi um það, að skiftimynt hverra þessara þjóða skuli vera gjaldgeng hjá hinum. Í Svíþjóð, þar sem peningar standa nú í gamla gullverðinu, mun silfurmynt vera notuð áfram. En hin löndin hafa gert innlenda skiftimynt úr ódýrum málmi, og er hún aðeins notuð innanlands. Nú hefir Ísland látið gera innlenda skiftimynt, sem ekki verður löglegur gjaldeyrir annarsstaðar en hjer, og hætt verður að nota skiftimynt hinna Norðurlandaþjóðanna. Og þess vegna fer ríkisstjórnin fram á heimild til að ganga inn í viðbótarsamninginn.

Jeg veit ekki og hefi ekki getað fengið upplýsingar um það, hvort Ísland hafi gengið inn í myntsambandið sjerstaklega, eftir að sambandslögin voru samþykt, út af þeim breytingum, sem þá urðu á afstöðu ríkisins út á við, eða hvort látin hafa verið nægja ákvæðin í 9. gr. sambandslaganna, Ef svo er ekki, þá er það nú fyrst, að Ísland sem sjálfstæður aðili gengur inn í myntsamning við Norðurlönd. Máske hæstv. fjrh. (JÞ), sem þetta mál heyrir undir, geti gefið upplýsingar þar að lútandi.

Allshn. hefir athugað málið, og hún leggur til eindregið, að frv. verði samþykt óbreytt.