07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Nefndin hefir ekki haft tíma til þess að athuga frv. milli umr., en meiri hl. hefir þó litið á till. þær, er nú liggja fyrir. En jeg hefi fáu frá honum að skila. Hann er samþykkur og mælir með fyrstu og síðustu till. hæstv. fjrh. (JÞ) á þskj. 485, en um hinar tvær hefir ekki náðst samkomulag, og eru því atkv. manna óbundin um þær.

Jeg held, að jeg eigi ekki að skila neinu frekar frá meiri hl. nefndarinnar, nema að mæla með frv., að það fái að ganga áfram, enda hafði það nú svo mikið fylgi við 2. umr., að því ætti að vera óhætt úr þessu. — Jeg vildi þó aðeins minnast lítillega á brtt. frá mínu sjónarmiði.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 485, frá hæstv. fjrh. (JÞ). Mjer finst þær eðlilegar og legg þeim liðsinni mitt. Er ekki þörf að mæla frekar fyrir þeim en hann hefir gert, enda hafa þær ekki mætt neinum andmælum. En það er á það að líta, að þegar milliþinganefndin lagði til að binda 1/3 af innstæðufje sparisjóðsins í auðseldum verðbrjefum þá hafði hún fyrir augum banka, sem ekki var skift í deildir, nema hvað bókfærslu snertir, og miðaði því verðbrjefaeignina ekki eingöngu við tryggingu sparsjóðsins, heldur átti þetta einnig að vera styrkur fyrir bankann í heild sinni, einnig seðladeildina. En nú er sparisjóðsdeildin orðin óháð og undir sömu kjörum og aðrir sparisjóðir. Er því nú ósamræmi í kvöðinni, þar sem henni er gert að skyldu að hafa tífalda verðbrjefaeign á móts við aðra sparisjóði. Annars er sparisjóðum skylt að hafa 3% í innstæðu í Landsbankanum eða í auðseldum verðbrjefum, en þó þarf ekki að fara upp yfir 5% af innstæðufjenu. Hjer er því mikið ósamræmi. Það er auðvitað rjett, að skuldbinda stærsta sparisjóð landsins til þess að hafa meira en aðrir sparisjóðir, en fyr má nú rota en dauðrota. Af þessum ástæðum vil jeg mæla með till. hæstv. fjrh., enda er hún studd af stjórn Landsbankans.

Jeg þarf varla að geta þess, að jeg er samþykkur 3. brtt. Hún mildar það ákvæði, sem sett var inn í frv. við 2. umr. og jeg var algerlega andvígur, sem sje því, að gera það að skyldu að geyma alt opinbert fje eða sjóði í Landsbankanum. Það mun nú vera svo, að sparisjóðir megi geyma fje sjóða, samkvæmt lögum frá 1915. En þetta er ófrelsi samt, og leggur hömlur á það, að t. d. gefendur geti ráðstafað fje eftir vild. Það er sjálfsagt að halda fjenu að Landsbankanum eftir því, sem eðlilegt er, enda mun stjórnin altaf gera það, án þess að lög segi svo fyrir um. En það er varhugavert að vera að setja þetta í lög, þar sem ár eftir ár er farið í kringum svona einfalt ákvæði. Þetta verður miklu sterkara móti því en nokkur fræðileg rök.

Um brtt. á þskj. 506 verð jeg að segja það frá sjálfum mjer, að jeg get að sumu leyti enn síður aðhylst þær nú en eins og þær voru við 2. umr. Það er satt, að það er dregið úr þeim á yfirborðinu. Nú er ekki farið fram á það, að verðbrjefaeignin verði hærri en í frv., en aftur á móti er tekið upp, að verðbrjefin skuli keypt með nafnverði. Till. hefir versnað við þetta, og er fjarstæða að taka þetta upp. Með þessu móti verða brjefin óseljanleg nema með tapi, en eftir fyrri till. var þó sú leið opin fyrir bankann, að kaupa þau með sömu afföllum og hann gat búist við að verða að selja þau. Eins og nú er, er því ákvæðið ómögulegt, nema ætlast sje til þess, að bankinn beinlínis leggi fje í þetta, og auk þess hlýtur það að lenda á innstæðueigendum, því að öll slík gjöld ganga út yfir varasjóðinn, en hann er ætlaður innstæðueigendum til tryggingar.

Seinni till. er ekki afleiðing af hinni fyrri, heldur alveg hliðstæð henni, og er því ekki hægt að samþ. nema aðra þeirra. Satt er það, að sú till. er miklu sveigjanlegri og ekki eins á yfirborðinu og hin fyrri. En það vantar að færa ástæður fyrir nauðsyn hennar. Því að jeg lít svo á, að ákvæðið um, að bankaráðið skuli hafa eftirlit með skifting starfsfjárins milli aðalatvinnuveganna, sje svo sterkt, að lengra sje ekki hægt að fara. Og þegar þingkjörið bankaráð hefir þetta eftirlit, er það alveg nóg; lengra verður ekki farið, nema með rangindum. Auðvitað viðurkenna allir, að landbúnaðurinn þurfi á fje að halda, en það gera aðrir atvinnuvegir líka. Það er rjett hjá háttv. fyrra flm. (HStef), að hlutfallslega meira fje hefir runnið til annara atvinnuvega, en ákvæði 44. gr. togar þar ærið á móti og hjálpar til að halda jafnvægi. En að ákveða vissan hluta fjárins til ákveðinnar notkunar er óheppilegt. Annars veit jeg ekki, hvernig þetta má verða með öðru móti en því, að bankinn kaupi brjef Ræktunarsjóðsins.

Það hefir ekki verið talað neitt fyrir brtt. II á þskj. 506, en jeg ætla þó að minnast lítillega á hana. Hún er um það, hvernig skipa eigi aðalbankastjóra. Eftir stjfrv. á að skipa hann þegar í stað. Það er gert ráð fyrir, að fyrsta verk bankaráðsins sje að velja bankastjórnina. Eftir frv. milliþinganefndar á að velja aðalbankastjórann, þegar eitt sæti losnar, og þá till. hefir meiri hl. fjárhagsnefndar tekið upp. En nú er farið fram á, að hann verði ekki skipaður fyr en allir núverandi bankastjórar eru farnir frá. Það hlýtur að vera ljóst, að ef á annað borð þetta fyrirkomulag, að hafa einn aðalbankastjóra, er heppilegt, þá á að skipa hann sem fyrst. En með þessari till. er augljóst, að því verður frestað um óákveðinn tíma, nema sjerstök ráðstöfun verði gerð til þess að losa bankastjórastöðurnar. En það er ósamræmi í þessu, að skipa annaðhvort aðalbankastjórann strax eða þá ekki fyr en öll bankastjóraembættin eru laus. — Þegar ráða skal aðalbankastjóra, þá á að taka þann manninn, sem að ölllu samantöldu er álitinn hæfastur. Og það er mikill möguleiki til þess að fá slíkan mann, þar sem ekkert er ákveðið um launin. Bankaráðið hefir því frjálsar hendur og getur tekið mann úr hvaða stöðu sem er, þar sem hún getur boðið svo há laun. Það eru því góð skilyrði fyrir því, að hægt sje að fá sem hæfastan mann, er á að bera aðalábyrgðina. En meðan bankastjórarnir sitja í stöðum sínum, þá er þó valið altaf bundið. En undir eins og sæti losnar, er svigrúmið frítt. Það, sem vakti fyrir milliþinganefndinni, var að vali aðalbankastjórans yrði ekki frestað lengur en nauðsynlegt væri til þess, að bankaráðið hefði óbundnar hendur.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 490 frá háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Þessi grein á sína einkennilegu sögu. Upphaflega var svo ætlast til í frv. því, er lagt var fyrir þingið 1924 og Landsbankastjórnin samdi, að seðlaútgáfurjetturinn gengi þegar yfir til Landsbankans og hann keypti allan gullforða Íslandsbanka. En þetta hefði orðið áfall mikið fyrir Íslandsbanka, að missa þannig seðlaútgáfurjettinn alt í einu, og varð að gera sjerstakar ráðstafanir til þess að afla honum starfsfjár, er samsvaraði seðlaútgáfunni. í frv. eins og það er nú er ekki ætlast til, að seðlaútgáfurjetturinn verði tekinn í einu lagi, en samt má búast við, að aðstaða Íslandsbanka verði erfið meðan á inndrætti seðlanna stendur. Þetta hafa menn altaf fundið, eins og sjá má af ummælum Íslandsbankastjórnar, þegar fjhn. Ed. spurði að því í fyrra. Svo segir í gerðabók nefndarinnar: „Loks voru bankastjórarnir spurðir um, með hvaða kjörum þeir hugsuðu sjer að „rediskontera“ víxla Íslandsbanka, eða annara banka, sem stofnast kynnu. Bæði M. S. og G. Ó. tóku það fram, að „rediskonteringar“ alment yrðu með raunverulegri „diskonto“ seðlabanka. Hvort hægt er að hafa hana t. d. ½% undir „diskonto“ almennra viðskifta, er undir ástandinu komið. Hitt tóku þeir líka fram, að öðru máli væri að gegna með „rediskonteringar“ fyrir Íslandsbanka á þeim seðlum, sem hann yrði að draga inn samkvæmt lögum frá 1921.“ — Þessu hefir nú fram að þessu verið hagað svo, að Íslandsbanki hefir haft fast lán í Landsbankanum, sem yfirdrátt, með sæmilegum kjörum. Í frv. milliþinganefndarinnar er svo leitast við að bæta úr þessum seðlainndráttar-örðugleikum Íslandsbanka með því að tryggja honum endursölu á víxlum með nokkurnveginn kjörum. En auðvitað kemur það lagaákvæði ekki í bága við það, að Íslandsbanki nái einhverjum enn betri samningum um endurgreiðslu á víxlum, ef hann getur náð þeim, en lagaákvæðið tryggir honum þetta sem lágmark. — Þetta hefir svo verið að smáaukast. Í stjfrv. er það komið upp í 3/5, svo að 1933 hefir Íslandsbanki rjett til að „rediskontera“ 5 milj. í stað 4 milj. eftir milliþinganefndarfrv. — En samkvæmt þessari till. á þskj. 490 á inndrátturinn ekki að þurfa að ljúkast fyrr en á 20 árum eða helmingi hægar. Þetta er auðvitað ekkert aðalatriði fyrir bankann og er kannske óþarft, þar sem hann gæti jafnvel komist að eins góðum kjörum án þessa ákvæðis. Jeg verð að halda því fram, að tillaga milliþinganefndarinnar hafi verið eðlilegust. Eftir lögunum frá 1921 á Íslandsbanki að draga inn 1 miljón kr. í seðlum á ári, þar til útgáfan er 2½ miljón, en úr því h. u. b. ½ miljón kr. á ári. Með tillögu nefndarinnar er þessu í raun rjettri frestað um helming og því haldið svo fram, þar til bæði seðlaútgáfa og víxlasala með sjerstökum kjörum er úr sögunni. En þó að þetta ruglist nokkuð eftir hinum tillögunum, má vel við þær una.