08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm minni hl. (Jakob Möller):

Það skal ekki verða langt mál, sem jeg tala að þessu sinni. Það er af því að jeg gerði ráð fyrir því við 2. umr., að jeg kæmi fram með brtt. En síðan hafa umr. staðið fram á kvöld á hverjum degi, og hefir mjer ekki unnist tími til að athuga frv. þannig í einstökum atriðum, að jeg sæi mjer fært að bera fram brtt. við það. Jeg skal því aðeins víkja að einstaka atriði, sem mjer virðist vert að athuga, og er þá fyrst fyrirkomulagið á gulltryggingunni. Jeg geri þó ekki ráð fyrir því, að breytingar á því fengi neinn byr hjer.

Jeg held, að núverandi gulltrygging sje gagnslítil, og ef til þarf að taka, er hún gagnslaus. Jeg held, að betra sje að hafa gulltryggingu aðeins á síðari hluta seðlanna, en hafa fyrri hluta þeirra tryggingarlausan. Það kemur aldrei til innlausnar á fyrsta hlutanum, því að það er ekki hægt að skila honum úr umferð. En ef á bjátar, þarf að skila andvirði þeirra seðla, sem eru umfram meðalumferð, en það er ekki hægt, því að gullforðinn verður undir eins of lítill, ef farið er að innleysa nokkuð að ráði, og verða þá ekki önnur úrræði en að leysa bankann frá innlausnarskyldunni, svo að þetta er aðeins trygging að nafninu til. Þá eru það tvö atriði, sem jeg kann illa við, og það er fyrirkomulagið á viðskiftum Landsbankans og Íslandsbanka, þar sem vaxtaívilnun er miðuð við Íslandsbankavexti. Þar með er slegið úr hendi seðlabankans valdið til þess að ráða vöxtum í landinu. Og þótt lítið hafi verið gert úr mætti hins sjerstaka seðlabanka til þess að ráða vöxtum, þá er hjer þó ólíku saman að jafna, hvað hann hefði meiri kraft en Landsbankinn með þessu fyrirkomulagi. En þetta hefir verið gert vegna þess, að mönnum hafa verið ljósir þeir örðugleikar, sem Íslandsbanki hefir átt við að stríða, þegar hann hefir þurft að skila seðlum sínum. En þá er líka sjálfsagt, að hann fái ívilnun, þegar hann „rediskonterar“ víxla sína. (ÁÁ: Þá þarf hann sömu kjör hjá sjerstökum seðlabanka). Já, hann þarf það. En það þarf ekki þess vegna að taka valdið af seðlabankanum til að ráða útlánsvöxtum í landinu. (MJ: Ekki ef Íslandsbanki er undir). Það er ekkert aðalatriði, og það skiftir miklu meira, að vextir Íslandsbanka sjeu ekki langt fyrir ofan það, sem þeir þurfa að vera. Hann getur þá einn ráðið vöxtunum. Og jeg hygg líka, að mönnum þyki meira um vert að fá vaxtahækkun en vaxtalækkun, enda má gera ráð fyrir því, að svo vilji frekar verða, að vextir Íslandsbanka verði hærri. Jeg vil í þessu sambandi minna á nýtt dæmi, að stjórnin fór þess á leit við bankann í fyrra haust, að þeir lækkuðu vextina. Og kringumstæðurnar voru hjer þá þannig, að þær heimiluðu lækkun þá, sem hjer kom til greina. Og það var vitanlega alveg rjett hjá stjórninni undir þeim kringumstæðum, sem voru í fyrra haust, að lækka vextina. En sú varð niðurstaðan, að Landsbankinn lækkaði um 1% en Íslandsbanki aðeins um ½%. Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir borið fram brtt. á þskj. 538. Virðist mjer hún tvímælalaust til mikilla bóta fyrir Íslandsbanka og til þess að gera viðskiftin milli bankanna greiðari og frjálslegri.

Um aðrar brtt., sem komið hafa fram, hefi jeg lítið að segja. Mjer skilst, að brtt hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) á þskj. 490 skifti ekki miklu máli. Hún er til þess að ljetta Íslandsbanka þá breytingu, sem á verður með samþ. þessa frv. En jeg hygg, að þetta gangi sinn gang samkvæmt frv.

Jeg greiddi atkv. við 2. umr. með brtt. á þskj. 469, við 51. gr., sem fór fram á að bæta við nýrri grein í frv., og taka upp það ákvæði, að allir opinberir sjóðir og opinberar stofnanir, er hafa handbært fje á sjóðvöxtum, skuli geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema sjerstakar ástæður banni, svo sem staðhættir. Sama sje um ríkisfje og embættisfje, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum. Jeg gat þess, að jeg ætlaði að geyma mjer til 3. umr. að gera grein fyrir því, hversvegna jeg greiddi atkv. með þessari brtt. Ástæðan til þess var sú, að þegar komin er upp ríkisstofnun sem þessi, sem hvort eð er á að starfa með innlánsfje, þá áleit jeg, að eðlilegt og sjálfsagt væri að leggja inn í hann opinbert fje til styrktar henni. Það hefir verið haft á móti þessari till., að ákvæði væri til um það, hve mikið fje ríkið geti fengið að láni hjá seðlabankanum. Og geti komið til þess, að ríkissjóður þyrfti að leita lána hjá öðrum bönkum, þá geti hann ekki vænst þeirra, hafi hann engin viðskifti haft þar. Mjer finst nú, að þetta ákvæði, sem hamlar ríkissjóði að fá lán hjá Landsbankanum, hafi verið sett inn af hræðslu við það, að þessi heimild ríkissjóðs til að fá lán, verði beinlínis misnotuð, ef stjórn og þing kemst í kröggur með ríkissjóðinn. En fari svo, getur þingið altaf breytt þessu ákvæði, svo að það er í sjálfu sjer þýðingarlaust.

En hinsvegar, úr því að bankinn á að vinna með innlánsfje, virðist opinbert fje vera það tryggasta, sem hægt er að fá. Enn er það, að ef ríkissjóður á í kröggum með að fá fje, þá geri jeg ráð fyrir því, að einkabankarnir yrðu eins tregir til þess að láta fje sitt og þótt þeir hefðu fengið á veltiárunum fje, sem ríkissjóður hefði lagt þar inn.

Um aðra brtt. hæstv. fjrh. (JÞ), sem dregur úr skyldu Landsbankans að koma sparisjóðsfje sínu í trygg og auðseld verðbrjef, verð jeg að segja það, að hún er tvíeggjuð. Annarsvegar hefir því verið haldið fram, og hæstv. fjrh. hjelt því fram við 2. umr. að þessi skylda bankans, að koma sparisjóðsfje sínu í verðbrjef, væri til þess að tryggja hann og gera hann aðgengilegri sem seðlabanka, en um leið dregur þetta skipulag úr lausu veltufje hans; en að draga úr ákvæðinu gerir hann ótryggari sem seðlabanka, en gerir hann hinsvegar frjálsari til umráða með fje sitt. En jeg held, að hjer verði fyrst og fremst að líta á það, með hverju móti bankinn verður tryggastur sem seðlabanki. En við, sem höfum haldið því fram, að seðlabankinn ætti að vera sjerstök stofnun, af því að afleiðingin af því, að Landsbankinn væri seðlabanki, yrði allmikil takmörkun á veltufje hans, höfum hinsvegar lagt aðaláhersluna á það, að seðlabankinn eigi ekki að reka þessa almennu viðskiftastarfsemi, af því að það gerði hann ótryggari sem seðlabanka. Við leggjum aðaláhersluna á trygginguna, svo að jeg greiði óhikað atkvæði á móti þessari brtt. hæstv. fjrh.

Þá ætla jeg lauslega að minnast á brtt. þeirra hv. 1. þm. N.-M. (HStef) og hv. þm. Str. (TrÞ). Mjer virðist að minsta kosti önnur þeirra vera ekki óaðgengileg, þar sem ekki er farið fram á annað en að Ræktunarsjóður Íslands eigi jafnan tilkall til hluta sparisjóðsfjárins. En það verður væntanlega altaf með samkomulagi milli stjórna Ræktunarsjóðsins og Landsbankans, hve mikið þetta fje verður notað. En talsverð vandkvæði eru á því að ákveða vextina eins og hv. flm. ætlast til. En það má væntanlega laga í hendi sjer.

Um aðrar brtt., sem eru fáar og sem jeg hefi ekki minst á, ætla jeg ekki að ræða nú. Alment um málið hefi jeg ekki mikið að segja, enda hafa litlar umr. orðið um málið frá almennu sjónarmiði, nema hvað samherjar mínir og flokksmenn hafa talað um málið frá því sjónarmiði, en andstæðingarnir lítið lagt til málanna af því tæi.

Hv. 3. þm. Reykv. (JBald) vjek að því, sem jeg sagði um þróun bankamálanna hjer, og hvað af henni mætti læra. Það, sem jeg hjelt fram, stafaði af því óheppilega fyrirkomulagi, að seðlabanki ræki almenn bankastörf, áleit hann, að stafaði af því, að bankinn hefði verið hlutabanki. Jeg held, að þetta sje mjög hæpið hjá hv. þm. og verði ekki staðfest með erlendri reynslu, þar sem seðlabankarnir eru einmitt tíðast hlutabankar. Það er nú vitanlegt um Íslandsbanka, að hann er kominn svo undir áhrif ríkisstjórnarinnar, að varla verður að því leyti gerður munur á honum og Landsbankanum. Jeg held, að því verði ekki mótmælt, sem jeg hefi haldið fram ásamt hv. þm. N.-Þ. (BSv), að þróun bankamálanna, sem vitanlega er bygð á reynslu, sýni ljóslega, að þessu tvennu, seðlaútgáfu og almennri bankastarfsemi á ekki að blanda saman. Í þessu efni hlýtur að gilda það sama fyrir okkur og aðrar þjóðir. Það er langt frá því, að jeg geti fallist á þá skoðun meiri hl. bankanefndarinnar, að af því að við sjeum svo skamt komnir í fjármálalífinu, þá henti okkur annað betur en það, sem reynsla annara sýni, að best sje. Jeg held algerlega fram því gagnstæða. Viðskiftalíf okkar er svo áhættusamt, eins og jeg hefi vikið að áður, að aðalviðskiftin hjer mundu varla teljast seðlabankahæf erlendis, að svo miklu leyti sem til mála kæmi, að seðlabanki hefði almenn viðskifti. Mjer er óhætt að fullyrða, að enginn seðlabanki á Norðurlöndum mundi taka að sjer viðskifti eins og þau, sem bankarnir hjer hafa við sjávarútveginn. Jeg held, að ef þessir sjerfræðingar, sem leitað hefir verið umsagnar hjá, hefðu þekt ástæðurnar hjer, þá hefðu ráðleggingar þeirra orðið aðrar, svo fyrirvaraðar sem þær þó eru.