08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla að segja fáein orð um þær brtt., sem nú liggja fyrir og jeg hefi ekki áður minst á. Fyrri brtt. á þskj. 506 er í raun og veru endurtekning á brtt., sem fjell við 2. umr., um það að blanda Ræktunarsjóðnum inn í þetta frv. Till. er í beinu ósamræmi við þau ákvæði, sem síðasta þing gerði um Ræktunarsjóðinn. Þar var ákveðið, að gerðir skyldu sjerstakir samningar við Landsbankann um ákveðna fúlgu til jarðræktar. Landbn. neðri deildar ákvað þá aðalskilmála, sem setja skyldi, og náðist samkomulag um þessa skilmála við stjórn Landsbankans. Höfuðatriðið var það, að þegar vextir þessara jarðræktarbrjefa voru 1% hærri en sparisjóðsvextir, skyldi bankinn kaupa þau nafnverði. Hjer er gert ráð fyrir og er það ósamrýmanlegt hinu. Þetta er að setja inn ákvæði, sem ekki geta staðist. Auk þess er till. svo orðuð, að hún er óframkvæmanleg og getur alls ekki átt heima í slíkum lögum sem þessum. Síðari liður till. er vægari, en þó er ekki viðeigandi að binda sparisjóðsfje á þann hátt, sem þar er gert ráð fyrir. Það er lýti og blettur á lögum, ef í þau eru sett ákvæði, sem ekki eiga þar heima. Það eina rjetta í þessu efni er það, sem samþykt var hjer í fyrra, að það, sem fram á að ganga um viðskifti Ræktunarsjóðsins, á að gerast með samningi milli þessara stofnana. Það á ekki að setja ákvæði inn í lög annarar stofnunarinnar, sem geta orðið hinni til þvingunar.

Um síðari brtt. á sama þskj. hefir lítið verið rætt. Hvorki í þessari till. nje 63. gr. frv. eins og það er nú, eru nein ákvæði um, hvernig fara skuli um stjórn innan bankans, þar til þetta ákvæði kemst til framkvæmda. En þessi brtt. hefir það í för með sjer, að endanleg skipun á stjórn bankans kemur ekki til framkvæmda fyr en eftir mannsaldur. eða þegar allir núverandi bankastjórar eru farnir frá.

Um brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) skal jeg ekki orðlengja. Mjer stendur á sama, hvort þær eru samþyktar eða ekki. Jeg held, að hvorug þeirra verði frv. til spillis.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) mælti á móti 2. brtt. minni. Mjer er sagt, að það ákvæði, sem till. vill breyta, sje hans barn. Hann hafi átt þátt í að koma því inn í Landsbankalögin á sínum tíma, þau, sem nú eru í gildi. Trygð hans við þetta ákvæði er því skiljanleg, ef það er svo undir komið. Hv. þm. talaði um till. mína eins og hún færi í þá átt að skerða hag Landsbankans. Þetta er að hafa hausavíxl á hlutunum. Jeg orða þetta svo, að unt sje að rækja hagsmuni ríkissjóðsins og opinberra sjóða. Jeg vil benda hv. þm. á, að þegar hann er kosinn á þing, er það helgasta skylda hans að koma fram sem góður gætir ríkissjóðsins, en þá skyldu rækir hann ekki með því að vera móti þessari till. minni. Það getur oft staðið svo á, að Landsbankinn kæri sig ekkert um innlánsfje, og því er meiningarlaust að meina ríkisstjórninni að koma fjenu fyrir þar, sem af því fást vextir. Landsbankinn greiðir enga vexti, ef hann þarf ekki fjeð. Till. fer fram á, að ríkið geti fengið vexti af fjenu með því að setja það á tryggan stað. Þegar ríkissjóði er meinað að hafa hlaupareikningsviðskifti nema innan þröngra takmarka, verður hann að geta haft hlaupareikning við aðrar peningastofnanir. — Jeg vil minna háttv. þm. (JörB) á það, að hann hefir skyldum að gegna að því er snertir hagsmuni ríkissjóðs. Hann gerir miklar kröfur til hans til handa kjördæmi sínu. Hann vill fá handa því stórar fjárhæðir, sem greiða verður vexti af. En það fer ekki vel á því, að hann sje samtímis að pota inn í löggjöfina ákvæðum, sem gera ríkissjóði ekki mögulegt að njóta vaxta af handbæru fje sínu og innstæðum.

Þá skal jeg víkja að aðfinslum hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann fann að því, að bönnuð væri laus lán til ríkissjóðs. En það er ekki rjett hjá hv. þm., að slíkt bann sje þýðingarlaust, af því hægt sje að breyta þeim ákvæðum. Þetta er sett til þess, að stjórnin geti ekki án heimildar þingsins notað vald sitt til þess að heimta bráðabirgðalán handa ríkissjóði. Það má auðvitað deila um, hvort rjett sje að setja svona ákvæði í lög. Það er ekki rjett hjá háttv. þm. (JakM), að brtt. mín geri bankann ótryggari sem seðlabanka.

Háttv. þm. (JakM) gat ekki um það, að þarna liggur nokkuð mikið á milli, sem sje, að sparisjóðsdeildin er algerlega aðskilin frá seðlabankanum. Eins og jeg tók fram við 1. umr. er ekki hægt að leita þar að þörfinni fyrir sjerstakan seðlabanka.