08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

81. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætlaði ekki að tala oftar í þessu máli. En þar sem hv. frsm. minni hl. (JakM) bar sakir á milliþinganefndina, þá vil jeg vekja athygli á því, að sakargiftir hans hitta jafnt meiri og minni hl. bankanefndarinnar. Hann segir, að málið hafi verið lagt vilhalt fyrir hina erlendu bankafræðinga. En hafi svo verið gert, þá er það með ráði beggja nefndarhlutanna. Ef þetta er rangt, bið jeg minni hl. (BSv) að leiðrjetta það. Jeg veit ekki til þess, að hann hafi fundið að því, hvernig málið var lagt fyrir hina erlendu bankastjóra. En ef það á að byggja á orðum hv. frsm. minnihl. (JakM), að minni hl. bankanefndarinnar hafi ætlast til þess, að málið væri lagt þannig fyrir hina erlendu menn, að ekki skyldi vera hægt að byggja á svörum þeirra, þá eru það svæsnari getsakir en skoðanabróðir á skilið. Sannleikurinn er sá, að báðir nefndarhlutar bjuggu málið undirhyggjulaust í hendur hinna erlendu bankastjóra, og voru um alt á eitt sáttir. En þá er hitt, hvort við, sem við bankastjórana töluðum, höfum sýnt hlutdrægni. Hv. frsm. (JakM) fullyrðir það. Þetta er þung ásökun, eins og hann kemst að orði. En hún er meira. Hún er líka ósvífni. Hin eina átylla, sem hv. þm. nefndi, var, að við hefðum sagt, að íslenska þjóðin væri of fátæk og fámenn til þess að hafa sjerstakan seðlabanka. Hvaðan hann hefir það, veit jeg ekki; en ef við hefðum skýrt rangt frá ástæðum hjer heima, hefðu bankastjórarnir átt að geta sjeð rangfærslurnar og hlutdrægnina af skjölum þeim, sem við lögðum fyrir þá. Þeir fengu ýmsar skýrslur um banka og landshagi, sem telja verður fullnægjandi, svo að við hefðum ekkert getað sagt þeim um fátækt eða fámenni umfram það, sem tölurnar segja, þótt við hefðum viljað. Það má geta þess í þessu sambandi, að einn af bankastjórum þeim, sem við áttum tal við, undraðist, hve stjórnir okkar litlu banka væru dýrar. Við sögðum sem var, að bankastjórn verður hjer í fámenninu tiltölulega dýrari en annarsstaðar af ýmsum ástæðum. Ekki hefir sá bankastjóri haft hærri hugmyndir en við um fjölmenni vort og ríkidæmi, og aldrei hefði hann lagt til að hafa 6 bankastjóra yfir hinni tiltölulega smávöxnu bankastarfsemi ríkisins, eins og minni hl. vílar ekki fyrir sjer. Það hefði gjarnan mátt tala meira um þetta atriði en raun hefir verið á, því það er eitt af þeim atriðum, sem líta ber á í sambandi við fyrirkomulag seðlaútgáfunnar, að stjórnarkostnaðurinn verði ekki óhæfilega mikill, þótt sumum þyki aldrei of miklu til kostað, þegar um það er að ræða að stýra peningastofnunum. Er þetta enn eitt, sem gerir frv. minni hl. óaðgengilegt.

Að lokum skal jeg bæta því við, að minni hl. hefir síst ástæðu til, þess að vera óánægður yfir meðferð þessa máls, því að eitt af því, sem lagt var fyrir hina erlendu bankafræðinga, var ritgerð um bankamálið eftir hv. 1. þm. G.-K. (BK), sem fylgdi áliti fjhn. Ed. í fyrra. Hafi því verið beitt hlutdrægni af nefndinni, þá er það minni hl. sem hefir beitt henni. Hinsvegar skal jeg ekki tala um það, hvaða augum á þessa ritgerð hv. 1. þm. G.-K. (BK) var litið erlendis. Það er augljóst, að í þessum efnum hefir engri hlutdrægni verið beitt, því að báðir nefndarhlutarnir bera fullkomna ábyrgð á því, hvernig mál þetta var lagt fyrir hina erlendu bankastjóra.