27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, og mest fyrir þá sök, að mjer finst, að ekki megi vera ómótmælt þeirri skoðun, sem bólaði á í ræðum hv. frsm. (ÞórJ) og hæstv. fjrh. (JÞ) um áætlun tekjubálksins. Þeir virtust koma sjer saman um það, að afaráríðandi væri að áætla tekjuhlið fjárlaganna sem allra lægst

Hv. frsm. fór í því efni hóti styttra en hæstv. fjrh., en kvað þó samnefndarmenn sína fylgja sjer í því að verða á móti öllum frekari hækkunum tekjubálksins, á hvað gildum rökum sem bygðar væru.

Nú hefir formaður fjhn., háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), skýrt frá því, að nefndin hafi athugað tekjuhlið fjárlaganna, og eftir því sem honum sagðist frá, munar það 150 þús. kr., sem fjhn. telur, að tekjubálkurinn megi hækka fram yfir áætlun fjvn. Hjer er því ekki alllítið sem munar á áætlun nefndanna, en það er ekki fyrir mjer aðalatriðið, heldur hitt, að það er röng kenning og skaðleg að halda því fram, að rjett sje að áætla tekjurnar lágt, en gjöldin aftur á móti hátt. Það á að áætla tekjur og gjöld eins rjett og nákvæmlega og nokkur kostur er á.

Það er auðvitað líka hættulegt að áætla tekjurnar of hátt, því að af því leiðir, að þjóðarbúskapurinn verður þá rekinn með tapi.

En hvað leiðir nú af því, ef tekjuhlið fjárlaganna er að jafnaði áætluð of lágt? Það leiðir af því, að skattar aukast, eða standa að minsta kosti lengur en þörf er á, og dýrtíðin, sem allir vænta að fari minkandi, hún helst áfram.

Nei, það á ekki að sverta fjárhaginn meira fyrir sjer en þörf er á. Þess vegna vil jeg leyfa mjer að skora alvarlega á hv. fjvn. að taka tekjubálkinn til rækilegrar athugunar á ný, því jeg býst ekki við, að fjhn. fari í kapphlaup um að endurskoða frekar en orðið er þessa hlið fjárlaganna. Enda fæ jeg ekki betur sjeð en að það sje hrein og bein skylda þings og stjórnar að taka til alvarlegrar athugunar, hvort ekki muni fært að ljetta sköttunum meira af en orðið hefir.

Og síðan síðasta þingi lauk, hefi jeg ekki annað frekara að athuga við gerðir hæstv. stjórnar en það, að hún skuli ekki hafa tekið upp hjá sjálfri sjer að ljetta af þjóðinni einhverju af þeim sköttum, sem lagðir hafa verið henni á herðar út úr neyð, eins og t. d. gengisviðaukinn. Þeirri byrði hefði þó stjórnin getað ljett af, þegar í ljós kom, að fjárhagur ríkisins mundi verða sá, er nú er komið á daginn.

Nú er komið fram frv. frá fjhn. um að ljetta gengisviðauka af vörutolli, en það er hvergi nærri nóg. Það verður að ljetta betur af framleiðslunni, eins og horfurnar eru nú framundan um afkomu atvinnuveganna, enda vænti jeg, að fram komi fleiri frv. í þá átt áður en þinglausnir verða.

Jeg skal að vísu játa, að með því að ljetta af sköttunum til muna er vitanlegur hlutur, að tekjuhalli muni verða á fjárlögunum. En það vex mjer ekki svo mjög í augum. Hitt er þó ennþá hættulegri braut að ganga, að halda áfram háum sköttum á framleiðslunni, þegar atvinnuvegirnir eiga eins í vök að verjast og nú. Jeg held, að það væri ekki svo óskynsamleg fjármálapólitík að þessu sinni að hugsa minna um hallalaus fjárlög, en ljetta heldur sköttum af framleiðslunni. Síðasta reikningsár ríkisins skilaði digrum sjóði, sem er hreinn tekjuafgangur, en jafnhliða eru horfur um afkomu atvinnuveganna alt annað en glæsilegar.

Reynslan hefir líka að jafnaði sýnt, að tekjurnar hafa farið fram úr áætlun þingsins, og stundum svo miljónum skiftir. (Atvrh. MG: En gjöldin?). Jú, mikið rjett, gjöldin fara líka oft og tíðum fram úr áætlun, og það gildir vitanlega ekkert síður um gjaldahliðina, að skylt er að áætla hana sem nákvæmast.

Jeg átti í deilum um það á síðasta þingi og bar þá fram hjer í þessari hv. deild brtt. um að hækka tekjubálkinn til muna frá því, sem hv. fjvn. hafði þá gengið frá honum. Jeg hjelt því þá fram og færði rök fyrir, að tekjurnar 1925 mundu fara um 3 milj. kr. fram úr áætlun. Mjer var þá núið því um nasir, að jeg væri þektur að óframsýni í fjármálum og þess vegna að engu hafandi mínar till.

En hvað skeður?

Þegar öll kurl komu til grafar og reikningarnir gerðir upp, voru það ekki 3 heldur 8 miljónir króna, sem tekjurnar fóru fram úr áætlun þingsins, og hreinn tekjuafgangur 5 milj. kr.

Till. mín um hækkun á tekjubálki fjárlaganna fyrir árið 1926 var gerð með hliðsjón af auknum gjöldum, sem jeg flutti brtt. um, m. a. 100 þús. kr. til landsspítala, og jeg er óhræddur um, að þær standist og vel það. Það verður athugað á næsta þingi.

Jeg verð að halda því fram, að ef hægt er að gera tekjuáætlunina hærri, þá sje óforsvaranlegt að ganga frá henni eins og gert hefir verið á undanfarandi þingum, því að það hlítur að leiða til þyngri skattaálaga.

En hitt skal jeg fúslega játa, að erfitt muni vera, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, að gera nokkurn veginn rjetta og ábyggilega tekjuáætlun í október, eða rúmu ári áður en hún á að koma fram. Þess vegna er ekki rjett af honum að standa á móti þeim leiðrjettingum, sem þingið gerir hálfu ári síðar, eftir þeim upplýsingum, sem þá berast svo að segja daglega. Því lengra sem líður á þingtímann, því auðveldara er að gera áætlanir þessar, og ekki aðeins skylda stjórnarinnar að hjálpa til við slíkar leiðrjettingar, heldur og líka að fallast á þær áætlanir, sem nýjar rannsóknir leiða í ljós, að eru á rökum bygðar. Það er heldur engin minkun fyrir stjórnina, þó að gerð sje leiðrjetting við þessa áætlun, sem hún hafði ekki tök á að gera nákvæmari, af þeirri einföldu ástæðu, að hana brast þau gögn, sem síðar drifu til þingsins úr öllum áttum.

Jeg á enga brtt. við þennan kafla fjárlaganna, svo jeg hefi bráðum lokið máli mínu. En það eru margar brtt. frá öðrum hv. þdm., sem mjer skilst, að nemi um 280 þús. kr. með eftirgjöfum á lánum. Fyrir mitt leyti tel jeg enga hættu á því, að tekjuhalli yrði til stórra muna á fjárlögunum, þó að þær yrðu allar samþyktar. Þar með er jeg þó ekki að segja, að rjett sje að samþykkja þær allar. En eins og horfurnar eru framundan um afkomu atvinnuveganna, tel jeg forsvaranlegra að fresta einhverju þessara fyrirtækja, sem brtt. fara fram á að veitt sje fje til, heldur en að framleiðslan sje sköttuð á sama hátt og verið hefir.

Hvað sem öðru líður, má gera ráð fyrir allmiklum tekjuafgangi á þessu ári. Jeg sagði í fyrra, að gera mætti ráð fyrir, að tekjuafgangur mundi verða um 1½ miljón króna. Það er nú sannfæring mín, að um svipuð hlutföll verði að ræða eins og síðastl. ár. Að minsta kosti er jeg óhræddur um, að þessi áætlun mín standist ekki.

Það er engin sjerstök brtt. í þessum kafla fjárlaganna, sem jeg finn ástæðu til þess að tala um, nema ef vera skyldi sú till. hv. fjvn., að fella niður fjárveitingu til sendiherrahalds í Kaupm.höfn. Kann jeg nefndinni mikla óþökk fyrir að leggja til, að utanríkismálum okkar skuli haldið í sama öngþveiti og verið hefir nú um stund. En út í það ætla jeg þó ekki að fara frekar, enda hefir hæstv. forsrh. (JM) talað svo vel fyrir þessu máli, að það verður ekki betur gert. Aðeins vil jeg þakka hæstv. stjórn, hve fast og röggsamlega hún heldur á þessu metnaðarmáli þjóðarinnar og vænti fastlega, að það margir hv. þdm. veiti henni brautargengi í þessu máli, að brtt. fjvn. verði kveðin svo rækilega niður, að henni skjóti aldrei framar upp.