10.02.1926
Efri deild: 3. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Forsætisráðherra (JM):

Það er svo nú, eins og tekið er fram í aths. við frv., að leyfi til þess að hafa happdrætti (lotterí) er veitt af dómsmálaráðuneytinu, en leyfi til að halda hlutaveltur (tombólur) veita lögreglustjórar. Þessu er heldur ekki breytt með frv., en til þessa hafa menn verið í vafa um, hvaða viðurlög lægju við því, ef happdrætti eða tombólur væru haldnar í óleyfi. Þá hafa menn og verið í vafa um, hvort rjett væri eða lögum samkvæmt, að menn hefðu hjer á boðstólum happdrættisseðla, skuldabrjef o. fl. þessu líkt fyrir erlenda menn eða fyrirtæki. Frv. girðir fyrir það, að þetta verði hjer eftir gert í óleyfi.

Jeg hefi sjálfur jafnan neitað um leyfi til happdrátta, nema happdrættis landsspítalasjóðsins. Það hefir komist einskonar hefð á, að þetta happdrætti skyldi leyft í hvert sinn, en annars hefir öllum öðrum leyfisbeiðnum verið neitað, og þegar jeg var bæjarfógeti hjer í Reykjavík, var jeg ætíð tregur til að veita hlutaveltuleyfin. Frv. bannar eigi neitt af þessu, en setur aðeins beint lög um það, að happdrætti megi ekki halda án leyfis, og það girðir og fyrir það, sem stundum hefir átt sjer stað hjer, að einstök fjelög geti haldið happdrætti, enda þótt svo hafi átt að heita, að væri aðeins fyrir innanfjelagsmenn, en selt þó eða látið selja happdrættisseðlana hjer á götum bæjarins og annarsstaðar hverjum sem kaupa vildi. Frv. kemur í veg fyrir, að þetta verði gert, nema með leyfi viðkomandi yfirvalda; en jeg vil bæta því við frá sjálfum mjer, að jeg álít, að það ætti helst ekki að veita leyfi til að halda slík happdrætti, sem hjer er um að ræða, enda hætt við, að beiðnir um happdrætti yrðu býsna margar, ef dæma á eftir reynslunni um tombólur.