24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt því fram, að frv. mitt væri ekki fullnægjandi lagasetning, og færði þar sínu máli til sönnunar, að í frv. væri ekki gert ráð fyrir því, að ríkisbankinn hefði gjaldeyrisverslun með höndum.

Þetta kom mjer mjög á óvart, þar sem skýrt stendur í 1. gr. frv., að bankinn eigi:

„að stuðla að tryggri skipun á peningamálum landsins, með það fyrir augum, að gull og gullgildir seðlar geti sem fyrst orðið og haldi síðan áfram að vera almennur gjaldeyrir í landinu. Í því skyni ber stjórn bankans að afstýra, eftir því, sem unt er, með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri og viðskiftum við aðrar peningastofnanir í landinu, truflun þeirri á peningamálum og atvinnulífi, sem annars má vænta, að almennar hagsveiflur hafi í för með sjer.“

Það er þannig tekið glögglega fram í 2. lið 1. gr. frv. Þetta, sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að vanti í frv.

Ríkisbankinn á svo mikil ítök í öflugustu peningastofnun landsins, sem hæstv. fjrh. (JÞ) kallar svo, að hann getur krafist þess, að sjer sje rjett hjálparhönd til þessa. En jeg fæ ekki betur sjeð en að örðugleikar geti orðið á því að afstýra gengissveiflum, enda þótt seðlaútgáfan sje trygð með sparisjóðsfje og jafnvel þótt seðlabankinn sje í tengslum við aðra banka. Mundi eigi jafnt eftir sem áður þurfa ábyrgð ríkissjóðs, ef tekið væri gengislán erlendis?

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að seðlabankanum væri sniðinn of þröngur stakkur með frv. mínu. Sje svo, þá er hægurinn hjá að breyta síðar, er svo reynist.

Þá kom og hæstv. ráðh. (JÞ) enn að því sama og í gær, að svo framarlega sem ríkið ætti og starfrækti báða bankana, seðlabankann og Landsbankann, þá væri með því stofnað þetta drepandi vald, er kúga mundi alla aðra bankastarfsemi og sparisjóðsstarfsemi í landinu. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta sje rökrjett, þar sem Landsbankinn er nú þegar aðalkeppinautur annars elsta bankans í landinu. Það nær ekki neinni átt, að hann hætti að verða samkepnisbanki fyrir það eitt, að honum yrði skift í deildir og höfð sjerstök seðladeild með sjerstöku bókhaldi. Mjer er sama, hvort hann heitir Ríkisbanki eða Landsbanki, en ef hann fær seðlaútgáfurjettinn í ofanálag á aðra almenna bankastarfsemi, þá fær hann aukið vald um leið til þess að kúga aðra, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) sagði áðan.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að kæmi nýr seðlabanki, þá mundi sparisjóðsfje streyma til Landsbankans, vegna þess, að honum væri treyst betur en öðrum, eða þá vegna þess, að menn hjeldu, að ríkið bæri ábyrgð á sparisjóðsfjenu. En verður eigi alveg hið sama uppi á teningnum, þótt hann hafi seðlaútgáfuna? Það má gera almenningi ljóst, og það er skylda stjórnarinnar að gera það, hvort landssjóður á að bera ábyrgð á 25 miljónum króna í Landsbankanum, eða eigendur sjálfir, ef illa færi. Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi ráða bót á þessu með því móti, að afhenda Landsbankann úr ríkis hendi. Það er að vísu ekki loku fyrir skotið, að það verði gert, ef það sýnist ráðlegt.

Þá var hin þriðja ástæða hæstv. fjrh. (JÞ), að það væru miklu meiri örðugleikar á því, að leggja nýjum banka stofnfje heldur en þeim, sem fyrir eru. Í sambandi við það gat hann þess, að ríkissjóður ætti 6 milj. kr. hjá Íslandsbanka og 2 milj. kr. hjá Landsbankanum, auk 2 milj. kr., sem greiddar hafa verið að 2/3 hlutum. Hjelt hann því fram, að það væri hægurinn hjá fyrir landið að styðja Landsbankann með þessu fje til þess að verða seðlabanki. En er þá fje þetta á lausum kili, eða þessar 2–4 milj. í Landsbankanum? Jeg hefi ekki um það talað, að seðlabankinn ætti þegar í stað að taka alla seðlaútgáfuna í sínar hendur, en jafnframt því, sem Íslandsbanki dregur inn seðla sína og þarf eigi á gulli að halda til þess að tryggja þá, má láta hann greiða ríkisbankanum í gulli þá inneign, sem ríkissjóður á þar.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að það mundi vekja óhug erlendis, ef ríkið yrði að styðja með fje alla banka landsins, og mundi verða spurt að því, hvernig hag þessa lands væri farið. En jeg hefi nú ekki sjeð, að menn sjeu yfirleitt deigir við það að taka lán til framkvæmda. T. d. liggur nú hjer fyrir þinginu frv. um miljónaframlag í nýtt fyrirtæki, og á að taka til þess lán erlendis. Og hefi jeg ekki heyrt, að hæstv. fjrh. (JÞ) væri neitt ákaflega deigur við það.

Enn sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að hann væri ekki á móti því, að ríkisveðbankinn tæki sem fyrst til starfa, en seðlabankinn mætti ekki bíða eftir þeirri stofnun. Þetta er hið sama og jeg hefi haldið fram. Og menn hljóta að sjá það, að það, sem jeg legg mesta áherslu á, er að koma sem fullkomnustu skipulagi á peningamálin.

Jeg fæ nú ekki sjeð, að málið upplýsist meira í dag en orðið er og eigi fyr en það hefir farið til nefndar.