24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Jakob Möller:

Þetta mál fer nú til þeirrar nefndar, er jeg á sæti í, og ætla jeg því ekki að segja mikið að þessu sinni.

Jeg tók eftir því, að hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að ef Landsbankinn færi með seðlaútgáfuna, ætti hann ekki að vera samkepnisbanki með tilliti til sparisjóðsfjár. En hvar eru ákvæði í frv., sem fyrirbyggja þetta. Jeg fyrir mitt leyti sje engin ákvæði um þetta í frv. En ef þetta er tilgangur þings og stjórnar, þá má auðvitað setja ákvæði inn í Landsbankalögin, er fái trygt þetta, ef það þykir óheppilegt, að hann reki slíka starfsemi sem seðlabanki. Það er auðsætt, að seðlabanki, sem jafnframt er þá líka ríkisbanki, muni draga mjög til sín sparisjóðsfje, ef honum er heimilt að taka við því. Og það verður ekki hindrað með öðru móti en því, að láta hann greiða lægri vexti af innlánsfje en aðrir bankar gera.

Hitt, sem kom mjer til þess að standa upp, var sú staðhæfing hæstv. fjrh., að meiri hætta væri á einokun, þar sem sjerstakur banki færi með seðlaútgáfuna. En þetta er einmitt þveröfugt. Það er auðvitað, að því fleiri verksvið, sem stjórnað er af sömu mönnum, því meiri völd safnast á eina hönd. En eftir stjfrv. á bankinn að vera bæði sparifjár-, fasteigna- og viðskiftabanki, og jafnframt fara með seðlaútgáfu. Jeg lít svo á, að hjer sje miklu meiri hætta á einokun heldur en að veðlána- og seðlaútgáfubankinn væri alveg sjerstakur. Er langt frá því, að jeg vilji með þessu sýna núverandi bankastjórum Landsbankans nokkurt vantraust, heldur met jeg þá alla mikils og ber hið fyllsta traust til þeirra í þessum efnum. En jeg álít hættulegt fyrir seðlabanka, að vera beint viðriðinn atvinnureksturinn, þar sem um svo litlar tryggingar er að ræða, og þessvegna getur hann hæglega komist í kreppu. Og einu gildir, hvort hann heitir heldur Landsbanki eða Íslandsbanki; hið sama, sem hefir komið fyrir áður, getur enn komið fyrir aftur. Og þó að núverandi stjórn bankans sje varkár, þá getur orðið breyting á því og ekki að vita, nema hann geti lent í sömu ógöngum og Íslandsbanki hjer á árunum.

Hæstv. fjrh. segir, að ekki sje gengið svo frá frv. hv. þm. N.-Þ. (BSv), að með því fáist nothæfur seðlabanki. Skal jeg ekki um það segja. Hann reyndi að fara svo nálægt frv. stjórnarinnar frá því í fyrra, sem hægt var, með þeirri breytingu, að bankinn yrði sjerstök stofnun. En það stendur til bóta í nefndinni og munu athugasemdir hæstv. ráðh. teknar þar til athugunar. Samkvæmt 1. gr. frv. er bankanum skylt að kaupa og selja erlendan gjaldeyri. En að hve miklu leyti hann geti náð gjaldeyrisversluninni í sínar hendur, fer auðvitað eftir fjármagni hans. Það er vitanlegt, að erlendir þjóðbankar hafa aðalgjaldeyrisverslunina í sínum höndum, en aðrir bankar annast viðskiftastarfsemina. Það er viðurkend meginregla, að seðlabankinn megi ekki hafa mikið fje útistandandi með litlum tryggingum og verði þannig þrælbundinn atvinnuvegunum og áhættum þeirra. Jeg efast um, að seðlabanki nokkurs annars lands ljeti bein lán til slíkra fyrirtækja, sem hjer eru rekin, þar sem þau eru meira og minna áhættusöm. Og þar sem svo er ástatt hjá okkur, að atvinnuvegir okkar eru miklu áhættumeiri en annara landa, þá er auðsætt, að okkur er því nauðsynlegra að hafa tryggan og óháðan seðlabanka.