24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í C-deild Alþingistíðinda. (2733)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Okkur háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) skilur á um merkingu þessa gamla orðs, einokun. Getur vel verið, að jeg noti ekki hið rjetta orð, en skal þó skýra þetta nánar. Ef þetta frv. yrði að lögum, þá væri hjer um víðtækari ríkisrekstur að ræða heldur en í nokkru öðru landi vestan Rússlands.

Til þess að lifa, þarf bankinn að keppa við aðra banka um innstæðufje landsmanna. Hann verður því einskonar landsverslun í frjálsri samkepni, en eins og aðrar landsverslanir nýtur hann skattfrelsis, sem hinir gera ekki, og hefir því miklu betri aðstöðu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) telur, að engin hætta sje á víðtækum ríkisrekstri, ef starfssviðunum sje skift á milli nógu margra. En þetta er aðeins aukaatriði í mínum augum.

Rjett er að geta þess, með hvað bankinn byrjaði, ef hann tæki til starfa strax nú í dag. Hann hefði 1½ milj. í seðlum og víxla og verðbrjef í öðrum bönkum um 2 milj. kr. (JakM: Hvað hefir Landsbankinn?). En hvaðan á hann svo að fá peninga til gjaldeyriskaupa? Þannig er nú byrjunin, og hræddur er jeg um, að áframhaldið yrði svipað.