24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Málið fer nú að verða útrætt á þessu stigi þess, og skal jeg því ekki lengja umr., enda hefir hv. 3. þm. Reykv. (JakM) svarað fjrh. (JÞ) að mestu. Það kom fram hjá hæstv. fjrh., bæði í byrjun og lok ræðu hans, að bankinn gæti með engu móti int af hendi skyldur sínar, þar sem hann væri fjelaus og tæki ekki við innlánsfje. Það er þó upplýst, að þjóðbankarnir ytra gera það ekki heldur og hafa samt fje. (Fjrh. JÞ: En það kemur bara ekki hingað). Hæstv. fjrh. sagði, að þeir hefðu ekkert innlánsfje, og það kemur auðvitað ekki hingað, af því að það er ekki til.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, eins og raunar er rjett, að í öðrum löndum væri arði af seðlaútgáfu varið til þess að afstýra gengissveiflum. Ríkin hafa þó stundum orðið að hlaupa undir bagga. Danir a. m. k. urðu að leggja fram stórfje til þess að halda genginu uppi. Mjer þykir hæstv. fjrh. nokkuð kröfuharður til þessa banka, sem enn er ekki stofnaður, að ætlast til þess, að hann verði fær um að standast gengissveiflur strax eftir fæðinguna. Varla má þó búast við honum jafnbráðþroska og Magna, syni Þórs, sem kastaði fæti Hrungnis af föður sínum á Grjótúnagörðum og var þá þrínættur. Hæstv. fjrh. krefst þess víst ekki, að bankinn vaxi með slíkum ósköpum.

Um samkepnina er margrætt og ekki ástæða til að bæta þar miklu við.

Jeg skýt því til þeirrar hv. nefndar, sem um þetta mál fjallar, að hún láti ekki neina „autoritetstrú“ blinda sig í þessu máli, heldur neyti hún vitsmuna sinna og lesi vel niður í kjölinn gögn öll, sem málið snerta, einkum brjef hinna erlendu bankastjóra. Að öllu athuguðu mun mitt skipulag reynast best.