10.02.1926
Efri deild: 3. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Björn Kristjánsson:

Jeg vil hjer með beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM), hvort í þessu frv. felist nokkurt bann gegn einskonar happdrætti, sem ýmsar verslanir hjer í bæ hafa haldið uppi undanfarin nokkur ár. Þær slá sjer saman og mynda fjelagsskap um þessi happdrætti, sem eru í því fólgin, að verslanir þessar auglýsa, að hver, sem versli við þær fyrir einhverja nánar ákveðna upphæð, fái í kaupbæti happdrættisseðil, sem getur gefið alt að 100–300 kr. vinninga. Jeg álít, að þetta sje ein tegund óheiðarlegrar samkepni, sem alls ekki ætti að þolast.