04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Klemens Jónsson:

Jeg get nú upplýst, að þetta mál lá fyrir fjhn. á þingi 1922, og við umræður þær um málið, sem þar urðu, voru þeir báðir viðstaddir, fyrv. fjrh. Magnús Jónsson og núv. hæstvirtur atvrh. (MG). Ennfremur var þar staddur umboðsmaður þess banka, Íslandsbanka, þar sem skuld fjelagsins stóð. Málið var rætt á tveim eða þrem fundum, og var þar loks tekin svohljóðandi ákvörðun, sem jeg skal lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að nefndin hefir ítarlega kynt sjer alla málavexti, leggur hún til, að ríkisstjórnin, f. h. ríkissjóðs, takist á hendur ábyrgð fyrir ofangreind skip, að svo miklu leyti sem þurfa þykir, þó að því tilskildu, að viðkomandi fjelög eða eigendur skipanna setji ríkissjóði þá gagnábygð, sem ríkisstjórnin álítur fullnægjandi í hverju einstöku tilfelli“.

Ennfremur segir svo:

„Þetta álit nefndarinnar, ásamt öllum málsskjölum, var samþykt að senda ríkisstjórninni brjeflega“.

Jeg get ekki skilið síðasta ákvæðið öðruvísi en svo, að þar með sje stjórninni heimilað að ábyrgjast þetta lán á eftir hinum öðrum lánum, sem á fyrirtækinu hvíldu, og meira að segja ýtt undir hana að gera það. Verður því að slá því föstu, að stjórnin hafi alls ekki farið út fyrir þessa heimild.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefir endurtekið það, að stjórnin hafi farið út fyrir heimildina, af því að hún hafi eingöngu gilt fyrir árið 1922, en fallið úr gildi 1923. En því hefir verið lýst yfir, að fyrir lá sannanlegt loforð ráðherra í tæka tíð, og það er líka ætíð álitin skylda að uppfylla slík loforð. Ennfremur gilda fjárlög jafnan nokkuð fram yfir áramót, þannig, að þeim er ekki lokað að jafnaði fyr er í apríl eða maí árið eftir. En það getur auðvitað ekki verið álitamál, að það sama gildir um heimild eins og þessa og beinar fjárveitingar.

Hvað snertir hitt atriðið, sem hv. þm. Borgf. (PO) talaði um, sem sje trygginguna, þá er það vitanlega altaf álitamál, hvort trygging sje gild eða ekki, þegar um lán er að ræða. Það er alkunna, að bankamir hafa þessi ár tapað stórfje á lánum, sem upphaflega hafa vafalaust verið talin allvel trygð. En svo hafa þær tryggingar reynst ónógar, eða þær hafa rýmað að verði. Og jeg held, að bönkunum verði ekki ámælt fyrir það, þó ábyrgðir hafi ekki reynst tryggar eða tryggingar rýrnað vegna óviðráðanlegra verðbreytinga. En jeg vil benda á það, að það, að svona lengi drógst að veita ábyrgðina fyrir því láni, sem hjer er um að ræða, stafaði einmitt af því, að það var verið að reyna að ganga sem best frá tryggingunni. Jeg held sem sagt, að menn ættu að fara mjög varlega í að kasta þungum steini að þeim mönnum, sem á þeim tíma áttu að meta tryggingar. Verðgildi peninga hefir breyst, og auk þess hafa skip rýmað mjög í verði, svo að hagur útgerðarinnar stendur mjög höllum fæti. Enda hefir maður, sem þessu er nákunnugur, sagt hjer, að ein fjögur útgerðarfjelögin hjer stæðu sæmilega að vígi, en hin væru öll meira eða minna gjaldþrota.