04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf hjer raunar engu að svara, því að hv. þm. Ak. (BL) hefir tekið af mjer ómakið. En mjer dylst það ekki, að þegar maður ber saman þá ábyrgðarheimild, sem þingið samþykti 1922, og þá, sem nú er um að ræða, þá er munurinn mjög mikill. Og jeg býst ekki við því, að hluthafar fjelaganna yfirleitt hefðu boðið persónulega trygging af annari ástæðu en þeirri, að stjórnin hafi ekki gert neinn kost á ábyrgð ríkisins að öðrum kosti. En þegar hvíldi jafnmikið á 1. veðrjetti í skipum þessa fjelags eins og tekið hefir verið fram, þá var tryggingin alvel ónóg og því teflt á tvær hættur að ganga inn á slíkt. Nú er það líka komið á daginn, að ríkissjóður, eða þeir, sem staðið hafa að þessu fyrir hans hönd, hafa tapað á ábyrgðinni, eins og útlitið er nú.

Jeg hverf ekki frá því að slá því föstu, að slík ábyrgðarheimild sem þessi geti aðeins gilt fyrir það ár, sem fjárlögin ná yfir. Og þó hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hjeldi því fram, að fjárlög væru jafnan látin gilda einn til tvo mánuði fram yfir áramót, þá getur það verið rjett hvað snertir greiðslur á beinum fjárveitingum. En þetta tilfelli kemst í öllu falli ekki einu sinni undir þá reglu, því heimildin fyrir ábyrgð þessari var ekki notuð fyr en 26. sept. árið eftir. Þetta vakti fyrir mjer, er jeg í upphafi talaði um þetta mál. Annars er tilgangslaust að deila um það, hvort ábyrgðarveitingin hafi verið rjettmæt eða ekki, úr því sem komið er. En mjer þætti gott, ef þessar athugasemdir mættu verða til þess, að slíkt kæmi ekki fyrir í framtíðinni.