04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2807)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. (Björn Líndal):

Jeg vildi leiðrjetta þann misskilning, sem mjer virtist koma fram í orðum hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Hann virtist ekki geta viðurkent það, að 2X7 eru ekki nema 14, og ef 7 þús. £ mega mest hvíla á hverju skipi á undan veðrjetti ríkissjóðs, mega ekki meira en 14 þús. £ hvíla á tveimur skipum. Þetta var það hámark, sem telja má að ákveðið hafi verið á þinginu 1921, hafi annars nokkuð mátt á skipunum hvíla á undan veðri. ríkissjóðs. Og samkvæmt því mátti ábyrgðin nema 400 þús. kr. fyrir bæði skipin, næst á eftir 14 þús. £. En hún varð ekki nema 5 þús. £ eða 150 þús. kr. á bæði skipin, og er það auðvitað nokkur bót í máli, þar sem á undan þessum veðrjetti ríkissjóðs hvíldu 20 þús. £ á skipunum í stað 14 þús. £ mest.

Hvort þetta hafi verið rjettur skilningur hjá stjórninni, að nota heimildina þannig, skal jeg ekki um segja. En hitt er víst, að allar hinar ábyrgðirnar, sem heimilaðar voru 1921, voru trygðar með 1. veðrjetti í skipunum, en það sýnir, að varhugavert hefir þótt að víkja frá þeirri reglu. Ríkissjóður hefir heldur ekki beðið neitt fjárhagslegt tjón vegna þessara ábyrgða. Ábyrgðin fyrir „Kára“-fjelagið er hrein undantekning og eina hættulega ábyrgðin.

Út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) skal jeg taka það fram, að jeg drap á það í framsöguræðu minni, að hvergi sæist, að loforð hefði verið gefið af stjórninni um ábyrgð samkv. ábyrgðarheimildinni 1922. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að ef slíkt loforð hefði verið gefið, þá hefði verið rjett að efna það, enda þótt komið væri fram á árið 1923, og ef stjórnarskifti yrðu undir slíkum kringumstæðum, þá væri viðtakandi stjórn bundin við loforð fráfarandi stjórnar. Þessu skal jeg ekki andmæla, en jeg hefi hvergi getað sjeð, að stjórnin hafi verið bundin slíku loforði, og meðan jeg fæ ekki slíka sönnun, þá vil jeg halda því fram, að stjórnin hafi alls ekki verið bundin.