04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, því jeg vil ekki nota málfrelsi hjer í hv. deild til þess að blanda mörgu öðru í umræður. Aðeins vildi jeg kvitta fyrir vinsamlega kveðju frá vini mínum, hv. þm. Barð. (HK), þar sem hann í þessu sambandi mintist á þá breytingu á tekjuskattslögunum, sem stjórnin vildi koma á í fyrra og samþ. var hjer í deildinni.

Hv. þm. vjek að orðum, sem jeg ljet falla út af þessu, og virtist líta svo á, að við Framsóknarmenn hefðum gert rangt, þegar við vildum hindra þessa lagabreytingu. Jeg vil minna hv. þm. Barð. (HK) á það, að ef hann vill bera fram þungar ávítur, þá á hann að „skjóta geiri sínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“. Við Framsóknarm. erum í minni hl. í báðum deildum. En voru það bara Framsóknarmenn í Ed., sem neituðu þessari breytingu? Nei. Allir flokksmenn hv. þm. Barð. (HK) neituðu, því að þeir álitu rangt að samþ. þessa skattabreytingu. Og jeg hefi meira álit á Íhaldsm. fyrir þetta. Þeir sáu, að við höfðum á rjettu að standa, og stóðu með okkur. Vilji hv. þm. bera ásakanir á einhverja fyrir þetta, þá eru það líka flokksmenn hv. þm. í hv. Ed.

Sá grundvöllur, sem við stöndum á, er sá, að útgerðarfjelögin eigi að borga sína skatta, en að við eigum hinsvegar að skapa öllum atvinnurekstri Öruggan grundvöll til þess að stunda sína atvinnu, og þá fyrst og fremst verðfesta peninga.