04.03.1926
Neðri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2814)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði að láta þetta líða hjá mjer án þess að taka til máls. En það er aðeins ein spurning, sem jeg vildi leyfa mjer að bera upp fyrir hæstv. stjórn og hv. nefnd.

Því er haldið fram, að frá ríkissjóðsins hálfu skifti það engu að gera þessa tilfærslu. Má jeg þá spyrja: Skiftir það bankann nokkru? Hvers vegna gerir hann þetta að skilyrði? Mjer kemur það þannig fyrir, að úr því að bankinn setur þetta skilyrði, þá álíti hann sjer einhvern hag í því. Og ef draga má ályktun af því, þá spilar ríkissjóðurinn þessari tryggingu úr höndum sjer, sem hann annars kynni að hafa eitthvert gagn af.