27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2833)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki átt kost á því að vera hjer við það sem af er þessari síðari umræðu málsins, vegna þess að jeg hefi verið bundinn við þingstörf í hv. Nd.

En jeg sje, að hjer er fram komin, á þskj. 203, till. til rökstuddrar dagskrár frá hv. minni hluta nefndarinnar, sem jeg geri ráð fyrir að sje búið að ræða hjer eitthvað við fyrri hluta þessarar umræðu.

Vegna þeirrar till. og þeirra forsendna fyrir henni, sem er að finna í nál. hv. minni hl., finn jeg ástæðu til að fara nokkrum orðum um málið.

Í nál. er það gefið í skyn, að jeg hafi haldið einhverjum upplýsingum fyrir þinginu, þar sem það er orðað svo, að nefndin hafi haft fundi með framkvæmdarstjóra h. f. „Kára“ og bankastjórum Íslandsbanka, og við rannsókn málsins hafi það komið í ljós, að jeg hafi í desember s. l. samþ. að færa veðrjett ríkissjóðs aftur fyrir rekstrarlán, sem bankinn veitti fjelaginu frá þeim tíma og þangað til þingið tæki afstöðu til málsins. Jeg hefi svo heyrt það utan að mjer síðustu daga, að þessi frásögn minni hl. eigi að þýða það, að nefndin hafi fengið þessar upplýsingar, ekki frá mjer, heldur frá þessum aðiljum, stjórn h. f. „Kára“ og stjórn Íslandsbanka, en jeg hafi haldið þessum upplýsingum leyndum.

Út af þessu verð jeg fyrst að minnast ofurlítið á, hvernig þetta mál kom fyrir þingið. Það kom þannig fyrir þingið, að jeg sneri mjer til fjhn. Nd. með skjöl málsins og gaf á nefndarfundi mjög ítarlega skýrslu um það, sem gerst hefir. En alt það, sem gerst hefir í málinu, er að finna í þeim skjölum, sem jeg þá jafnframt afhenti nefndinni. Jeg gerði samt á nefndarfundi grein fyrir öllum höfuðatriðum úr málinu og þar á meðal fyrir því, að stjórnin var frá upphafi tilleiðanleg til þess að færa þennan veðrjett í skipum fjelagsins aftur fyrir rekstrarlán handa fjelaginu til loka yfirstandandi vertíðar, og bauð það. En það var ekki þegið, því það nægði ekki til þess að tryggja fjelaginu þetta rekstrarlán. Þetta varð ríkisstjórnin, eins og þá stóð, að telja alveg sjálfsagt að gera, ef það gæti orðið til þess, að fjelagið gæti haldið áfram, af því að í fyrsta lagi var veðrjettur ríkissjóðs alls enginn, svo framarlega að þá ætti að ganga að fjelaginu og gera gjaldþrota, í öðru lagi af því, að öll reynsla í togaraútgerð undanfarinna ára hefir sýnt, að á þessu tímabili, frá áramótum til vertíðarloka, hefir það ekki brugðist, að einhver ávinningur yrði umfram rekstrarkostnað. En að færa veðrjettinn aftur fyrir rekstrarlán þýddi það, að tekjurnar af rekstri tímabilsins áttu fyrst og fremst að ganga til endurgreiðslu á því láni, og óheimilt að verja rekstrartekjunum til nokkurs annars, fyr en rekstrarlánið væri að fullu upp borgað. Með þessu móti hefði veðrjettur ríkissjóðs komist aftur í sitt fyrra horf, þegar rekstrarlánið var upp borgað.

Og þetta áleit stjórnin frá upphafi rjett að gera, eins og sjá má í skjölum þeim, er afhent voru hv. fjhn. Nd. og legið hafa nú um stund hjá fjhn. þessarar hv. deildar.

Eins og bent er á í brjefi fjármálaráðuneytisins 19. des. 1925, sem liggur fyrir í skjölum þessum í handriti, eins og önnur skjöl stjórnarráðsins, þá náðist ekki endanlegt samkomulag um þetta atriði, en ráðuneytið fjelst á fyrir sitt leyti að gefa eftir veðrjettinn fyrir rekstrarláni, þangað til Alþingi kæmi saman. Síðasta málsskjalið er þá veðleyfið, og athugaði fjhn. Nd. öll plöggin og veðleyfið, og hafði fyrir sitt leyti ekkert á móti því að veita þá víðtækari tilfærslu á veðrjettinum, sem fram á var farið. En stjórninni þótti það ekki nægja að fá yfirlýsingu fjhn. um þetta, heldur fór jeg fram á það, að nefndin flytti þáltill. um tilfærsluna. Hún gerði það og tók þannig málið að sjer, og var stjórnin þar með laus við það.

Þegar málið kom svo hingað, fylgdi jeg því úr hlaði með nokkrum orðum, en vísaði að öðru leyti í málsskjölin, þar sem allar upplýsingar væru að finna.

Vona jeg því, að það sje ekki tilætlun minni hl. fjhn. að gefa í skyn í nál. sínu á þskj. 203, að jeg hafi leynt einhverju eða haldið fyrir þinginu upplýsingum í þessu máli. Að vísu segir nál. þetta ekki berum orðum, en mjer er kunnugt um, að ýmsir hafa þó lesið það á milli línanna og einmitt skilið nál. í þessa átt. Minni hl. segir í áliti sínu, að veðrjettur, sem var ríkissjóði 13 þús. kr. virði um áramót, sje nú upp jetinn, og veit jeg ekki, hvaðan honum kemur sú staðhæfing. Rekstrarafkoma fjelagsins þennan tíma er óuppgerð enn, eða var ekki fyrir 1–2 dögum, þegar jeg spurðist fyrir um það.

Hins vegar finst mjer síst að furða, þó einhver halli væri á rekstrinum nú, þegar á það er litið, að aðalvertíðin er eftir. Allar þær vonir, sem menn gera sjer um afkomu fyrirtækisins, velta á því einu, að fjelaginu sje gert fært að halda skipum sínum úti á þeim kafla vertíðarinnar, sem er bestur talinn, en það er að minsta kosti út aprílmánuð.

Jeg vil aðeins minna á það, sem jeg hefi margtekið fram áður og gert þá grein fyrir, að veðrjettur ríkissjóðs var við áramót einskis virði. Á fyrsta veðrjetti hvíldi þá 487 þús. kr., og þó að skipin væru talin 500 þús. kr. virði, var öllum ljóst, að svo mikið verð mundi aldrei fást fyrir þau, ættu þau að fara undir hamarinn. Með þessu er því sýnt, að ríkissjóður gat ekki talið sjer neina tryggingu í veði því, sem á skipunum hvíldi.

Og ef stöðva á svona fyrirtæki, má búast við, að ýms gjöld sjeu ógreidd, sem ganga fyrir öllum öðrum skuldum, t. d. ekki ósennilegt, að hálft mánaðarkaup skipshafnarinnar sje ógreitt, áður en fjelagið neyðist til þess að gefa sig upp. Sömuleiðis tekur það tíma að gefa sig upp; skipin mega ekki vera mannlaus þann tíma, sem líður frá því að fjelagið gaf sig upp og þangað til salan kemst í kring; en allur sá kostnaður, sem af sölunni leiðir, hefir forgangsrrjett fyrir veðhöfunum. Svo hlaðast vextir á vexti ofan, og má þá gera ráð fyrir, að alt þetta fari langt fram úr 13 þús. kr., og ríkissjóði því engin trygging í þessum veðrjetti.

Eins og málið horfði við, þegar fjelagið fór fram á tilfærslu veðrjettarins, var mjer ljóst, að yrði þá gengið að fjelaginu, fengist ekki einn einasti eyrir upp í þá skuld, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir.

Nei, veðrjetturinn var þá þegar upp jetinn, í bili að minsta kosti; en þar með er ekki sagt, að hann þurfi að vera upp jetinn um alla framtíð, ef fjelagið getur haldið áfram og náð sjer upp. 2. veðrjettur á eftir hárri skuld þarf ekki að vera tapaður með öllu, þó að hann sje einskis virði um stund. Alt getur breyst til hins betra, ef fyrirtækið lifir áfram og nær sjer upp, með því að skuldin, sem hvílir á fyrsta veðrjetti, borgast niður. Fyrir þann, sem nýtur 2. veðrjettar, getur það orðið mikils virði með tímanum, eftir því sem borgast niður á 1. veðrjetti.

En þetta skilur hv. minni hl. ekki og byggir dagskrártill. sína á því, að veðrjettur ríkissjóðs hafi verið upp jetinn um áramót með því að færa hann aftur fyrir rekstrarlán það, er bankinn veitti þá fjelaginu, svo það þyrfti ekki að stöðva. En þetta er misskilningur. Veðrjetturinn er ekki upp jetinn. Hann getur orðið nokkurs virði í framtíðinni, ef svo er um hnútana búið, að fjelagið fái að lifa og starfa áfram. Það, sem gert hefir verið í málinu, var gert til þess, að Alþingi gæti tekið afstöðu til þess. Jeg vil láta í ljós, að mjer finst óviðeigandi, ef Alþingi fer nú að velta slíku framleiðslufyrirtæki sem þessu, en það er nú á valdi Alþingis, hvort það vill vera banamaður þess. Um hitt verður ekkert sagt, hvort fjelagið lifir lengur eða skemur, þótt þessi tilfærsla fáist. (JJ: Jeg vil leyfa mjer að benda á, að sumt af þessu er ósannindi).

Það er nú komið að 2. umr. fjárl. í hv. Nd., og verð jeg að fara þangað og býst ekki við að geta verið við frekari umr. um þetta mál í þessari hv. deild. En jeg skil eftir öll skjölin í höndum meiri hl. nefndarinnar, og þau munu sanna mitt mál.