27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2834)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg geri nú ráð fyrir því, eins og hv. frsm. meiri hl. (JJós) tók fram, að mál þetta sje það upplýst orðið, að jafnkýtingur um það hafi ekki mikinn árangur í för með sjer. En hitt finst mjer ástæða að leiðrjetta, sem hv. frsm. (JJós) afbakaði orð mín, því hann hafði alt annað eftir mjer en jeg sagði. Hann sagði, að jeg legði áherslu á, hvers virði þessi eftirgjöf veðrjettarins væri fyrir hlutafjelagið, fanst það aðalatriðið, og gat þess svo, að jeg mundi hafa haft fyrir augum, að hluthafarnir hefðu sem mestan hag af tilfærslunni.

En þetta er hreinasti misskilningur, að jeg ekki kveði frekar að, því jeg mintist víst alls ekki á hag hluthafanna einu einasta orði, en hitt sagði jeg, og á það lagði jeg áherslu, að jeg gæti ekki sjeð og ætti bágt með að trúa því, að tilfærsla veðrjettarins hefði nokkur minstu fjárhagsleg áhrif á afkomu fjelagsins.

Annars verð jeg að segja, að mjer þóttu ærið sundurleitar og einkennilegar skoðanir hans á þessu máli. Í öðru veifinu hjelt hann því fram, að ekki yrði nema um tap að ræða hjá fjelaginu, en á hinn bóginn misti ríkissjóður spón úr askinum sínum, ef fjelagið legðist niður, því það hefði goldið honum skatt o. fl., auk mikillar atvinnu, sem fjöldi manna hefði haft á sínum tíma.

Jeg verð að segja eins og er, að mjer virðist kenning þessi nálgast það, að hv. frsm. meiri hl. (JJós) mundi ekki telja óheillavænlegt að gera þetta fjelag að ríkisfyrirtæki, og þó að halli yrði á rekstrinum, mundi honum reiknast svo til, að nokkuð græddist samt í framtíðinni.

Að vísu skal það játað, að jeg er ekki fráleitur ríkisrekstri ýmsra fyrirtækja, en það liggur ekki fyrir að ræða það mál nú. En því er jeg á móti, að ríkissjóður taki að sjer rekstur togarafjelaganna, og allra síst finst mjer, að komið geti til mála, að hann taki að sjer rekstur þeirra fjelaga, sem að allra dómi, er til þekkja, eru á heljarþröminni.

Eins og tekið er fram í nál. okkar minni hl., þá vildi bankastjórn Íslandsbanka engu um það lofa, hvort fjelagið fengi rekstrarlán áfram, þótt leyfð yrði tilfærsla á veðrjetti ríkissjóðs. Hinsvegar taldi bankastjórnin, að fjelaginu gæti verið nokkur hjálp að tilfærslunni. Get jeg þó ekki sjeð, að svo sje, en bankanum er auðvitað hagur að henni.

Þá sagði sami hv. þm. (JJós), að það gæti verið vinningur fyrir Íslandsbanka, sem landinu sje einskis virði. Þetta finst mjer undarlegt. Eina skýringin, hans máli til sönnunar, er sú, að bankinn geti þá frekar en áður, hvenær sem er, gengið að veðinu. En hjer er um annan veðrjett að ræða, og kemur hann því varla til greina fyr en fyrsti veðrjettur er að fullu greiddur, og til þess að veðhafi að öðrum veðrjetti geti látið selja veðið, verður hann að leysa út fyrsta veðrjett eða það, sem ógreitt er af því, er á honum hvílir. Og þá kemur spurningin: Svarar það kostnaði að leysa út fyrsta veðrjett? Eins og nú standa sakir, hvílir svo mikið á fyrsta veðrjetti (487 þús.), að litlar líkur eru til, að svo sje.

Hitt fæ jeg sjeð, að tilfærsla á veðrjetti um 150 þús. kr. sje góð fyrir Íslandsbanka, svo fremi að fjelagið haldi áfram, og það er enginn efi á því, að hjer er verið að vinna fyrir hann, því að jeg sje ekki, að fjelagið sjálft sje nokkru nær en áður.

Nú held jeg, að jeg hafi gert hv. frsm. meiri hl. (JJós) full skil, og hafi ekki meira við ræðu hans að athuga.

En út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) vil jeg taka það fram, eins og hann raunar játar — og þar hefir hann misskilið nál. okkar — að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir haldið upplýsingum leyndum fyrir nefndinni. En jeg tel ekki, að um neina afsökun eigi að vera að ræða í þessu efni. Því að það er rjett, að það var fyrst hjá fjhn. Ed., sem upplýst var um þetta mál, því að enginn hafði vitað, hvernig í því lá, og ekkert kom fram í umr. í hv. Nd. um það, og þegar málið kom til fjhn. Ed., voru allir jafnnær í nefndinni, hvernig málið horfði við. (JJ: Og sömuleiðis allir þm). Já, það er satt, nema ef hv. 1. landsk. (SE) hefir eitthvað vitað um það. Að öllu þessu sögðu fæ jeg ekki skilið, að neitt sje ofmælt í nál. minni hlutans.

Hæstv. fjrh. (JÞ) segist hafa gefið hv. Nd. skýrslu um málið, eins og það liggur fyrir. Þetta getur verið rjett á sinn hátt. En þessi skýrsla hefir aldrei komið til þessarar hv. deildar, og jeg býst við því, að það sjeu býsna margir hv. þm. í Nd., sem ekki vissu, hvað til stóð. Málinu var hraðað í gegnum þá hv. deild með afbrigðum frá þingsköpum og, að því er jeg held, með lítilli rannsókn.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir lýst yfir því, hvernig fjárhagur fjelagsins stóð við síðastliðin áramót. En jeg fæ ekki betur sjeð en að Íslandsbanki hafi þá lánað 13 þús. kr. út á veðrjett, sem einskis virði var talinn þá, eftir því sem hv. fjrh. segist frá. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að enda þótt veðrjetturinn hefði verið einskis virði um áramót, þá þyrfti hann ekki að vera það um alla eilífð. Þetta má vel vera, en um framtíð fjelagsins er auðvitað rjettast að spá sem minstu. Fram að 1923 voru kreppuár fyrir íslenska skipaflotann, en þann storm reið fjelagið af. Árið 1924 var eitthvert hið mesta veltiár, sem hjer hefir komið. Og ekki var árið 1925 miklu lakara. Þá græddu útgerðarfjelögin of fjár, en hvað er orðið af öllum þeim gróða? Jeg fæ ekki sjeð, að hann hafi komið ríkissjóði til góða, því að sú skuld, er ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir fjelagsins vegna, hefir hækkað síðan, svo að nú er hún um 173 þús. kr., og þess vegna hlýtur maður að ætla, að fjelaginu hafi hrakað, þrátt fyrir góðærin. Fjelagið þarf því að græða mikið á næstu árum, til þess að geta ljett af sjer öllum þeim skyldum, sem á því hvíla, áður en að veði ríkissjóðs kemur. En satt að segja geri jeg mjer litlar vonir um það, að annar veðrjettur í skipum fjelagsins sje nokkurs virði fyrir ríkissjóð, og tel það vonleysisstefnu, því lengur sem hangið er í því hálmstrái, og þó ver er lengur líður, því skuldin getur haldið áfram að hlaða vöxtum utan á sig, eins og hún hefir gert s. l. ár.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að með þessari þáltill. ætti Alþingi að skera úr því, hvort fjelagið ætti að deyja eða ekki. Þetta slagorð hræðist jeg ekki. Ef hjer hefði verið um það að ræða, að ríkið ætti að leggja til rekstrarfje til vertíðarloka, þá gæti jeg gengið inn á það, að það væri þingið, sem ætti að skera úr því, hvort fjelagið ætti að lifa eða ekki. Það er að mínu áliti ekki annað en slagorð að segja það, að fjelagið sje drepið með því að synja um þessa tilfærslu. Fari svo, að Íslandsbanki neiti um rekstrarfje, ef þingið synjar um þetta, þá má vera, að hann færi það fram sem vörn, að hann hafi verið neyddur til þess, vegna þess að tilfærslan hafi ekki fengist. En því mundu fæstir trúa, þar sem því er haldið fram, að veðið sje einskis virði, að til sje sjerstök tegund af einskisverðum veðum, sem Íslandsbanki láni út á. Ef veðið er einskisvert, þá held jeg, að Íslandsbanki láni ekki út á það. Það kom líka ljóslega fram á fundi, sem fjhn. hjelt með stjórn Íslandsbanka. Þar skýrði einn bankastjórinn sem sje frá því, að rekstrarfjeð hefði ekki verið lánað í haust út á þetta veð, heldur hefði bankinn líka krafist 10 þús. kr. sjálfskuldarábyrgðar af stjórnendum fjelagsins. Þetta sýnir ljóslega, að Íslandsbanki metur veðið lítils. Jeg get ekki annað sagt en að mjer finst þetta mál mesta skollaleiksmál. Jeg ætla svo ekki að lengja umr. meira um þetta, jeg hefi gert afsökun mína með því að leggja til, að þetta mál verði afgreitt á þennan hátt, að þáltill. verði feld. Ef svo verður ekki, þá verð jeg að segja það, að jeg á ekki sök á því.