27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Halldór Steinsson:

Sökum þess, að jeg hefi sjerstöðu í þessu máli, þykir mjer hlýða að gera örstutta grein fyrir atkvæði mínu, áður en gengið verður til atkvæða. En fyrst vildi jeg víkja stuttlega að síðustu orðum hv. 3. landsk. (JJ). Mjer þótti hann taka nokkuð djúpt í árinni gagnvart hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann gaf í skyn, að hann þyrði ekki að vera viðstaddur þessa umr. hjer í hv. deild. Jeg vona, að öllum sje það ljóst, að þegar stendur á umr. fjárlaganna í Nd., þá er það skylda fjrh. að vera þar viðstaddur og láta það sitja fyrir öllum umræðum öðrum. Enda mun öllum hv. þdm. ljóst af viðskiftum þeirra hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. 3. landsk. (JJ) hjer í þessari hv. deild, við fjöldamörg tækifæri, að það hefir ekki borið á neinu hugleysi hjá hæstv. fjrh. (JÞ).

Þegar litið er á sögu þessa máls frá byrjun, þá virðist það undarlegt, að það skuli vera borið fram nú á þessu þingi, eftir alt, sem á undan er gengið. Frá fyrstu var það skýrt tekið fram af öllum, í ræðum um málið í þinginu, að það gæti ekki komið til mála, að ríkið veitti neina ábyrgð, nema hún yrði fyllilega trygð með veði í eignum fjelagsins. Kom þessi skoðun eins fram hjá þeim, sem allra lengst vildu ganga. Þáverandi stjórn framkvæmdi líka vilja þingsins þannig, að allar fyrstu ábyrgðirnar verða að teljast sæmilega trygðar. En þegar kemur til ársins 1923, þá er þessi umrædda ábyrgð veitt, og hún er sú fyrsta, sem stjórnin veitir veðlaust eða a. m. k. gegn gagnslausu veði. Þetta er í sjálfu sjer ákaflega ámælisvert, en það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut. Jeg verð líka að segja það, að jeg tel, að núverandi stjórn hafi ekki gert fyllilega skyldu sína, að hún eftir góðærið 1924 skyldi ekki grenslast eftir því, hvort ekki væri hægt að tryggja þetta gagnslausa veð. Það væri því undarlegt, ef þingið færi ná að lýsa blessun sinni yfir því, að vilja þingsins 1921 hafi verið traðkað.

Þetta mál hefir aðallega tvær hliðar. Snýr önnur að ríkinu, en hin að atvinnulífi landsins. Þegar sú hlið er athuguð, sem snýr að ríkinu, þá vita hv. þm., að það er skylda þeirra að stofna ekki hag ríkissjóðs í hættu nema brýna nauðsyn beri til. Hvað snertir atvinnulífið, þá getur verið, að mjög brýnar ástæður sjeu til þess, að ríkið komi þar til hjálpar. Og jeg verð að segja það, að ef það kæmi fram í þessu máli, að fjelaginu væri trygt lán yfir vertíðina, gegn tilslökun ríkisins á veðrjettinum, þá horfði það dálítið öðruvísi við, því með því að leggja fjelagið niður í byrjun þessarar vertíðar, þá tapa margir atvinnu, sem annars gæti orðið þeim að góðu liði. En nú er engin trygging fyrir því, að fjelagið geti haldið áfram, þó þingið slaki til.

Mín afstaða er því sú, að jeg er á móti dagskránni, vegna þess, að mjer virðist hún fela í sjer hálfgert vantraust á stjórnina, sem mjer virðist hún ekki eiga skilið. Því eins og ástandið er, þá sýnist mjer stjórnin ekki ámælisverð fyrir það, þó hún veitti þessa tilslökun, því það er alt annað að færa veðrjett aftur fyrir rekstrarlán, sem ætla má að verði greitt bráðlega, heldur en færa hann aftur fyrir fast lán. Jeg get því ekki verið með neinni tillögu, sem felur í sjer vantraust á hæstv. stjórn fyrir þessa sök. En jeg get heldur ekki verið með aðaltill., sökum þess, sem jeg hefi nú tekið fram, að það er ekki víst, hvort lán muni þá að heldur fást til þess að gera skipin út á vertíðinni. Þá fyrst, þegar vissa er um það fengin, get jeg sagt um það, hvort jeg get verið með tilfærslu á veðrjetti ríkissjóðs eða ekki.