27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2839)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi talað áður í þessu máli og ætlaði ekki að tala meira, en háttv. 5. landsk. (GunnÓ) hefir gert það að verkum, að jeg sje mjer ekki annað fært en nota þann rjett, sem jeg hefi til þess að taka til máls einu sinni enn.

Þessi hv. þm. taldi upp margt, sem hann sagði að jeg vissi, eða að minsta kosti ætti að vita, og var altaf að stagast á orðunum: „Hann veit“, „hann veit“. Það er nú svo um mig, eins og marga fleiri, að jeg veit vitanlega töluvert, en ekki alt, því miður. Meðal annars sagði hann, að jeg vissi, að svo framarlega sem fjelagið hætti nú, þá væri alls engin von um, að ríkissjóður fengi endurgreidda þá upphæð, sem hann stendur í ábyrgð fyrir. Þetta mun vera rjett. En hann sagði ennfremur, að ef fjelagið fengi að halda áfram, þá myndi það ef til vill geta greitt skuld þessa. Þetta er meðal annars eitt af því, sem jeg ekki veit eða fæ ekki skilið. Jeg hefi nefnilega enga von um, að skuld þessi verði greidd hjeðan af, úr því að engin greiðsla fjekst á árinu 1924, því að jeg er í efa um, að nokkurntíma komi betra ár yfir sjávarútveg þessa lands. Og hvað stendur fjelagið kanske betur að vígi nú, eftir góðærin 1924 og ’25, en það stóð 1923? Jeg sje það ekki. (GunnÓ: Það stendur að sumu leyti betur að vígi.). Ekki að öðru leyti en því, ef það skyldi eiga eitthvað meira af fiskreitum í Viðey. Að minsta kosti hefir því verið haldið fram, að veð ríkissjóðs í skipunum hafi þá verið einskis virði, og sje það enn. Og ef litið er á hitt, að 1923 er ríkissjóðir í ábyrgð fyrir 5000 £, sem eftir þáverandi gengi var um 150 þús. kr., en er eftir núverandi 111 þús. Þessum 5000 £ hefir verið breytt í íslenskar krónur á þeim tíma, er gengið var 30 kr., og ætti því upphæð sú, er ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir, að vera 150 þús. En nú hafa bæst við ógreiddir vextir, svo upphæðin er orðin alls 173 þús.

Er þetta nú betra ástand en var 1923? Mjer finst það ekki vera.

Jeg lít því svo á þetta mál, að úr því að hagur fjelagsins er ekki betri en þetta, eftir þessi 2 góðu ár, þá sje engin von til, að það rjetti við aftur. Annars álít jeg, að það sjeu viss takmörk fyrir því, hversu miklar skuldir sjávarútvegurinn geti borið, til þess að atvinnureksturinn geti borið sig. Að minsta kosti er það þannig um smábátaútveginn. Og jeg er viss um, að hv. 5. landsk. (GunnÓ) veit það vel, að þegar skuldirnar á Eyjabátunum eru orðnar 60–70 þús. kr. á bát, þá er vonlaust um, að þeir beri sig. Það er einmitt á þessu, sem jeg byggi það, að jeg tel vonlaust um, að fjelag þetta reisi sig við aftur, þar sem það er margsannað, að skuldir þess eru orðnar svo miklar, að þær eru komnar upp fyrir öll slík takmörk.

Þá sagði þessi hv. þm., að jeg hefði verið slysinn í þessu máli. Veit jeg ekkert, við hvað hann á með þessu. Að minsta kosti hefi jeg ekki orðið fyrir neinum meiðslum og vona, að jeg verði ekki. Get jeg því ímyndað mjer, að þetta standi í sambandi við þau ummæli síðar í ræðu hans, að hlutafje í fjelag þetta hefði verið smalað sauðlaust í kjördæmi mínu. (GunnÓ: Í þeim skilningi.). Já, jeg bjóst nú ekki við, að hann ætti við ferfætt sauðfje. Býst jeg því við, að þessi slysni mín, sem hann talar um, sje sú, að jeg hafi sloppið hjá í smölun þessari. En jeg verð að telja mig hafa sloppið vel.

Þá sagði hann, að jeg skyldi hugsa mig um tvisvar, áður en jeg greiddi atkvæði á móti till. þessari, því að kjósendur mínir myndu gjalda mjer rauðan belg fyrir gráan, ef jeg samþykti hana ekki. (GunnÓ: Þetta voru ekki mín orð.). Það er satt, en meiningin var þessi. Jeg get fullvissað þennan hv. þm. um, að þessar og þvílíkar áminningar hafa engin áhrif á mig. Jeg mun í þessu máli sem öðrum fylgja sannfæringu minni.

Það mun nú fara svo um þetta mál, eins og svo mörg önnur, að það þarf töluverður tími að líða, þangað til kveðinn verður upp um það óhlutdrægur dómur. En þegar sá dómur verður kveðinn upp, er jeg ekkert hræddur um, að hann verði mjer ekki í vil. Sje jeg svo ekki ástæðu til, að talað sje frekara um þetta mál. Það mun lítið upplýsast, þó að um það verði rætt lengur.