29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi ekki lengt umræðurnar um þetta mál, sem nú er búið að standa hjer yfir í hv. deild í 4 daga. Og jeg hefði alls ekki staðið upp, ef það væri ekki til þess að koma í veg fyrir misskilning.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði, að þetta mál hefði verið flutt þannig, að jafnvel stuðningsmenn hæstv. stjórnar þyrðu ekki að greiða því atkvæði. Þetta er rangt hjá hv. þm. (SE). Jeg mun ekki greiða atkvæði með till., en jeg álít það, eins og hæstv. fjrh (JÞ) hefir tekið fram, heldur ekki neitt fráfararatriði fyrir stjórnina, þó till. falli. Hinsvegar verð jeg, þrátt fyrir allar umr., að telja málið svo illa upplýst, að jeg hefi ekki getað fundið næga ástæðu til þess að greiða því atkvæði. En aftur á móti skilst mjer, að ef till. verður samþ., þá skapi hún afleiðingaríkt fordæmi, og þess vegna er jeg á móti till.