27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Jón Baldvinsson:

Jeg býst ekki við, að jeg hafi látið í ljós í nefndinni, að jeg fjellist á skýringar borgarstjóra í brjefi hans, eins og hv. frsm. benti til. Sá fyrirvari, er jeg hefi í nefndarálitinu, þýðir það, að jeg tel rjett, að halda megi happdrætti með leyfi sveitarstjórnar eða bæjarstjórnar, án þess það þurfi að koma til kasta dómsmálaráðuneytisins. Þótt jeg hafi nú ekki komið með brtt. um þetta, finst mjer það samt sem áður nokkuð mikið í borið að setja sjálft dómsmálaráðuneytið í gang, þó að eitthvert fjelag úti um land vilji halda smávegis happdrætti innan fjelags og í ákveðnum tilgangi. Það er greinilega tekið fram í greinargerðinni, að ekki verði happdrætti haldið nema að fengnu leyfi dómsmálaráðuneytisins, ekki einu sinni innanfjelags. Jeg hefði kosið, að þetta þyrfti ekki að fara lengra en til bæjar- eða sveitarstjórnar. Þessa sjerstöðu hefi jeg í nefndinni, en mjer dettur ekki í hug að skrifa undir þær ástæður, sem eru færðar fram í brjefi borgarstjóra frá 20. febrúar síðastl.